Óhætt er að segja að forsetaframbjóðandinn Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir hafi slegið í gegn hjá fjölmörgum í gær, þegar hún mætti í viðtalsþáttinn Forystusætið á RÚV.
Gríðarlega margir hafa tjáð sig um frammistöðu Steinunnar Ólína í þættinum á samfélagsmiðlum en hún þótti standa sig afar vel gegn Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur sem þótti ganga helst til of langt gagnvart Höllu Hrund Logadóttur í sama viðtalsþætti.
Einn þeirra sem dásamað hefur frammistöðu Steinunnar Ólínu, er Atli Þór Fanndal, samskiptastjóri Pírata.
„Ég hef eiginlega sjaldan verið jafn stoltur af því að telja Steinunn Ólínu Þorsteinsdóttur til vina. Frá því að hún ákvað að bjóða fram krafta sína sem forseta hefur hún gengið fram af heiðarleika og ást. Hún hefur neitað að undirgangast áróður um að embætti forseta sé svo ópólitískt að raunar sé bara dónaskapur að tala um nokkuð. Fyrir þetta hefur hún verið kölluð öllum illum nöfnum af slefberum valdsins.“ Þannig hefst Facebook-færsla Atla Þórs en svo heldur hann áfram:
„Steinunn hefur frá fyrsta degi komið hreint og beint fram. Hún hefur rutt veginn fyrir aðra frambjóðendur sem á fyrstu dögum kosningabaráttu voru skammaðir fyrir að svo mikið sem tjá sig um þá fáránlegu stöðu að forsætisráðherra fyrrverandi ætli sér að skipta um kennitölu og lögheimili á meðan við eigum bara að láta það vera að minnast á feril Katrínar og það þrotabú sem hún skilur eftir. Það er ekki alltaf þannig að maður eignist marga vini með því að segja hluti upphátt en maður eignast rétta vini. Steinunn Ólína er enn eitt dæmið um konu sem gefur af sér og er ósérhlífin. Það er aðdáunarvert.“
Að lokum dregur Atli Þór upp nokkur höfuðatriði úr þættinum þar sem hann þótti Steinunn skara framm úr.
„Í þættinum í gær afhjúpaði hún svo snyrtilega og vel það yfirgengilega snobb sem okkur sem ekki erum í réttum flokki mætir í hvert sinn sem við viljum hafa eitthvað um samfélagið að segja. Allt var gert til að geta litið úr málflutningi hennar í viðtalinu og alltaf svaraði hún brosandi og upplýst til baka. Bjarni Benediktsson er ekki kjörinn forsætisráðherra. RÚV notar sjálft skoðanakannanir til að flokka fólk í A og B lið en ekki þegar kemur að því að meta hvort ríkisstjórnin eða Bjarni séu raunverulega með lýðræðislegt mandate. Og já, lagareldi er tilraun til að auka ójöfnuð. Til hamingju Steinunn!“