Í desember á síðasta ári greindu fjölmiðlar frá því að Svanhildur Hólm Valsdóttir hefði verið skipuð sem sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og átti hún að taka við Bergdísi Ellertsdóttur.
„Ég er náttúrulega mjög spennt fyrir þessu. Þetta er ótrúlegur heiður að fá að starfa fyrir Ísland. Þetta snýst um það að gæta hagsmuna Íslands erlendis. Leggja sitt af mörkum,“ sagði Svanhildur við Vísi þegar hún var skipuð í embættið en hún mun hafa aðsetur í Washington D.C.
Umdeilt mál
Skipun Svanhildar var harðlega gagnrýnd af mörgum en telja þeir gagnrýnendur að ljóst sé um vinargreiða sé að ræða en Svanhildur hefur verið einn helstu stuðningsmönnum Bjarna Benediktssonar, þáverandi utanríkisráðherra, sem skipaði hana í embættið.
„Já, það er virkilega búið að lækka þröskuldinn fyrir sendiherratign með ráðningu Svanhildar Hólm en hennar upphefð í þessum efnum er mjög fágæt,“ sagði Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur meðal annars um valið á Svanhildi.
Ekki fékkst þó uppgefið hvenær Svanhildur tæki við starfinu. Mannlífi barst svar frá utanríkisráðuneytinu í dag við fyrirspurn um skipan Svanhildar þar sem er greint frá því að hún muni taka við embættinu 1. ágúst.
„Stefnt er að því að Svanhildur Hólm Valsdóttir taki við sem sendiherra í Washington þann 1. ágúst nk,“ sagði í svari utanríkisráðuneytisins.