Sverrir var ellefu ára kallaður hinn íslenski Robertino: „Barnaverndarnefndin var komin í málið“

top augl

Nýjasti gestur Mannlífsins er kontratenórinn og lífskúntsnerinn Sverrir Guðjónsson. Flestir Íslendingar þekkja Sverri en hann er eini kontratenór þjóðarinnar en hann var ekki nema átta ára gamall þegar hann hóf söngferil sinn.

Sverrir Guðjónsson að afhenda Páli í Húsafelli plötuna Rökkursöngvar í síðustu viku, sem er samstarf Sverris við íslensk tónskáld sem hafa samið fyrir raddsvið hans. Platan kom út fyrir nokkrum árum.
Ljósmynd: Aðsend.

Í viðtalinu segir Sverrir frá barnastjörnuárunum, söngferlinum, óvæntu ævintýri sem Jakob Frímann Magnússon kom honum í þegar hann bjó í Lundúnum og ýmislegt fleira sem á daga hins bráðskemmtilega manns hefur drifið.

„Ég er fljótur að læra lög og texta og er farinn að raula með,“ segir Sverrir við Reyni þegar hann rifjar upp fyrstu skref sín á söngferlinum. Sverrir heldur áfram: „Þannig að það uppgötvast að ég er músíkalskur. Svo man ég eftir því að við fórum oft á Hellissand að heimsækja ömmu mína, Hansborgu. Og ég er úti að leika mér þarna við lítinn poll með lítil skip. Svo koma tveir krakkar, sem voru eldri en ég og vissu að ég gat sungið og spyrja mig; „Ertu til í að syngja á ballinu í kvöld?“. Og ég var ekkert að hugsa um þetta, ég var bara að hugsa um bátana og sigla þeim. Ég man að ég hugsaði; „Æ, ég nenni þessu ekki neitt“. En ég er tiltölulega vel upp alinn, þannig að ég sagði; „Allt í lagi, ég skal gera það“. En ég var bara sjö ára gamall. Síðan var ég settur upp á svið um kvöldið, milli ellefu og tólf. Og svo sendur heim áður en aðal ballið byrjaði og áður en slagsmálin náttúrulega fóru í gang á milli Ólafsvíkur og Hellissands.“

Reynir: „En hvað söngstu?“

Sverrir: „Ég söng bara einhver dægulög sem hljómsveitin kunni og ég kunni. Þannig að ég pikkaði upp lög sem voru í útvarpinu og sem pabbi var að æfa með sínu fólki. Hann fór í nám til að geta skrifað nótur því hann samdi músík. Og hann hlaut fyrstu verðlaun í danslagakeppni S.K.T. árið 1956 held ég, fyrir Sonarkveðju, sem ég síðan syng inn á plötu, sem 12 ára gamall krakki. Og svo önnur plata þegar ég var 13 ára, áður en ég fór í mútur.“

Reynir: „Var Sonarkveðja lagið sem kom þér á kortið og allir vissu hver þú værir?“

Sverrir: „Já, það var Sonarkveðja, af því að það hafði hlotið þessi verðlaun og af því ég syng það svo inn á plötu nokkrum árum síðar, og svo Piparsveinapolki sem var endalaust í útvarpinu og þótt mjög skemmtilegur. En til dæmis þegar ég var átta ára gamall, þá var birt auglýsing í Mogganum um að ég kæmi fram á skemmtun á Silfurtunglinu, sem er Austurbær í dag eða Austurbæjarbíó ef fólk man ekki því. Og það er mynd af mér og tekið fram að ég er átta ára gamall en það voru fleiri að koma fram þarna. Og við tókum göngutúr frá Vitastíg og upp á Snorrabraut og ég mæti þarna tímanlega. Og þá eru tveir menn þarna við útidyrnar á Silfurtunglinu og banna okkur aðgang. Þannig að Barnaverndarnefndin var komin í málið. Þannig að við tókum bara göngutúr til baka. Þannig að ég er strax átta ára gamall farinn að syngja og er auglýstur.“

Sverrir fór svo í söngnám til hins fræga ítalska söngvara, Sigurðar Demetz og var hjá honum í tvö ár, en eftir það var hann ellefu ára gamall fenginn til að syngja á 17. júní og við það tækifæri birtist við hann stórt viðtal í blöðunum og hann var þar með opinberlega orðin barnastjarna. Plöturnar tvær komu svo í kjölfarið. „af því að ég var að læra hjá Sigurði Demetz, þá kennir hann mér öll þessi frægustu og skemmtilegu ítölsku lög. Og á þessum tíma verður Robertino þekktur og frægur og það verður svo til þess, eftir að ég kem fram á 17. júní, 1961, að ég er kallaður hinn íslenski Robertino. Af því að ég söng O Sole Mio.“

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni