Í dag var undirritaður samningur milli Mosfellsbæjar og Arion banka um uppbyggingu á Blikastaðalandi, sem bankinn eignaðist í kjölfar skuldauppgjörs eftir hrunið árið 2008. Mun Mosfellsbær stækka um 70% þegar uppbyggingunni líkur. Sveinn Óskar Sigurðsson bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ er afar ósáttur við saminginn.
Að hans sögn er Mosfellsbær eitt af skuldsettustu sveitarfélögum landsins. Segir hann við Mannlíf að skuldahlutfall bæjarfélagsins sé komið í 134% af árstekjum bæjarins og skuldir nemi um 1,5 milljón króna á hvern íbúa, þrátt fyrir eina mestu fjölgun íbúa á síðustu árum. Gagnrýnir Sveinn seinagang Arion banka við að koma Blikastaðalandi á markað. „Í stað þess að koma landinu á markað hélt bankinn þessu landi um árabil þar til húsnæðisverð á Íslandi varð hæst. Þetta er ekki kjarnastarfsemi banka og á ekki að hvera. Hvers vegna þá heimila stjórnvöld að fjármálastofnanir geta legið lengi á húseignum almennings og verðmætu byggingarlandi svo árum skipti?“ spyr Sveinn. Ennfremur segir hann að „löggjöf um fjármálastofnanir og kröfur gagnvart þeim er mikið til sú sama og var við einkavæðingu bankanna á sínum tíma, þ.e. gamla ríkisbankalöggjöfin. Alþingismenn, borgar- og bæjarfulltrúar hafa ekki staðið sig í því að krefjast þess að fjármálastofnanir stýri ekki húsnæðismarkaðnum með því að liggja á landi og þróa löggjöf sem krefur þá um að koma eignum úr eignasafni sínu á markað a.m.k. innan árs eftir að það hefur ratað í bækur þeirra að hluta til eða heild.“
Undirlægjuháttur stjórnmálastéttarinnar
Sveinn Óskar segir að það megi skrifa „þennan undirlægjuhátt á stjórnmálastétt sem að miklu leiti stendur ekki með almenningi í landinu.“ Vill hann meina að víða erlendis sé þetta ekki látið viðgangast og bönkum sé gert að losa sig sem allra fyrst við eignir, fyrirtæki og annað sem er ekki hluti af kjarnastarfsemi þeirra. Gagnrýnir hann að þetta sé heimilað því það valdi því að ungt fólk í dag hafi ekki nokkurn kost á að eignast þak yfir höfuðið, „og eldri borgarar, t.a.m. í Mosfellsbæ, þurfa nú að borga langt yfir 300 þúsund á mánuði í leigu fyrir öryggisíbúðir sínar.“