Svava Gunnarsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Samfés en hún tekur við af Friðmeyju Jónsdóttur.
Í tilkynningu frá félagssamtökunum segir að Svava hafi unnið á vettvangi félagsmiðstöðva frá árinu 2009 og hafi einnig mikla reynslu af starfi og sögu Samfés frá árunum 2012-2020 sem meðstjórnandi, varaformaður og loks formaður samtakanna. Svava er með BA gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum og viðbótardiplómu í afbrotafræði með áherslu á ungmenni. Þá var hún formaður nemendafélags Fjölbrautaskólans í Breiðholti þegar hún var í framhaldsskóla.
Svava hefur störf sem framkvæmdastjóri í október en alls bárust 25 umsóknir um stöðuna.
Samfés eru landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi og hafa þau verið starfrækt síðan árið 1985 og gegna samtökin lykilhlutverki í félagslífi margra ungmenna á landinu.