Leitin að tveimur ferðamönnum sem talið er að séu fastir í helli nærri Kerlingarfjöllum heldur áfram en björgunarsveitir hafa nú fundið bíl sem talið er að hafi verið ökutæki ferðamannanna og hafa leitar hundarverið ræstir út.
„Það er semsagt bíll á bílastæðinu sem að virðist hafa komið í gærkvöldi, og ekki finnst neinn sem kannast við að vera á þeim bíl. Það er ástæðan fyrir því að óskað hefur verið eftir leitarhundum, sporhundum,“ sagði Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, við Vísi um málið en bílinn er bílaleigubíll og er skráður á tvo erlenda ferðamenn.
Leitað hefur verið að ferðamönnunum síðan í gærkvöldi en sú leit hefur hingað til ekki borið árangur en tilkynningu barst í gegnum netspjall Neyðarlínunnar þar sem ferðamennirnir sögðust vera fastir í helli og gáfu upp staðsetningarhnit. Leitin hefur síðan verið víkkuð út frá þeim hnitum.