Uppbygging forgangsakreinar fyrir strætisvagna á Kringlumýrarbraut er í undirbúningi á um 500 metra kafla milli Háaleitisbrautar og Miklubrautar en greint er frá því í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Kaflinn sem um ræðir er vestan megin á götunni, með akstursstefnu í suður og þá er einnig er gert ráð fyrir nýjum strætóstoppum nálægt gatnamótunum við Háaleitisbraut
„Markmiðið með uppbyggingu forgangsakreinar á Kringlumýrarbraut er að stytta ferðatíma um allt að 4-5 mínútur fyrir strætófarþega, sem eru til dæmis á leið frá Borgartúni. Með nýrri forgangsakrein kemst strætó greiðar leiðar sinnar óháð annarri umferð og leiðin er beinni. Framkvæmdirnar hafa ekki áhrif á akreinar fyrir almenna bílaumferð heldur verður miðeyja minnkuð,“ segir í tilkynningunni.
„Eins og staðan er fer strætó ekki þarna um núna því umferðin er of hæg á annatímum og engar biðstöðvar strætó eru á þessum slóðum. Í dag aka strætisvagnar upp Miklubraut, fram hjá Kringlu og svo vestur eftir Háaleitisbraut og beygja síðan norður Kringlumýrarbraut.“
Borgin vonast til þess að útboði á fyrsta hluta ljúki á vormánuðum og framkvæmdir hefjist svo í framhaldinu.