Stjórn Sagnfræðingafélagsins hefur rætt skipun Þjóðminjavarðar án auglýsingar og sendir hennar vegna frá sér eftirfarandi yfirlýsingu um leið og menningar- og viðskiptaráðherra er brýndur til að er til að efla sögukennslu og tryggja enn frekar aðgengi almennings að söfnum og menningarminjum landsins:
„Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands harmar að menningar- og viðskiptaráðherra auglýsti ekki starf þjóðminjavarðar laust til umsóknar við ráðningu í embættið. Þjóðminjasafn Íslands er eitt af höfuðbólum íslenskrar menningarvarðveislu og miðlunar og því ber að veita þá virðingu að vanda til ráðningarinnar með faglegu ferli. Innan íslensks safna- og fræðasamfélags er aragrúi af hæfu fólki sem vill láta gott af sér leiða í þágu íslensks menningararfs. Þegar staða þjóðminjavarðar er laus í fyrsta skiptið á þessari öld er algerlega óviðunandi að veita ekki öllum tækifæri til umsóknar. Stjórnin vill þó árétta að hér er ráðningarferli ráðuneytisins gagnrýnt en ekki sú manneskja sem skipuð var í embættið.“