Stefán Reynir Gíslason kórstjóri og organisti lést á heimili sínu hinn 17. október síðastliðinn, 68 ára að aldri.
Stefán Reynir fæddist þann 23. október 1954, á Sauðárkróki en ólst upp í Miðhúsum í Akrahreppi í Skagafirði. Var hann sonur hjónanna Guðrúnar Stefánsdóttur og Gísla Jónssonar.
Fyrst stundaði Stefán nám við Tónlistarstkóla Skagafjarðar og seinna við Tónlistarskóla Akureyrar og Tónskóla þjóðkirkjunnar en þaðan lauk hann námi í meðal annars raddþjálfun og kórstjórn. Þá tók han einleikspróf í orgelleik árið 1991.
Stefán var vel þekktur í gegnum kórastarf sitt en hann var stjórnandi Karlakórsins Heimis í Skagafirði í tæp 40 ár. Þá lék hann undir og útsetti lög fyrir Álftagerðisbræður frá upphafi.
Stefán hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2015, fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á landsbyggðinni.
Eftirlifandi eiginkona Stefáns er Margrét S. Guðbrandsdóttir. Dætur þeirra eru: Halla Rut, Guðrún, hún lést árið 1978, Berglind, eiginmaður hennar er Sigurgeir Agnarsson, og Sara Katrín, eiginmaður hennar er Hjörleifur Björnsson. Barnabörnin eru fjögur; þau Stefán Rafn, Árni Dagur, Hinrik og Guðrún Katrín.
Útför Stefáns fer fram frá Sauðárkrókskirkju föstudaginn 27. október klukkan 14.
Mbl.is sagði frá andlátinu.
Mannlíf sendir fjölskyldu og vinum Stefáns sínar dýpstu samúðarkveðjur.