Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Sveppi flosnaði upp úr námi: „Ég kláraði nú grunnskólann með sæmd“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sverrir Þór Sverrisson. Sveppi. Í viðtali við Reyni Traustason segir hann frá því hvernig nafnið Sveppi kom til, hann talar um æskuárin þegar hann vildi fíflast og vera fyndinn, árin í FB þar sem hann var í vídeó- og skemmtinefnd, tímann á grænmetislagernum, upphaf ferilsins sem hann er þekktur fyrir, sem var að ganga hringinn í kringum Ísland í tvo mánuði, hann talar um hrekkina og áskoranirnar í sjónvarpinu, svo sem þegar hann hljóp allsber niður Laugaveginn, jákvætt áreitið og svo talar hann örlítið um fjölskylduna. Hann talar líka um hvað sé fram undan og hvort hann vilji verða gamalmenni á Spáni. Hér er brot úr viðtalinu.

 

„Ég hef verið kallaður Sveppi í 40 ár. Þetta byrjaði þegar ég var fjögurra eða fimm ára uppi í Breiðholti. Þá var ég með bróður mínum, sem er tveimur árum eldri en ég. Hann nennti aldrei að leika sér við mig. Við bjuggum í stigagangi í Eyjabakka 9 og á efstu hæðinni var strákur sem er líka tveimur árum eldri en ég og þeir voru alltaf að leika sér saman og þeir nenntu aldrei að hafa mig með þannig að ég var alltaf að leika mér við mömmu hans þegar hún var heima. Við vorum eitthvað að baka og hún nennti að tala við mig; strákarnir nenntu ekkert að tala við mig. Og ég bað hana um að kalla mig Sveppa og hún eiginlega startaði því,“ segir Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem einmitt Sveppi, í viðtali við Reyni Traustason.

Af hverju datt þér það í hug?

„Ég hef ekki hugmynd. Mér fannst það eitthvað snjallt á þeim tíma.“

Og svo bættist við „krull“.

- Auglýsing -

„Já, svo kom það seinna. Það er nú alveg að verða búið. Sveppi krull. Krulli kom svolítið þegar ég byrjaði í sjónvarpinu.“

 

Ég er einhver fræðingur

- Auglýsing -

Sveppi segir að það hafi alltaf blundað í sér að gera eitthvað af þessu tagi – þessu sem hann er þekktur fyrir.

„Ég var snemma í grunnskóla byrjaður að fíflast og reyna að vera fyndinn og vera með smávesen og láta skamma mig. Þegar ég varð eldri var ég sendur út úr tíma af því að ég var óþekkur. Jú, kannski var ég óþekkur, en ég var samt alltaf að reyna að skemmta krökkunum í bekknum með einhverju gríni.“

Sveppi flosnaði upp úr námi.

„Ég kláraði nú grunnskólann með sæmd og er náttúrlega bara gagnfræðingur í dag; það er rosalegt – ég er einhver fræðingur. Svo lá leiðin upp í Fjölbraut í Breiðholti.“ Og þar var Sveppi í fjögur ár. „En ég á örugglega svona þrjú ár eftir.“

Þú hefur ekki fengið húfu?

„Nei. Ég fékk ekki húfu.

Ég vil meina að ég lifi á þessu enn þann dag í dag.

Ég var tækifærissinni og stökk í hvað sem var skemmtilegt. Ég var í vídeónefnd; við vorum að búa til sjónvarpsþætti sem voru sýndir í mötuneytinu einu sinni í mánuði, ég og vinur minn. Við vorum í skemmtinefnd þannig að við vorum að skipuleggja böll og einhver svona „happenings“. Ég vil meina að ég lifi á því enn þann dag í dag, að hafa verið í FB að gera þetta. Við vorum á kvöldin að klippa vídeó og búa til eitthvað. Reyna að vera fyndnir.“

Þarna varstu í rauninni að þjálfa þig fyrir það sem seinna kom.

„Það má segja að þetta hafi verið minn skóli í því. En námið fór dálítið fyrir ofan garð og neðan.“

Hann dreymdi um að verða leikari. Tala inn á teiknimyndir.

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér.
Þá er einnig hægt að horfa á það hér fyrir neðan.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -