Valur Gunnarsson er hóflega bjartsýnn á framtíð Sýrlands og segir ástæðuna vera stríðsþreyta.
Sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Valur Gunnarsson veit eitt og annað um stríð en hann hefur meðal annars dvalið um tíma í Úkraínu, bæði fyrir og eftir að stríðið þar braust út. Segir hann í nýlegri Facebook-færslu að stríðsþreyta gefi honum „hófstilltar vonir“ um Sýrland, sem nýverið var hertekið af uppreisnarmönnum andvígum Assad forseta. Nefnir Valur dæmi úr sögu Evrópu þegar svipað var uppi á teningnum, vegna stríðsþreytu nennti fólk ekki frekari átökum.
Hér má sjá færsluna í heild sinni:
„Það sem gefur manni hófstilltar vonir um Sýrland er að stríðsþreytan þar er orðin það mikil að það nennir enginn meiri átökum. Stríðsþreyta er besta friðarmeðal sem til er og hefur virkað í Evrópu frá 1945 og fram á síðustu ár. Þegar ég bjó í Belfast var lítill kærleikur á milli mótmælenda og kaþólikka en enginn nennti aftur í fyrra ástand. Það sama var uppi á teningnum í Bosníu þótt þar sé fremur brothætt ástand. Og í smábæjum Rússlands er ekki lengur verið að veifa zetumerkjum, þar sem hinir verst settu töldu að sinn tími væri nú kominn þegar stríð braust út. Menn nenna ekki endalaust að vera brúkaðir í fallbyssufóður. Stríð leysir engin vandamál, líkt og þeir vita sem það hafa reynt.“