Hversu mörgum hringferðum getum við náð á þessum dögum?
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi dagana 1. – 28. nóvember 2021. Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem er ætlað að höfða til allra landsmanna óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Á síðu sambandsins segir að sund geti styrkt hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans. Að sund sé frábær hreyfing bæði til þess að hlúa að heilsunni og sem skemmtileg tómstundaiðja.
Átakið er framhald af Íþróttaviku Evrópu sem tókst einkar vel í ár. Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings.
Markmiðið með verkefninu Syndum saman er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess.
Til þess að taka þátt þarf að skrá sig inn á www.syndum.is