Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir tók af sér boxhanskana og skrifaði niður þrumupistil á Facebook í gær. Þar tætir hún í sig alla sem henni fannst hafa smánað forsetakosningabaráttuna sem nú er nýafstaðin.
„Money can’t buy you love
Ég sé mig knúna til að segja nokkur orð um þessa kosningabaráttu svo ég losni við óþolið úr kerfinu. Síðan vona ég að ég þurfi aldrei að ræða þennan smánarblett á pólitískri sögu landsins framar.“ Þannig hefst færsla Steinunnar Ólínu, leikkonu og fyrrum forsetaframbjóðanda en færslan hefur vakið mikla athygli enda skefur Steinunn ekki af hlutunum.
Og hún heldur áfram:
„Friðjón nokkur Friðjónsson kosningastjóri Katrínar heldur þeim málflutningi hennar til streitu að kosningabarátta hennar hafi verið heiðarleg, sanngjörn og skemmtileg. Ekki ætla ég Katrínu að hafa haft fulla vitneskju um allt það sem gekk á en svo skyni skroppin er hún ekki, að vita ekki fullvel, að hefji maður yfirleitt samstarf við óheiðarlegt og siðlaust fólk þá er sjaldnast von á góðu.
Ég hef aldrei orðið vitni af jafn skaðræðislegri og ómerkilegri kosningabaráttu og þessari hér.“
Steinunn kvartar ekki undir aðförinni gegn henni sjálfri, heldur öðrum samframbjóðendum hennar.
„Sú grimmd og heift og frekja snýr ekki að sjálfri mér heldur að þeim andstæðingum sem sjálftökufólkið í hirð Katrínar sýndi verðum frambjóðendum í aðdraganda kosninganna.
Hvernig Katrín hélt hún gæti rambað úr stóli forsætisráðherra í stól forseta með þá lygi á lofti að hún hefði yfirgefið stjórnmálin með skaðræðis aðfararfrumvörp að þjóðarheill heit úr eigin kviði á borði þingsins.“
Og Steinunn er hvergi nærri hætt:
„Hvernig KJ steig inn á sviðið í baráttu Baldurs sem var löngu farinn af stað með glans og af heilindum.
Hvernig Baldur var krafinn um hlýðni og að draga framboð sitt til baka sem hann hefur gert grein fyrir.
Hvernig sóðasveit Katrínar kom sögum á kreik um persónlegt líf hans og gerði að almannaróm löngu áður en sá ómerkilegi Stefán Einar gerði sig að fífli fyrir framan alþjóð í þætti hans Spursmálum.
Hvernig því var dreift um samfélagið að Baldur væri lyginn og ómerkilegur hervæðingarsinni.
Hvernig honum var af fjölmiðlum nuddað upp úr Icesave.“
Næst talar hún um aðförina gegn Höllu Hrund:
„Aðförin að Höllu Hrund var engu skárri. Reynt að gera störf hennar hjá Orkustofnun ómerkileg þegar hún er bókstaflega ein af fáum sem hefur staðið í lappirnar fyrir hönd landsmanna þar innandyra.
Dregin á hárinu endurtekið fyrir að hafa tekið fund í embætti sínu, fund sem nota bene hafði engin áhrif.
Gert grín að óvana hennar í fjölmiðlum og látbragði.
Reynt að gera hana að glæpamanni fyrir að hafa myndskeið í kosningamyndbandi sínu sem hún sjálf bar enga ábyrgð á.
Sjálft Ríkisútvarpið í síðustu kappræðum reyndi að nudda henni upp úr máli sem engan annan tilgang hafði en að reyna að leggja fyrir hana gildru og kom erindi hennar ekkert við.“
Og Steinunn hefur ekki lokið sér af varðandi RÚV:
„Hvernig Ríkisútvarpið hafnaði kröfu 11 frambjóðenda um að hafa kappræðurnar þær síðari með sama sniði og þær fyrri af sérdæld við fyrrum forsætisráðherra.
Hvernig Ríkisútvarpið kom öðruvísi fram við Katrínu en aðra frambjóðendur svo allir frambjóðendur tóku eftir og hlógu að sín á milli. Lotningin gagnvart hugsanlegum forseta og fyrrum forsætisráðherra gerði alla fréttamenn RÚV að fíflum.
