Ríkið mun auka stuðning við Grindvíkinga vegna náttúruhamfara undanfarna mánuða en gildir það við afkomustuðning og húsnæðisstuðning en bærinn var upphaflega rýmdur 10. nóvember á síðasta ári en einhverjir íbúar höfðu þó snúið til baka og sofið í bænum.
„Við erum búin að ákveða að setja stóraukinn kraft í það að tryggja húsnæði sem hefur verið óviðunandi þrátt fyrir þessi uppkaup þar sem við keyptum 80 – þá er þörfin enn þá meiri,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í morgun.
„Mögulega eru líka atburðir helgarinnar að valda því að þau sem hafa verið sátt við að vera í skammtímahúsnæði sjá núna fram á að þau þurfa húsnæði til lengri tíma. Við vorum að fara yfir það framboð sem er í boði og hvað við getum ráðist í út frá því,“ en ljóst er að Grindavíkurbær er ekki hæfur til búsetu á næstunni. Þó þurfi að meta tjón á eignum en Náttúruhamfaratryggingar Íslands sjá um slíkt.
„Nú þarf að fara aftur af stað í þeim efnum, hvað varðar tjón í bænum. Það er alveg ljóst að Grindvíkingar kalla mjög eftir því að þeirri vinnu verði lokið. Við sáum fram á að við væru mjög langt komin en við þurfum að endurmeta þá stöðu.“
Katrín heldur þó í vonina að hægt verði að búa í bænum.
„Okkar áætlanir miðast við það að halda áfram aðgerðum til að verja byggð í Grindavík og halda áfram byggingu varnargarða sem við erum byrjuð á og hafa þegar sýnt gildi sitt þó að ekki verði við allt ráðið eins og sjá má á þeirri sprungu sem kom upp innan varnargarða. Þá sjáum við líka hversu miklu þeir geta skipt. Þannig að okkar aðgerðir miðast við það.“