Flytja þurfti karlmann á sjötugsaldri á sjúkrahús með sjúkrabíl eftir að óður hundur beit hann svo illa að hann hlaut skurði á hendi og missti mikið blóð en Vísir greinir frá þessu. Átti árásin sér stað á stigagangi í fjölbýli í Grafarvogi á föstudaginn og er stigagangurinn sagður hafa verið útataður í blóði mannsins.
Hundurinn réðst þó ekki aðeins á manninn heldur einnig konu hans en þau voru með hundinn í pössun. Hringt var á lögreglu vegna málsins og þegar lögregla kom á svæðið var tekin sú ákvörðun að hringja á sjúkrabíl. Sjálf þurfti konan að leita sér aðstoðar á slysadeild eftir árásina.
Hundurinn róaðist að sögn Þorkels Heiðarssonar, deildarstjóra Dýraþjónustunar, eftir að hann komst í hendur þeirra. Ekki liggur fyrir hvað gerðist en Þorkell telur að eitthvað hafi gerst sem hafi æst hundinn verulega. Þá var atvikið sömuleiðis tilkynnt til MAST.
Samkvæmt Vísi er hundurinn Standard Schnauzer tegund.