Hvernig augljósir persónulegir greiðar hennar sem forsætisráðherra skynu í gegnum þéttriðið stuðningsnetið.“
Sjálfstæðistæðismenn fá einnig á baukinn hjá leikkonunni:
„Hvernig Valhöll réði fólk til vinnu við framboð hennar grímulaust.
Hvernig peningauastur framboðs KJ ofbauð þjóðinni með yfirþyrmandi auglýsingum hvar sem komið var við, ýtni við ungmenni, og sú ósmekklegheit að hafa auglýsingu Katrínar á milli þátta í síðustu kappræðum fyrir kosningar hjá RÚV. Hvað er RÚV að pæla?
Andstyggilegt var það og andstyggilegt verður það áfam í manna minnum. Við skulum muna að þeir sem hampa henni mest studdu manneskju sem treysti því Bjarni gæti keypt handa henni Bessastaði í skiptum fyrir forsætisráðuneytið hvar hún hefur setið á svikráðum við þjóð sína undanfarin ár og samviskusamlega lagt blessun sína yfir arðránsfrumvörp sem eyðileggja, munu verði þau einhverntíman að veruleika, framtíð allra sem á eftir okkur koma.“
Því næst snýr Steinunn Ólína sér að þeim listamönnum sem studdi Katrínu Jakobsdóttur með ráðum og dáðum í kosningabaráttunni:
„Það fylgir því ábyrgð að vera listamaður og auðvaldsdælurnar og valdasleikjurnar úr menningarlífinu sem hæst létu í aðdraganda kosninganna og klesstu sér þétt upp við skapara sinn og atvinnuveitanda til margra ára, skulu hafa það hugfast að það á ekkert skylt við menningu að mylja undir fólk sem með ásetningi eyðileggur framtíð lands og náttúru þar með auðvitað menningu þjóðarinnar. Og það er jafnframt ómenningarlegt að hæðast að fólki sem er ekki klippt út úr sama gluggalausa herberginu og þú sjálfur. Íslenskir menningarpáfar með sitt andlausa raus, sín lélegu ljóð og ömurlegu sakamálasögur væri hollt að lesa meira af amerískum litteratúr og sjálfshjálparbókum til að horfa í spegilinn og auka víðsýni sína ofurlítið.“
Rætt hefur verið um það í samfélaginu og í fjölmiðlum að þjóðin hafi kosið taktískt með því að kjósa Höllu Tómasdóttur, svo Katrín myndi ekki sigra en því er Steinunn ósammála:
„Þjóðin kaus ekki taktiskt, þjóðin einfaldlega valdi sér forseta sem fjölmiðlar og öfl þeirra sem eiga og ráða höfðu ekki eyðilagt með ófrægingarherferð úr smiðju leðjudeildar Katrínar Jakobsdóttur sem hún hreyfði engum mótbárum við en augnaráð hennar flóttalegt vitnaði um skömmina.
Þjóðin valdi sér forseta eins og hún hefur alltaf gert, einu manneskjuna sem stóð upprétt eftir aðfarir dauðasveitar Katrínar, sómakonuna Höllu Tómasdóttur sem ég er fullviss um að verður okkur fjarskalega góður forseti. Halla er manneskjuleg, hlý og forvitin. Hún trúir á mannsandann og samtalið en ekki ískalt yfirboðandi regluverkið sem drepur allt sem fyrir verður.“
Að lokum birti Steinunn mynd sem sýnir áform ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fyrir landið og nýtingu erlendra auðmanna á gæðum þess, að sögn Steinunnar:
„Hér gefur að líta á mynd áform ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem munu verða minnisvarði um alla framtíð um heilindi hennar við íslensku þjóðina og landið okkar Ísland.
Þessi útgáfa myndarinnar er með breytingum sem
Marinó G. Njálsson gerði á því. Á því eru blá og brún strik, sem hann bætti á það,, til að undirstrika svæðin sem VG stefnir á að erlendir auðmenn geti nýtt, annars vegar undir lagareldið sitt um aldur og ævi og hins vegar til að flytja út efni um langan veg til að lækka kolefnisspor framleiðslu sinnar.“