Vala Arnadóttir er starfsmaður Eflingar en hún hefur verið í veikindaleyfi síðan hún lenti í slysi síðastliðið sumar. Hún fékk uppsagnarbréf frá lögmanni Eflingar eins og aðrir starfsmenn, klukkan tvö um nótt. Hún skrifaði færslu um málið á Facebook.
Í færslunni sakar hún Sólveigu Örnu og stjórn Eflingar um að leggja niður félags- og þróunarsvið sem hún starfaði hjá, til þess að búa til stöðu fyrir Viðar Þorsteinsson. Það hafi verið gert með því að stofna skrifstofu félagamála sem þjónaði sama tilgangi og sviðið sem lagt var niður. Þá segir hún Sólveigu Önnu ekki hafa staðið með þolendum eineltis af hendi Viðars, heldur sagt upp þeim sviðsstjóra sem þau töldu að ætti upptökin af kvörtununum.
Hér má sjá færsluna í heild sinni:
„Ég er starfsmaður Eflingar í veikindaleyfi eftir að ég lenti í slysi síðasta sumar.
Í nótt kl 2 fékk ég uppsagnarbréf frá lögmanni úti í bæ, en ég er í veikindaleyfi og var búin að tilkynna að ég kæmi ekki aftur til starfa.
Stuttu eftir að sviðið sem ég starfaði hjá var lagt niður var “skrifstofa félagamála” stofnuð og Viðar Þorsteinsson settur þar yfir, skrifstofa hans og starfsfólk þess þjónaði sama tilgangi og „félags- og þróunarsvið” gerði áður svo „skipulagsbreytingin” var nánast engin, nema til þess fallin að losa sig við sumt starfsfólk og setja Viðar yfir einingu sem hann myndi geta sætt sig við eftir að fjölda kvartanna í hans garð gerðu honum erfitt um vik að starfa áfram sem framkvæmdastjóri.
Ég reyndi að biðla til hennar að standa með þeim konum sem alltaf hefðu staðið með henni, konur sem komu til starfa hjá Eflingu til að styðja við hennar baráttu og ég trúði því ekki að hún myndi bregðast þeim, en allt kom fyrir ekki.
Þetta er allt einfaldlega lygi og hefur það margoft komið í ljós bæði í viðtölum við starfsmenn og í úttekt sálfræðistofu á vinnustaðamenningunni.
Þessir félagar skulda mér ekki neitt, en ég á mjög erfitt með að þau skuli mörg hver trúa því upp á okkur, starfsmenn Eflingar að við höfum á einhvern hátt átt annan þátt í þessarri atburðarrás en að kvarta undan óboðlegri framkomu yfirmanns (framkvæmdastjóra) og vonað að Sólveig Anna myndi taka kvartanir alvarlega og standa með sínu starfsfólki sem sannarlega hafði staðið með henni.
Það græðir enginn á þeim farsa sem hófst í lok október í fyrra, ekki starfsmenn og ekki félagsmenn Eflingar.
Ef einhver vinnustaður annar hefði tilkynnt um hópuppsagnir til að svo endurráða starfsfólk á lægri kjörum þá værum við hjá Eflingu fyrst til að verja þau og þeirra réttindi, ef einhver annar vinnustaður hefði ráðist á trúnaðarmenn sína og starfsmenn í fjölmiðlum þá værum fyrst til að fordæma það og taka upp hanskann fyrir það starfsfólk.
Ég var stolt af því að starfa fyrir Eflingu og trúði því að okkar barátta væri réttlát og árangursrík fyrir félagsmenn.