Greint var frá því síðdegis í gær að starfsmaður Laugarnesskóla hafi verið handtekinn. Lögregla mætti í skólann þar sem starfsmaðurinn var handtekinn í kjölfar alvarlegs atviks þar sem hann og nokkrir nemendur áttu í hlut. Foreldrum barna í skólanum var greint frá handtökunni en Björn Gunnlaugsson, skólastjóri Laugarnesskóla, sendi foreldrum nýjan tölvupóst nú síðdegis í dag.
Í póstinum sagðist hann gera sér fyllilega grein fyrir áhyggjum foreldra og þeirra barna sem að málinu koma. „Að svo stöddu hefur skólinn því miður ekki heimild til að upplýsa nánar um málsatvik. Tekið skal fram að umræddur starfsmaður er í leyfi meðan málið er rannsakað,’’ skrifaði Björn. Þá herma heimildir Mannlífs að starfsmaðurinn hafi verið vel liðinn fram að umræddu atviki, bæði meðal nemenda og annars starfsfólks.