Stofnað hefur verið til söfnunar fyrir syni tónlistarmannsins Árna Grétars Jóhannessonar en hann gekk undir listamannsnafninu Futuregrapher. Árni lést í fyrradag eftir að hafa barist fyrir lífi sínu síðan á gamlársdag þegar bifreið hans lenti í höfninni við Ægisgarð. Hann var 41 árs gamall.
Árni var um árabil verið einn af fremstu raftónlistarmönnum Íslands og hafa fáir íslenskir tónlistarmenn gefið út jafn mikið af tónlist og hann gerði þrátt fyrir að hafa verið aðeins 41 árs gamall við andlát. Auk þess að búa til tónlist hjálpaði hann öðrum tónlistarmönnum að koma sinni tónlist á framfæri og var einn af stofnendum Möller Records og þá stofnaði hann útgáfufyrirtækið Móatún 7 árið 2018 sem hefur gefið út tónlist eftir listamenn á borð við Jóhannes Pálmason, Myoptik og BioFusion.
Árna lét taka til sín á fleiri sviðum en hann starfaði sem leiðbeinandi á leikskólanum Brákarborg í langan tíma. „Reyni mitt besta í að kenna börnum og að vera til fyrirmyndar. Gleymi oft mörgu, en þá er gott að hafa börnin í kringum sig sem minna mann á,“ sagði hann um vinnu sína á leikskólanum á Facebook.
16 og 6 ára drengir
„Elsku vinir og fjölskylda,
Með djúpri sorg tilkynnum við að Árni, okkar elskaði, fallegi vinur og fjölskyldumeðlimur, hefur kvatt þennan heim allt of snemma. Skarðið sem hann skilur eftir sig er gífurlega stórt, og sársaukinn mikill fyrir okkur öll sem elskuðum hann.
Árni lætur eftir sig tvo yndislega drengi, 16 og 6 ára, sem nú standa frammi fyrir framtíð án föður síns. Til að styðja þá í þessum erfiðu aðstæðum hefur verið hrundið af stað söfnun sem mun fara beint í að tryggja að þeir fái þá umönnun og stuðning sem þeir þurfa.
Kennitala: 220781-4459