Verð á bensíni er víða komið yfir 350 kr. á lítrinn í kjölfar gegndarlausra hækkana síðastliðna mánuði. Í samtali við Mannlíf segir Runólfur Ólafsson, formaður FÍB: „Við höfum aldrei séð svona verð áður, þess vegna erum við að sjá þessi viðbrögð hjá stjórnvöldum í nágrannalöndunum. Það er verið að grípa til aðgerða allt í kringum okkur.“
Í mars síðastliðnum þrýsti Félag íslenskra bifreiðaeiganda á stjórnvöld að bregðast við með skattaívilnunum eða styrkjum. Aðspurður segir Runólfur um svar stjórnvalda: „Þau hafa í raun hafnað, fram að þessu, inngripi sem lýtur að því að lækka skatta á eldsneyti – til þess að lina þessar miklu hækkanir sem eru að lenda á neytendum og fyrirtækjum.“
Sjá einnig: Írar og Svíar lækka skatta á eldsneyti – Hækkun á bensínverði kostar Selfyssinginn 50 þúsund krónur
Vona enn að ríkið stígi inn
Í flestum nágrannalöndum okkar hafa stjórnvöld stigið inn og gripið til aðgerða til að sporna við því að frekari hækkanir lendi beint á neytendum – hvort heldur beinum eða óbeinum. „Þróunin virðist vera, því miður, áfram í sömu átt þ.e.a.s. allt er að hækka – en við bindum vonir við að einhvern tíma komi að því að þau [stjórnvöld innsk. blm.] grípi til aðgerða. Við sjáum allt í kringum okkur, í nágrannaríkjunum, að stjórnvöld hafa verið að grípa til ráðstafana; að lækka skatta í flestum tilvikum, og svo líka til hliðarráðstafana eins og auka skattafrádrátt til þeirra sem hafa um lengri veg að sækja vinnu eða þjónustu – en svo höfum við líka séð aðgerðir sem lúta að því að gera allan aðgang og kostnað við almenningssamgöngur mun minni en áður. Þannig að það er verið að gera ýmislegt – en svolítið bara setið hjá af íslenskum stjórnvöldum,“ segir Runólfur.
Sjá einnig: Bensínverð lækkar í Þýskalandi – Runólfur hjá FÍB: „Hér heyrist ekkert“
Bitnar mest á þeim sem minna eiga
Aðspurður hvernig hljóðið sé í bifreiðaeigendum, segir Runólfur: „Við heyrum að fólk hefur miklar áhyggjur af þessari stöðu, enda kemur þetta langverst niður á þeim sem hafa minna aflögu.“
Eins og vel er kunnugt hafa margir flúið hátt leigu- og fasteignaverð höfuðborgarinnar og flutt í nágrannasveitarfélög, t.d. Akranes, Reykjanesbæ og Hveragerði. Runólfur bætir við: „Við höfum fengið nokkur símtöl frá fólki sem hálft í hvoru neyddist til að flytja frá höfuðborgarsvæðinu til nágrannasveitarfélaga, […] og er nú að lenda í því að nú er orðinn ansi mikill auka kostnaður við að keyra til vinnu. Það eru ekkert alltaf einhverjir valkostir, eins og almenningssamgöngur, svo skiljanlega hefur fólk miklar áhyggjur af ástandinu.“