Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Svandís Svavarsdóttir: „Skiptir máli fyrir pólitíkusa að gleyma ekki að vera manneskjur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stjórnarslitum var ekki hótað á nýafstöðnum ríkisstjórnarfundi sem hófst í morgun en ráðherrar skiptust á skoðunum um mál Yazan Tamimi.

Ríkisstjórnarfundurinn var haldinn að beiðni Guðmundar Inga Guðbrandssonar félagsmálaráðherra en hann hafði beðið dómsmálaráðherra að fresta brottvísun á hinum 11 ára gamla palestínska Yazan Tamimi, sem er með Duchenne vöðvahrörnunarsjúkdóminn, og að mál hans yrði rætt innan ríkisstjórnarinnar. Sem var sem sagt gert í morgun.

Um 300 manns mótmæltu fyrir utan ríkisstjórnarfundinn.
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Mannlíf var á staðnum og ræddi við tvo ráðherra Vinstri grænna eftir ríkisstjórnarfundinn en það eru þau Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra.

Góður fundur

Aðspurð hvort hægt væri að kalla fundinn hitafund, svaraði Svandís: „Þetta var bara mjög góður fundur. Við ræddum náttúrulega mörg mál en meðal annars aðdraganda brottvísunar á sunnudagskvöldið. Dómsmálaráðherra gerði grein fyrir málinu og við ræddum það frá ýmsum hliðum.“

Hvað finnst þér um stjórnsýsluna í kringum brottvísunina, að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hafi tekið fyrir hendurnar á lögreglunni og Útlendingastofnun?

- Auglýsing -

Svandís: „Það er náttúrulega hennar að svara fyrir sína stjórnsýslu en ég sé ekki betur en um sé að ræða að óska eftir fresti um að ræða mál sem er mjög viðkvæmt og ég held það hljóti að vera eitthvað sem er eðlilegt í lýðræðisríki að ríkisstjórnin fái ráðrúm til að ræða slík mál, sé eftir því óskað.“

Erfitt og snúið mál

En finnst þér persónulega það siðferðislega rangt að vísa Yazan úr landi?

- Auglýsing -

Svandís: „Ég held að það sé ekki tilviljun hversu heitt og viðkvæmt þetta mál hefur verið. Það er einstakt. Og það er mjög sérstakt að barn sem er langveikt og fatlað sé í þessari stöðu. Ég held að það skýri umræðuna og það hversu vandasöm og flókið hún hefur verið. Og þann hiti sem er á málinu úti í samfélaginu, það var ekki að byrja í gær.“

En finnst þér það siðferðislega rangt?

Svandís: „Persónulega finnst mér mál að þessu tagi mjög snúin og mjög erfið. Ég held að það skipti mjög miklu máli fyrir okkur sem erum í pólitík að gleyma því ekki að vera manneskjur.“

Aðspurð hvort hún teldi að verið væri að brjóta á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, vildi Svandís ekki svara því hún hafi ekki skoðað það sérstaklega.

Niðurstaða fundarins

Munu Vinstri grænir standa vörð um Yazan?

„Ja, núna hefur þessi umræða átt sér stað í ríkisstjórn og það liggur fyrir að þar með er málið komið aftur til til þess bærðra yfirvalda, meðal annars er sá frestur að renna út, á laugardaginn skilst mér, sem tryggir það að hann fái efnislega málsferð hér á landi og ég held að það sé málinu og fjölskyldunni og samfélaginu til góðs.“

Aðspurð um niðurstöðu fundarins sagði Svandís: „Niðurstaðan var sú staðan sem upp er komin kalli á það að málið sé skoðað. Það var beðið um það og það eru ýmsar hliðar á þessu máli. Að hluta til að því sem lúta að hagsmunum barna almennt, að hluta til það sem lýtur að stöðu fólks á heilbrigðisstofnunum gagnvart lögregluaðgerðum og þetta er allt saman til skoðunar. Og á sama tíma gengur á þennan frest.“

Myndirðu segja að það hrykktir í stoðum ríkisstjórnarinnar?

„Þessi ríkisstjórn hefur nú margar fjörurnar sopið og við erum búin að vera saman í þessu í sjö ár og við vitum hvað við getum og við höfum oft leyst flókin mál. Það hefur oft verið okkar styrkur að vera breið ríkisstjórn og ég held að þetta sé dæmi um slíkt mál.“

Fullorðið fólk sem ræðir málin

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra sagði fundinn ekki hafa verið hitafund: „Nei, við ræðum málin en auðvitað skiptumst við á skoðunum og það allt saman en við erum fullorðið fólk og ræðum bara málin.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ræðir við fréttamann RÚV eftir fundinn.
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Finnst þér persónulega brottvísun Yazan siðferðilega röng?

Guðmundur Ingi: „Já, takk fyrir að spyrja að því. Það sem mig langar að segja er að það eru fjöldamörg mál sem eru þess eðlis að maður myndi vilja sjá okkur geta tekið á móti og auðvitað vildi maður vilja sjá okkur geta tekið á móti mjög mörgu fólki en það eru auðvitað takmörk á því og við erum með kerfi sem ákveður hverjum við getum tekið á móti og hverjum ekki. Mér finnst í þessu máli, þess vegna fer ég fram á það, að því sé frestað að brottvísa þessum einstaklingi. Að fá upplýsingar um stöðuna í málinu. Ég hafði rætt áður í ríkisstjórn fyrir nokkrum mánuðum, því þetta kom mér á óvart, þessi brottvísun, núna rétt áður en einstaklingurinn á rétt á efnislegri meðferð. Mér fannst mikilvægt að við myndum taka þessa umræðu og fá skýringar. Það þarf að velta því upp að barnið er inni á deild á Landspítalanum þegar að ráðist er í þessa framkvæmd, hjúkrunar og endurhæfingardeild fyrir langveik börn. Þannig að það var full ástæða til þess að við tækjum umræðuna um þetta sérstaka mál.“

Þakklátur dómsmálaráðherra

Þannig að þú krafðist þess ekki að hætt yrði við að vísa Yazan og foreldrum hans úr landi, heldur að málið yrði skoðað?

Guðmundur Ingi: „Já, sko. Það var orðið við þeirri beiðni minni sem mér þykir eðilegt að hafi verið gert, að fresta þessari aðgerð vegna þess að það þyrfti að taka þessa umræðu um málið inni í ríkisstjórn vegna þess eðlis sem það er. Og það held ég að hafi verið mikilvægt. Það er eina ákvörðunin sem hefur verið tekin, að fresta þessu og ég er þakklátur dómsmálaráðherra að hafa brugðist jákvætt við því. Þannig að þar stendur málið bara núna.“

Voru skiptar skoðanir á fundinum um brottvísun Yazan?

Guðmundur Ingi: „Við skiptumst alltaf á skoðunum í þessari ríkisstjórn. Við spönnum nú hið pólitíska litróf og í þessu máli eins og mörgum öðrum voru ýmis sjónarmið á lofti og við ræddum þau bara hreinskilnislega, sem er hollt og gott í góðu samstarfi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -