Starfsmaður Vegagerðarinnar bakaði brauð í vegaöxl við þjóðveginn í Hveradalabrekku en þar hefur hitinn hækkað umtalsvert síðasta árið.
„Hvað er ég búinn að koma mér út í í dag?“ sagði Grétar Einarsson, starfsmaður Vegagerðarinnar og hló, þegar Mannlíf heyrði í honum hljóðið í dag, vegna óvenjulegs baksturs sem hann stóð fyrir. Skessuhorn sagði frá því í morgun að Grétar hafi ákveðið að bregða á leik og baka hverabrauð í MacIntosh dós sem hann gróf í vexaöxlina, rétt undir yfirborðinu í Hveradalabrekku. Þar hefur aukin jarðhitavirkni mælst að undanförun í og undir þjóðveginum, skammt frá Skíðaskálanum á Hellisheiði. Hiti í vegláum sunnanmeginn í veginum sjálfum er 86 gráður við yfirborðið.
Að því er fram kemur í frétt Skessuhorns er hitinn við yfirborðið það hár að hægt er að hægelda lambakjöt svo eitthvað sé nefnt. Grétar Einarsson, starfsmaður Vegagerðarinnar ákvað að bregða á leik í fyrradag og skellti í deig að hverabrauði og bakaði í MacIntosh dollu sem hann gróf í vegxölina. Í samtali við Skessuhorn sagði Grétar að uppskriftin sem hann notaði sé háleynileg en að hún sé úr smiðju Valdimars Sigurjónssonar, fyrrum starfsmanns Vegagerðarinnar. Tók baksturinn sólarhring en í gær brögðuðu starfsmenn Vegagerðarinnar á hinu dýrindis brauði, með miklu smjöri. „Svona gerist þegar maður svíkst um að taka lyfin sín,“ sagði Grétar í samtali við blaðamann Skessuhorns og skellti upp úr.
Mannlíf spurði Grétar hvernig brauðið hafi bragðast. „Alveg glimrandi vel,“ svaraði hann hress en bætti við: „En ég ætla að biðja menn að fara ekki að stoppa í brekkunni. Við fórum fyrir utan veg og á löggilt bílastæði. Það er helst að maður sé hræddur um að það fari í eitthvað svoleiðis kjaftæði.“
En af hverju hefur hitinn hækkað á svæðinu? Tengist það virkjuninni? „Nei, ég held að það sé kannski einhver hækkandi hiti þarna. Það eru breytingar þarna, við vorum búnir að sjá þetta í vetur að það hlánaði í fláanum. Þannig að þetta kom ekkert upp í gær alveg. Þegar þeir voru að moka í vetur, bílarnir þá sáu þeir að það voru alveg kaflar þarna þar sem snjórinn losnaði fyrr upp. En þetta var ekki svona í fyrrivetur, við erum búnir að fletta í myndavélum og þetta sést ekki frá síðasta vetri.“
Grétar segir að það hafi ekki áður mælst slíkur hiti við veginn í fláanum og þeim hafi þótt vissara að skoða þetta betur en til stendur að setja upp mæla á svæðinu. „Af því að ef við gerðum það ekki og svo myndi eitthvað gerast, þá værum við ekki taldir standa okkur í stykkinu.“ Þá segir Grétar að það verði hugsanlega einhverjar tafir á svæðinu seinna í dag því Vegagerðin muni bora í veginn og setja upp mæla. Segir hann að það verði einhverjar tafir og þrengingar og jafnvel verði lokað um tíma til Reykjavíkur. Biður Grétar að lokum fólk að sína starfsmönnum stofnunarinnar virðingu á meðan á vinnunni stendur, virða merkingar og annað. „Það gleymist stundum að við erum úti á veginum fyrir þá sem eru að nota vegina.“