Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra ætlar að gefa kost á sér til formennsku Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á landsfundi flokksins sem haldinn verður 4. til 6. október.
Svandís tilkynnti ákvörðun sína við fréttastofu RÚV rétt í þessu, að loknum ríkisstjórnarfundi. Þá sagðist hún vilja flýta alþingiskosninum fram til vorsins en að öllu óbreyttu eiga kosningar að fara fram næsta haust.
Í gær tilkynnti núverandi formaður Vinstri grænna, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, að hann myndi ekki gefa kost á sér til formennsku en að hann ætlaði að sækjast eftir varaformennsku aftur. Auk þess hyggst hann sitja áfram sem oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi.
Þá tilkynnti Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, í gær að hún hygðist bjóða sig fram til varaformanns.
RÚV segir í frétt sinni að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefði staðfest að hún ætlaði sér ekki að bjóða sig fram í sjtórnunarstöðu innan flokksins og tók fram að hún styddi framboð Svandísar.
Ljóst er að næsta formanni Vinstri grænna bíður ærið verkefni en samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup næði flokkurinn ekki á þing, ef gengið yrði til kosninga í dag, en flokkurinn mældist með aðeins 3,4 prósent fylgi í síðustu skoðanakönnun.