Maðurinn sem fannst látinn í Hafnarfirði í gærmorgun er talinn hafa verið stunginn til bana. Áverkar á líki mannsins gáfu slíkt í skyn að sögn Gríms Grímssonar, yfirmanns miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar.
„Það voru áverkar á manninum sem benda til þess að þeir hafi verið veittir af öðrum einstaklingi,“ segir Grímur Grímsson í samtali við mbl.is, aðspurður hvers vegna lögreglan telji að um morð sé að ræða. „Við göngum út frá því að það hafi verið notaður hnífur til þess að stinga hann,“ bætti Grímur við. Ekki vildi hann tjá sig um það hvort morðvopnið sé í haldi lögreglu.
Eins og áður hefur komið fram í fréttum rannsakar lögreglan andlát pólsks manns á fimmtugsaldri en hann fannst látinn í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði. Það var á sjötta tímanum í gærmorgun sem lögreglu barst tilkynning um andlátið.
Er viðbragðsaðilar komu að var hinn látni án meðvitundar utandyra en endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. Taldi lögreglan að hann hafi verið myrtur.
Pólskur karlmaður um fertugt var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald til fimmtudags, af Héraðsdómi Reykjaness, vegna gruns um að hafa ráðið manninum bana. Í upphafi voru tveir menn í haldi lögreglu en annar þeirra var svo sleppt en lögreglan krafðist einungis gæsluvarðhalds yfir öðrum þeirra.