Stefán Eiríksson útvarpsstjóri svarar ekki spurningum Mannlífs um kostnað vegna Eurovision-söngvakeppninnar sem fram fór í síðustu viku.
Fjöldi fylgdarmanna sem fer með keppendum Eurovision-söngvakeppninnar hefur lengi vakið furðu margra en í ár fór um 14 manna fylgdarlið með Diljá Pétursdóttur til Liverpool. Þar á meðal, eða þar að auki, það er á huldu, var sjálfur útvarpsstjórinn Stefán Eiríksson en hann sást bregða fyrir í þáttunum Beðmál í Bítlaborginni sem Siggi Gunnars stjórnaði. Þættirnir fjölluðu um flest annað en Diljá en aðrir Rúv-starfsmenn voru í aðalhlutverki.
Mannlíf sendi eftirfarandi spurningar á Stefán Eiríksson útvarpsstjóra en meðal annars lék miðillinn forvitni á að vita nákvæma tölu yfir fjölda fólks á vegum Rúv sem fór með Diljá til Liverpool. Spurningarnar:
1. Hvað fóru margir á vegum Rúv til Liverpool á Eurovision?
2. Hvaða hlutverki gengdu þau?
3. Hvað kostaði ferðin í heild fyrir Rúv?
Stefán Eiríksson fékk spurningarnar fyrir þremur dögum en hefur enn engu svarað.