Sagnfræðingurinn og varaborgarfulltrúi Vinstri grænna Stefán Pálsson veltir fyrir sér stjórnarsáttmála í nýrri færslu á samfélagsmiðlum og þá sérstaklega auðlindagjaldsklausu sem í honum er að finna en sagnfræðingurinn vill meina að slíkt hafi verið reynt áður.
„Vinsælustu ferðamannastaðir landsins eru í eigu þjóðarinnar og ríkisstjórnin hyggst taka upp auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands. Á meðan unnið er að útfærslu verða innheimt komugjöld.“
„Ég klóra mér aðeins í kollinum yfir þessari klausu í stjórnarsáttmálanum,“ skrifar Stefán. „Er ekki rökréttast að skilja hana sem svo að markmiðið sé að útfæra eitthvað kerfi til að selja inná náttúruperlur í ríkiseigu? Það hljómar ansi mikið eins og náttúrupassinn sem stjórnvöld voru að vandræðast með að innleiða fyrir áratug síðan en gáfust svo uppá, enda horfur á að kostnaðurinn við að reka kerfið færi langt með að éta upp gróðann.“
Stefán spyr einfaldlega hvort það sé ekki til auðveldari lausn á þessu vandamáli.
„En þangað til að kerfið sé tilbúið er gert ráð fyrir að komugjöld verði innheimt. Nú spyr ég mig einfaldlega: er þá ekki bara miklu betra að setja hreinlega á komugjöld til frambúðar? Það er miklu auðveldara í innheimtu og losar okkur við þann hernað gegn tungumálinu að kalla aðgangsmiða að Þingvöllum „auðlindagjald“…“