Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Svaf Lorca hjá óvininum? – Spennandi hlaðvarpsþáttur Jóns Sigurðar væntanlegur í dag

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Láttu þér ekki detta í huga að koma, þér er ekki óhætt hér.“ Þessi varnaðarorð fékk skáldið Federico García Lorca að heyra þegar hann kvaðst ætla eyða sumrinu árið 1936 á ættarsetrinu skammt fyrir utan borgina Granada. Kvað hann það óhugsandi að sér stafaði hætta af Falangistum sem þá voru við það að hefja valdarán sem síðan leiddi til borgarastyrjaldarinnar á Spáni. Hvað sem því líður, þá var sú styrjöld rétt hafin þegar hann er handtekinn í Granadaborg og síðan tekinn af lífi. Fréttin kom flestum í opna skjöldu því bæði var Lorca stórstjarna í lífanda lífi og, þó hann hefði skrifað eitt og annað sem falangistum þótti miður, var hann ekki yfirlýstur andstæðingur þeirra. Reyndar var hann stórvinur þess manns sem stofnaði Falangistaflokkinn, José Antonio Primo de Rivera. Og ekki nóg með það heldur halda einir því fram að þeir hafi átt í eldheitu ástarsambandi. Háskólaprófessorinn Jesús Cotta hefur fengið bágt fyrir að skrifa um þetta mjög svo eldfima mál. „Ég harma það að mér sé legið á hálsi fyrir að vilja gera Lorca að fasista og José Antonio að homma,“ segir hann. „Það er ekki það sem mér gengur til en gögnin varðandi samband þeirra tala sínu máli og þeir sem andmæla gera það frekar af hugsjón en skynsemi.“ Þar vísar hann til þeirra háværu radda sem telja óhugsandi að þeir tveir hafi átt skap saman vegna ólíkra lífsskoðanna. Ekki er til nein ljósmynd af þeim saman en Cotta hefur eftir Lorca í bók sinni Blýrósir (Rosas de plomo) að þeir félagar hafi farið út að borða um hverja helgi um nokkurt skeið en þó með mikilli leynd, „enda kemur það sér hvorki vel fyrir hann né mig að við sjáumst saman,“ er haft eftir skáldinu.

Jose Antonio Primo de RIvera

Það voru ekki einu tengsl skáldsins við fasistana því Lorca-fjölskyldan átti ættingja og vini meðal háttsetra falangista í Andalúsíu. Reyndar var skáldið einmitt í felum heima hjá einum slíkum þegar hann var handtekinn. Það er því kannski ekki að undra að hann teldi sig hólpinn þar sem tengslanet hans virtist traust. Þess eru þó engin dæmi, hvort sem vitnað er í verk hans eða ævisögu, að hann hafi verið hliðhollur fasistahugsjóninni.

Engum sögum fer af viðbrögðum José Antonios við aftökunni en hann var sjálfur tekinn af lífi í fangelsi í Alicante rúmum tveimur mánuðum á eftir Lorca. Sú borg, sem Íslendingum er af góðu kunn, var þá enn á valdi Lýðveldissinna.

Íslendingar kannast líklega flestir við leikrit Lorca einsog Blóðbrullaup og Hús Bernhörðu Alba sem bæði hafa verið sett á svið hérlendis. Engin skortur er á þýðingum á ljóðum hans og má meðal annars finna mikið safn þeirra í bókinni Gustur úr djúpi nætur sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í Háskóla Íslands gaf út árið 2007. 

Jón Sigurður fjallar um Lorca í þætti sínum Runtað á Rucio en þar er skáldinu fylgt frá því hann ákvað að fara til Granada í sumarfrí þar til hann er svo handtekinn og líflátinn. Þar er líka spurt um jarðneskar leyfar skáldsins en þeir sem leita þeirra hafa fundið viðnám þar sem síst skyldi. Þátturinn birtist á vef Mannlífs upp úr klukkan 17 í dag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -