Sveinn Rúnar Hauksson segir Palestínumenn hafa fullan rétt á að verja sig, rétt eins og aðrar þjóðir. Segir hann helför gegn íbúum Gasa-strandarinnar framundan.
Sveinn Rúnar Hauksson, heimilislæknir og fyrrverandi formaður Félagsins Ísland-Palestína, er sennilega sá Íslendingur sem hvað oftast hefur komið til Palestínu en Mannlíf heyrði í honum og ræddi við hann um það stríð sem nú geysar á milli Palestínu og Ísrael. „Þetta blasir við mér sem algjör hryllingur,“ sagði Sveinn Rúnar um ástandið og hélt áfram. „Og talsmátinn í Ísraelsstjórn sem talar um Palerstínumenn og íbúa Gasa sem skepnur og villidýr, þetta séu meindýr sem eigi að eyða. Ég er satt að segja hissa á Ríkisútvarpinu að vera að hafa svona ummæli eftir. Þetta er svo gróft að það á ekki að maður á ekki að þurfa að hlusta á þetta í útvarpi. Það er þvílíkt mannhatur og fyrirlitning í þessu. Það er rasismi allt um líkjandi sem öllu ræður í Ísrael, þótt við eigum mikið af góðum vinum þar sem eru góðar manneskjur, þá hefur þessi öfgastefna algjörlega orðið ofan á. Þessi mannhatursstefna.“ Sveinn Rúnar segir að fyrir einum til tveimur áratugum hefði ekki komið til greina að menn á borð við öfgastefnumennina, þá Bezalel Smotrich og Itamar Ben-Gvir, ættu erindi á ísraelska þingið en nú séu þeir ráðherrar. „Það hafa orðið svo miklar breytingar á tiltölulega fáum árum. Þeir tilheyra samtökum sem voru bönnuð, bæði í Bandaríkjunum og í Ísrael, fyrir kynþáttahatur. Þetta eru menn í raun og veru heimta að Palestínumönnum verði útrýmt.“
Helför framundan
Og Sveinn Rúnar kvíðir fyrir næstu dögum. „Það er kvíðvænlegt að næstu daga eigum við að horfa upp á helför gegn íbúum Gasa-strandarinnar. Helför sem verður í beinni útsendingu og við lófatak hins svokallaða alþjóðasamfélagsins! Þetta er svo óhugnanlegt og ég hef aldrei upplifað daga eins og þessa.“
Aðspurður hvort honum finnist ekki skrítið að hvorki leyniþjónusta Ísraels né Bandaríkjanna hafi vitað af komandi árás frá Gasa-ströndinni, segist Sveini Rúnari finnast það en vilji ekki trúa samsæriskenningum „Það er ótrúlega einkennilegt að á ensku var sagt að aðvörunarkerfið hefði verið „jammed“, að það hefði verið bilað. En ég meina, er þá ekki hlaupið til að gert við bilanir? Þetta er mjög einkennilegt mál allt saman en það er ekkert óeðlilegt að það komist á kreik sögusagnir og grunsemdir um það að þetta hafi beinlínis verið framkallað en ég vil ekki leggja trúnað á það. Ég trúi ekki á þvílíkt ógeð í manneskjunni.“
Ekki Hamas sem réðist yfir landamærin
Þá segir Sveinn Rúnar að það hafi ekki verið Hamas sem hafi ráðist inn í Ísrael, heldur Al-Quassam-herfylkingin. „Þetta eru hryggilegir atburðir sem maður varð vitni að í þessari árás, það er alltaf talað um Hamas samtökin en þetta eru ekki þau, heldur Al-Quassam, sem er undir stjórn Muhammed Deif og hann heyrir ekkert undir Ismail Haniyeh [pólitískur leiðtogi Hamas. innskot blaðamanns.].“ Segist Sveinn Rúnar hafa séð hersýningu hjá þeim á Gasa en að hún hafi verið hálf brosleg. „Þetta voru nú ekki merkileg vopnin sem þeir voru að sýna á þessari hersýningu en þetta var mikill fjöldi af mönnum, alveg gríðarlegur fjöldi af mönnum sem héldu á handvopnum og marseruðu eftir götunum og fylltu langar götur á Gasa-ströndinni.“ Þá segir Sveinn Rúnar að Hamas-samtökin hafi á sér ýmsar hliðar, hún sé trúarleg hreyfing og að hún sé líka með félagslegsþjónustu sem sé með hálfgerða félagsmálaþjónustu eins og við þekkjum hér á landi, þar sem fátækum og illa stöddum er hjálpað. „Það var það sem gerði þá svo vinsæla sem varð til þess að þeir unnu óvænta sigra í borgarstjórnarkosningum árið 2005, áður en þingkosningarnar urðu. En svo unnu þeir eins og frægt er, þingkosningarnar 2006, sem eru síðustu kosningarnar. Þarna er starfandi stjórn með forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og öðrum ráðherrum sem eru að reyna að takast á við þessa innilokun, takast á við þetta ástand sem hernámið veldur og er búið að gera það að verkum að þetta er engu lagi líkt. Lífið sem fólkinu er boðið upp á, þar sem vatni hefur verið skammtað, rafmagnið hefur verið skammtað og nú er lokað fyrir þetta allt saman. Það er búið að eyðileggja allt viðskiptalíf þarna, þeir geta ekkert flutt af sínum góðu ávöxtum. Þetta er eitt besta sítrusávaxtasvæði heims, þeir voru frægir fyrir sítrusávexti sína, öfugt við það sem fólk heldur, að Gasa-ströndin sé bara eyðimörk þar sem ekkert vaxi, Það vex allt á Gasa! Öll biblíutréin eru þarna, fíkjutrén og döðlurnar og fleira. Þetta er í raun alveg dásamlegt land. En þetta er pínulítið land og þéttbýlt.“
Skelkaðir Palestínumenn flytja sig á milli húsa
Sveinn Rúnar segir það hafa verið táknrænt hjá Ísraelsmönnum að sprengja ellefu hæða íbúðabyggingu á Gasa-ströndinni á fyrsta degi stríðsins en húsið er kallað Palestínuturninn. „Þeir sögðu að Hamas-menn hefðu verið þar en þetta er íbúðarbygging sem að lögfræðingar og fjölmiðlar hafa líka verið með skrifstofur í.“ Læknirinn segir að vinir hans í Palestínu séu að flytja á milli húsa og nefnir lækni sem hann þekki sem búinn er að koma sér fyrir hjá dóttur sinni sem búi mögulega á öruggara svæði. „Svo heyrði ég í öðrum lækni, það er ekkja sem missti manninn sinn í stríðinu 2014 en þá voru nú 551 barn myrt af Ísraelsher. 551 barn! Yfir 2300 manns voru drepin á þeim 50 dögum. Þetta verður margfalt verra, það sem vofir yfir núna.“
En eru palestínskir vinir Sveins Rúnars ekki dauðskelkaðir?
„Jú auðvitað, þetta er ógvekjandi og fólk er líka harmi slegið yfir þessu mannfalli, því þettaer miklu nær, það upplifir þetta ekki sem tölur heldu sem fólk og fjölskyldur og aðstandendur sem eru að missa sína.“ Sveinn Rúnar segir að mannfallið Ísraels meginn sé ótrúlega mikið og að þeir hafi ekki séð annað eins.
Rétturinn til að verja sig
Nefnir hann að hernámið hafi nú staðið yfir í 75 ár og að hernám allrar Palestínu hafi nú verið við lýði í 56 ár. „Og það eru 17 ár sem Gasa-svæðið hefur verið algjörlega lokað inni á svona grimmilega hátt. Og þegar við horfum á afleiðingar þessarar sóknar baráttusveitanna sem fóru yfir landamærin, þá er þetta fólk sem á sér enga framtíð. Ekki nema á himnum, þeir trúa því. Þeir trúa því að ef þeir falli fari þeir beint til himna. Það er engin vinna, engin von um framtíð. Það er ekki matur, það er ekki vatn, það er ekki vinna, það er ekki rafmagn. Ekki nema því sem Ísraelsmönnum dettur í hug að skammta hverju sinni. Þess vegna verður að skilja viðbrögð Palestínumanna á Vesturbakkanum og almennt. Þessari árásir sína að Ísrael er ekki eins öruggt og þeir héldu. Það er ekki svona ósigrandi. Hverjum hefði dottið í hug framan af í Víetnam-stríðinu að Víetnamar gætu unnið Bandaríkin, mesta heimsveldi sögunnar? En þeir gerðu það bara líka hernaðarlega, ekki bara siðferðilega. Ég er ekki að segja að þetta sé sambærilegt en engu að síður gaf sigur Víetnama mörgum þjóðum von. Og þó að mörg grimmilegt verk hafi verið framin af Palestínumönnum þá verður líka að minnast þess að þetta er þjóð sem er búið að búa við svo skefjalausa og grimmilega kúgun í áratugi og við skulum líka minnast þess, það er talað um að Ísraelsmenn hafi rétt á að verja sig, að Ísrael eigi rétt á öryggi. Þjóð sem kemur svona fram við sína nágranna eins og Ísrael hefur gert, hún getur ekki búist við öryggi og friði. Það hefur sérhver þjóð rétt á að verja sig, það þarf ekki að deila um það. Palestínumenn hafa það líka. Þeir hafa búið við þetta hernám og samkvæmt alþjóðalögum hafa þeir, rétt eins og Úkraínumenn, rétt til þess að berjast gegn hernáminu með öllum þeim ráðum sem þeir hafa yfir að ráða.“