Í dagbók lögreglunnar segir að ökumaður var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna; munnvatnssýni hans skimaðist jákvætt fyrir amfetamíni og kókaíni. Sá hefði tvívegis ekið bifreið undir áhrifum áður á árinu og því var tekin ákvörðun um að svipta hann ökuréttindum til bráðabirgða. Maðurinn var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.
Einnig kemur fram að starfsmaður verslunar er grunaður um að stela vörum úr versluninni að andvirði 865 krónur; sá hafði áður stolið úr versluninni. Starfsmanninum var sagt upp á staðnum og þá var kæra lögð fram á hendur honum vegna þjófnaðarins.
Aðili handtekinn grunaður um að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og að hafa valdið umferðaróhappi, með því að aka á aðra bifreið hjá vínbúð nokkurri. Aðilinn neitaði að hafa ekið bifreiðinni, þrátt fyrir yfirgnæfandi sannanir um hið gagnstæða. Sá blés 2,28‰ og er sömuleiðis sviptur ökuréttindum. Hann var handtekinn, blóðsýni tekið úr honum og hann síðan vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Tveir aðilar, karl og kona voru handtekin í íbúð sinni grunuð um sölu og dreifingu fíkniefna. Lögreglumenn fundu maríjúana lykt koma frá íbúð og könnuðu málið. Maður kom til dyra, en þegar lögreglumenn kynntu honum ástæðu afskiptanna reyndi hann að skella hurðinni á þá og þannig koma sér undan. Lögreglumenn ýttu hurðinni upp og handtóku manninn, en hann veitti talsverða mótspyrnu. Úr varð að lögreglumenn gerðu húsleit í íbúðinni með samþykki húsráðanda. Við leitina fannst talsvert magn af fíkniefnum, bæði ætluðu maríjúana og hvítum efnum, auk peningaseðla, sem er ætlaður ágóði af sölu fíkniefna. Fólkið var fært til skýrslutöku að lokinni stuttri vist í fangageymslu og síðan látið laust.
Óskað aðstoðar vegna manns, sem gekk berserksgang með vínflösku í hendi um miðbæ Reykjavíkur. Maðurinn var mjög æstur og ógnandi og hlýddi engum fyrirmælum þeirra lögreglumanna, sem reyndu að nálgast hann. Hann var því tekinn lögreglutökum og handtekinn. Maðurinn var í annarlegu ástandi og algjörlega óviðræðuhæfur, því var hann vistaður í fangageymslu enda hann ekki fær um að vera úti meðal fólks.
Þrír erlendir ferðamenn handteknir grunaðir um meiriháttar líkamsárás í miðborg Reykjavíkur, en árásarþoli hlaut tannbrot eftir hnefahögg í andlitið. Þá fundust fíkniefni, ætlað kókaín, á tveimur hinna handteknu og voru efnin haldlögð. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu og árásarþola var leiðbeint um aðhlynningu og næstu skref málsins.
Lögregla hefur viðhaft öflugt eftirlit með ölvunar- og fíkniefnaakstri, eins og alltaf. Alls hafa fjórir verið handteknir grunaðir um ölvunarakstur, þrír grunaðir um fíkniefnaakstur og tveir grunaðir um blöndu af hvoru tveggja. Einn þessara reyndi að koma sér undan umferðarpósti lögreglu með því að bakka í burtu, en var eltur uppi og handtekinn gegn talsverðri mótspyrnu. Sá framvísaði meira að segja fölsuðu rafrænu ökuskírteini.