Birni Birgissyni lýst vel á hugmyndir Facebook-vinar síns um að skerða laun Alþingismanna, vinni þeir sér inn pening í sumarfríinu.
Samfélagsrýnirinn kjarnyrti, Björn Birgisson skrifaði færslu í dag þar sem hann vitnar í Gísla nokkurn Helgason sem stingur upp á að það sama muni gilda um Alþingismenn, eldri borgara og öryrkja þegar kemur að skerðingu launa, bóta eða lífeyris, vegna aukatekna.
„Þetta hittir svo gjörsamlega í mark!“ skrifaði Björn og bætti við. „Vitaskuld skrifað í framhaldi af hugmynd Ásmundar Friðrikssonar um að hella sér í samkeppni um ferðamenn í sumar – með 1,5 milljónir úr ríkissjóði á mánuði í þingfararkaup.“ Því næst skrifar hann um akstur Ásmundar sem þingmanns Sjálfstæðisflokksins og segir svo að lokum: „Það koma af og til jákvæðar fréttir af þessum þingmanni, en honum virðist einkar eðlislægt að vera í djúpum skít.“
Færsluna má lesa í heild sinni hér:
„Gísli Helgason á sinni Facebook síðu:
„Nokkrum vina og kunningja minna hér á andlitsbókinni hefur verið nokkuð tíðrætt um sumarleyfi þingmanna og hvað þeir taki sér fyrir hendur þegar Alþingi hvílir sig í sumar, þ. e. þingmenn.
Sumir fara í launuð störf annars staðar, aðrir gera ekki neitt eða eitthvað lítið og njóta lífsins.
Nú var það sett í lög fyrir rúmum tveimur áratugum að ef öryrkjar eða aldraðir myndu stunda launaða vinnu yrði örorku og ellilífeyrir skertur.
Í mörg ár var ég með það miklar tekjur að ég uppskar ekkert frá hinu opinbera í örorkulífeyri.
Þessi ákvörðun um að skerða lífeyri vegna of mikilla tekna hefur orðið til þess að margt fatlað fólk vinnur því miður án þess að gefa upp tekjur sínar.
Mig langar að leggja til að ef þingmenn vinna sér inn aukapening í sumarleyfum að þá verði laun þeirra skert og farið eftir þeim reglum sem gilda um örorku og ellilífeyrisþega.
Þannig myndu þingmenn sýna samfélagslega ábirgð að mínu mati.
Datt í hug að gauka þessu að ykkur.
Kærar kveðjur og launist öllum vel í sumar.“
**********
Þetta hittir svo gjörsamlega í mark!
Vitaskuld skrifað í framhaldi af hugmynd Ásmundar Friðrikssonar um að hella sér í samkeppni um ferðamenn í sumar – með 1,5 milljónir úr ríkissjóði á mánuði í þingfararkaup.
Laun Ásmundar koma úr sama sjóði og bætur eldri borgara og öryrkja – Ríkissjóði Íslands.
Ekki er vitað annað en að Ásmundur styðji allar tekjutengingar sem snúa að öldruðum og öryrkjum.
En hvað með hann sjálfan?
Allur aksturinn var skattfrjáls og beint í vasann.
Hann er hættur honum vegna þess að hann braut allar reglur þar um.
Nú er það inngrip í samkeppnina um ferðamenn.
Það koma af og til jákvæðar fréttir af þessum þingmanni, en honum virðist einkar eðlislægt að vera í djúpum skít.“