Fjölmenni var á minningarathöfn um moldóvsku knattspyrnukonuna Violetu Mitul á Vopnafirði fyrir viku en hún lést af slysförum í fyrra. Ungmennafélagið Einherji hefur nú stofnað styrktarsjóð í hennar nafni.

Sjóðnum er ætlað að styrkja efnaminni fjölskyldur á Vopnafirði svo hægt sé að tryggja að börn þeirra geti stundað íþróttir. Undanfarið hafa stuðningsmenn Einherja gefið stofnframlag í sjóðinn en einnig er verið að spá í að halda knattspyrnumót í minningu Violetu.
„Hennar fjölskylda þurfti að færa fórnir þannig að Violeta gæti stundað knattspyrnu. Stuðningsmenn hafa gefið í sjóðinn og það er enn tekið við framlögum,“ segir Víglundur Páll Einarsson, formaður Einherja og þjálfari meistaraflokks kvenna í samtali við Austurfrétt.
Þann 4. september í fyrra lést Violeta eftir að hún hrapaði fram af kletti á Vopnafirði, aðeins 26 ára gömul. Á bjargbrúninni er búið að koma upp litlum minningarreit en í vor hjarta úr blómum gróðursett og við minningarathöfn þar fyrir viku var bekk komið upp þar einnig. Nafn Violetu er letrað á bekkinn og minningarorð á móðurmáli hennar og á íslensku, að því er fram kemur í umfjöllun Austurfréttar. Þar kemur einnig fram að öryggismál við klettana hafi verið löguð, strax eftir banaslysið.
Athöfnin í síðustu viku hófst á minningarorðum og tónlistarflutningi. Þá var kveikt á kertum sem mynduðu númerið á knattspyrnutreyju Violetu hjá Einherja, 11. Aukreitis hanga treyjur með nafni hennar og númeri, bæði í vallarhúsi knattspyrnuvallarins og búningsklefa Einherja en liðið notaði ekki númerið hennar í sumar.

Ljósmynd: Urður Steinnunn Önnudóttir Sahr en hún gaf Mannlífi góðfúslegt leyfi til birtingar.
Við íþróttavöllinn hélt minningarathöfnin áfram þar sem fjölskylda Violetu, sem kom sérstaklega til Íslands til að taka þátt, gróðursetti tré til minningar um Violetu. Var athöfnin fjölsótt en á sjöunda tug fólks skrifaði nöfn sín í gestabók.

Ljósmynd: Urður Steinnunn Önnudóttir Sahr en hún gaf Mannlífi góðfúslegt leyfi til birtingar.
Segir Víglundur Páll það skipta máli fyrir bæði fjölskylduna og Vopnfirðinga að minningu Violetu sé haldið á lofti. „Við reynum að gera okkar besta til að minnast hennar. Við vitum að það skiptir fjölskyldu hennar miklu máli. Við erum líka með nánast sama leikmannahóp og í fyrra þannig að minningin um hana er sterk.“

Ljósmynd: Urður Steinnunn Önnudóttir Sahr en hún gaf Mannlífi góðfúslegt leyfi til birtingar.