Leigufélagið Bríet sér um útleigu íbúða á landsbyggðinni. Leigendur fengu póst í morgun sem tilkynnti þeim að 30% afsláttur yrði af leiguverði í desembermánuði.
Bríet á og rekur um 250 fasteignir í 34 sveitafélögum, félagið er í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar og sveitarfélaganna Fjarðabyggðar, Fjallabyggðar og Reykhólahrepps. Bríet hyggst lækka leigugjald alfarið um 4%, frá og með 1.janúar 2023. Með þessu er leigufélagið að taka á sig um helming af hækkun vísitölu.
„Við vildum leggja okkar lóð á vogarskálarnar vegna þeirra miklu vísitöluhækkana sem hafa orðið á leiguverði á þessu ári. Þar sem útgjöldin okkar hafa ekki hækkað eins mikið á þessu tímabili þá töldum við rými til að fara í lækkanir á leigu. Við vildum nýta það til að aðstoða sem mest fjölskyldurnar sem leigja heimili sín af okkur. Um þessar mundir ríkir mikil óvissa í efnahagsmálum og við vitum að það er ekki gott að fara inn í jólamánuðinn, með öllum þeim útgjöldum sem honum fylgir, með fjárhagsáhyggjur. Við vonum að desember-afslátturinn geri okkar fólki auðveldara að eiga gleðilega hátíð og að varanlega lækkunin, frá og með áramótunum, muni einnig létta því byrðarnar fram á við,“ sagði Ásta Björg Pálmadóttir, stjórnarformaður Bríetar.