- Auglýsing -
„Það er bráðum ár frá því að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins frumflutti nýjan tón og stefnu flokksins í útlendingamálum af tröppum á Bessastöðum. Áður hafði Jón Gunnarsson haldið þessum málflutningi á lofti, að ástæða þess að hér væru innviðir að grotna og grunnkerfi samfélagsins að falla saman, væri ekki fjársvelti og stefnuleysi stjórnvalda, heldur fjöldi hælisleitenda, sem stjórnvöld höfðu þó boðið hingað flestum sérstaklega. Á tröppunum á Bessastöðum gerði Bjarni þennan málflutning að sínum og þar með Sjálfstæðisflokksins.“ Þannig hefst Facebook-færsla Gunnars Smára Egilssonar formann Sósíalistaflokksins. Þar greinir hann stöðu Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins í skoðanakönnunum frá því að Bjarni Benediktsson fór að tala gegn hælisleitendum.
Segir Gunnar Smári að Bjarni hafi með þessu ætlað sér að lyfta upp fylgi flokks síns, sem þá hafði mælst með 20,8 próstenta fylgi.
„Almennt er talið að Bjarni hafi með þessu verið að reyna að lyfta upp fylgi síns flokks, sem samkvæmt síðustu mælingu þá hafði mælst aðeins 20,8%. Bjarni hefur síðan gefið í og hert á stefnu flokksins. Hann sagði um áramótin að hælisleitendur kostuðu 16 milljarða, 20 milljarða í febrúar og 25 milljarða fyrir páska, fullyrti að stjórnleysi væri við landamærin og að íslenskar reglur soguðu hælisleitendur til landsins. Þetta sagði hann þrátt fyrir að hælisleitendur séu 56% færri í ár en á sama tíma í fyrra. Ekkert af þessu hefur virkað til að lyfta upp fylgi Sjálfstæðisflokksins. Í síðustu mælingu Gallup mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 18,0%. Frá ræðunni á tröppunni hefur fylgi flokksins fallið úr 20,8% í 18,0%. Það jafngildir því að um sex þúsund manns hafi snúið baki við flokknum.“
Sósíalistaforinginn segir orðræða Bjarna hafi aftur á móti aukið fylgi Miðflokksins.
„Orðræða Bjarna hefur hins vegar aukið við fylgi Miðflokksins. Það er ekkert skrítið heldur voru þær afleiðingar þvert á móti fyrirsjáanlegar. Þegar eldri hægri flokkar taka upp útlendingaandúð nýja hægrisins þá stækkar nýja hægrið en gamla hægrið minnkar. Og frá ræðunni á tröppum Bessastaða hefur Miðflokkurinn vaxið úr 6,9% upp í 13,5% samkvæmt mælingum Gallup. Þetta jafngildir því að um 14 þúsund kjósendur hafi fært sig yfir á Miðflokkinn.“
Að lokum segir Gunnar Smári að ekki sé ólíklegt að Miðflokkurinn verði orðinn stærri en Sjálfstæðisflokkurinn innan tíðar.
„Í síðustu mælingu Gallup munaði bara um 9.500 kjósendum á Miðflokki og Sjálfstæðisflokki. Með áframhaldandi forystu Bjarna er alls ekki ólíklegt að Miðflokknum takist að vinna upp þetta bil. Munurinn var 30 þúsund fyrir ári en eru nú aðeins tæplega 10 þúsund.
Og fyrir ári var Samfylkingin 16 þúsund kjósendum fyrir ofan Sjálfstæðisflokkinn. Nú er munurinn orðinn 25.500.“