Stefán Pálsson er ósáttur við bílastæðakjallarann undir Hörpu.
Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson er síður en svo sáttur við bílastæðakjallarann undir Hörpu en hann sagði frá því á Facebook í morgun að hann hefði fengið stöðumælasekt inn á heimabankann í nótt. Var sektin frá fyrirtæki sem heitir Security 115. Segir Stefán að sektinni hafi ekki fylgt nein útskýring um það hvar og hvenær brotið hafi átt sér stað. „Ég þurfti sjálfur að gúggla mig að því að þetta frekar sjoppulega nafn stendur fyrir bílastæðakjallarann undir Hörpu,“ skrifaði Stefán og bætti við að þau hjónin hefðu getað rakið þetta til Barnaþingsins sem var á föstudaginn og að greinilegt sé að færslan í greiðsluvélinni hafi ekki gengið í gegn. „Gott og vel – þá borgar maður þennan reikning,“ skrifaði Stefán og skrifaði að lokum: „En það er algjörlega glatað að fyrirtæki með ógagnsætt nafn stofni óútskýrðar innheimtukröfur sem krefjast þess að fólk þurfi að fara að leggjast í rannsóknarvinnu til að átta sig á þeim.“
Færslan hefur á stuttum tíma fengið hátt í tvöhundruð „like“ og margir hafa hneikslast með honum á þessu.