Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Terry Gunnell um Grýlu: „Hún er náttúrulega á vissan hátt fyrsti femínistinn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Terry Adrian Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands, var gestur í hlaðvarpinu Jólaseríunni hjá Mannlífi á dögunum.

Terry er afar fróður um hina ýmsu vætti sem tengjast jólunum, sögur og siði í aldanna rás. Hann veit sérstaklega mikið um Grýlu – hvaðan hún kemur og sögu svipaðra skessa í öðrum löndum, svo eitthvað sé nefnt.

Terry var spurður út í hið drungalega í kringum jólin – enda fátt notalegra svona á aðventunni en að velta fyrir sér draugum, tröllum og alls konar öðrum ófétum sem hræddu fólk hér á árum áður.

 

Dyr milli heima opnast

„Jólin eru, eins og við hugsum um þau, alltaf 24., 25. desember. Kristin trú, Jesúbarnið og svo framvegis. En á Norðurlöndum eru ræturnar í 21. desember, sem er lengsta nótt ársins. Þegar menn eru að vona að sumarið komi aftur. Ljósið kemur aftur, sólin fer þá að hækka á lofti og þetta er eins og með miðsumar; á þessum tímum er eins og dyr milli heima opnist. Þetta er það sem við köllum svona millibilsástand eða jaðartíma. Þar sem breytingar eru að eiga sér stað í náttúrunni og líka umhverfinu og svo framvegis. Ekki síst í sambandi við sólina.

Þannig að þetta er tími, í þjóðtrú að minnsta kosti, þar sem maður getur búist við því að lenda í klóm einhverra yfirnáttúrulegra vera. Og á Íslandi eru aðal fígúrurnar náttúrlega Grýla og jólasveinarnir, og jólakötturinn og svo framvegis. Svo eru álfar sem fara á milli bæja á svipuðum tíma.

- Auglýsing -

Það er margt sem er tengt við gamlárskvöld en svo er ýmislegt sem gerist á jólum, í kringum jólatímann, sem færist milli daga. Ekki síst vegna þess að í gamla daga var verið að færa jólin. Í kringum 1600 tóku menn eftir því að lengsta nótt ársins var komin á 13. desember. Þess vegna þurfti að stytta árið um sirka 12 nætur. Þess vegna eru 12 dagar fyrir jól og 12 dagar eftir jól. Það er náttúrlega alltaf grunsamlegt þegar ríkisstjórn fer að fikta við árið á þennan hátt. En það var nauðsynlegt til þess að hafa jól þar sem þau eru núna og það var verið að breyta tímakerfinu úr því rómverska yfir í gregoríanska tímakerfið, sem kom frá páfanum. Þess vegna er til dæmis á Hjaltlandseyjum enn þá talað um hin gömlu jól og nýju jól.

Þannig að við höfum gömlu jólin sem eru 13., og við höfum nýju jólin sem eru 24., 25. desember. Þá höfum við sirka þessa 24 daga, til 6. janúar, til að útskýra tímabilið og ýmislegt færist milli daga.“

- Auglýsing -

Grýla

„Grýla er kannski flóknasta veran sem við eigum í sambandi við jólin. Hún er mjög gömul fígúra; hún þekkist frá 13. öld reyndar. Þá er hún ekki tengd við jól, heldur er hún einhver vera sem er uppi í fjöllunum og er að ráðast á fólk. Í Sturlungasögu er saga um mann sem heitir Jón Loftsson sem er mjög pirraður út í annað fólk sem er búið að gera grín að honum í dansvísum. Þá ákveður hann að ráðast á bæinn þar sem þetta fólk býr og þegar hann kemur niður fer hann með vísuna um Grýlu. Grýla kemur í garð, með alla þessa hala og er að ráðast á bæinn … þetta er vísa sem við þekkjum enn í dag, og er ennþá þekkt í Færeyjum til dæmis.

Þá er hann að ráðast á, meðal annars, mann sem heitir Steingrímur Skinngrýluson, sem er leikari. Skrýtið nafn, vegna þess að að jafnaði eru það föðurnöfn sem menn nota. En það virðist líka vera á þessum árum að menn hafi verið að leika Grýlu, eins og er enn þá gert í Færeyjum.

Fyrsti hluti af Sverris-sögu heitir Grýla. Þá býr hann í Noregi, er uppi í fjöllunum og er að ráðast á fólk úr ýmsum áttum; hann er að búa sér til svona þjóðsagnarpersónu fyrir sig. Þannig að hann er í rauninni Grýla. Og það eru vísur sem segja eitthvað eins og „Hvar er Grýla núna? Hvenær kemur hún niður?“. Þannig að það er einhver vera í fjöllunum, einhver kvenvera.

Grýla á dönsku þýðir að urra. Eins og urrandi vera. Með tímanum náttúrlega, á Íslandi, fer hún að breytast og við eigum þessar vísur um jólasveinana og Grýlu frá sirka 1600, 1700, 1800.“

 

Villta reiðin

„En á meðan, í öðrum löndum, eru siðir og sögur um hópa af vættum sem ráðast að húsum og bæjum á jólum. Stórir hópar af dauðum mönnum og tröllum sem koma niður og ráðast inn á bæi og stela mat, stela fólki og fara á milli bæja. Þetta er kallað „villta reiðin“ eða „the wild ride“, sem er vel þekkt í mörgum löndum, til dæmis í Þýskalandi. En í Vestur-Noregi heitir persónan sem leiðir þennan hóp, á íslensku, Guðrún með hestahalann. Aftur höfum við halana og kvenveru sem leiðir hóp af vættum, eins og jólasveinana hér.“

 

Julebukk og Julegeit

„Það eru sögur af þessu tagi og líka siðir, þar sem fólk klæðir sig upp í búninga; í skinn, sem er auðveldast að nota til að fela sig og fara á milli bæja á jólum og nýársnótt og líka snemma í janúar – svona á jólatímabilinu. Í Noregi heitir aðalvætturinn Julebukk eða Julegeit, sem hefur horn og fleira, eins og Grýla í vísunum. Stundum kemur hann einn, stundum er það kvenvera. Og svo aðrar verur líka, önnur nöfn sem menn nota. En Julebukk og Julegeit fara á milli bæja á þessum tíma og krefjast matar, krefjast þess að fá eitthvað að drekka, fá áfengi. Stundum, þegar krakkarnir höfðu fengið að heyra um hóp af illum vættum sem komu niður úr fjöllunum og réðust á bæina, þá var hópur af ungum karlmönnum sem réðst inn í bæina á sama tíma. Siðirnir styrkja sögurnar, sögurnar bæta einhverju við siðina. Menn gefa í skyn að þeir komi niður úr fjöllunum: „Ég er einn af þeim“.“

 

Jólaleikir: „Ef þeir heimsækja þig ekki, þá er eitthvað að þér“

Terry segir að þetta hafi stundum þróast í jólaleiki sem voru ómissandi hluti af jólatímabilinu.

„Stundum er þetta jólaleikur. Ef þeir heimsækja þig ekki, þá er eitthvað að þér. Þeir koma og þú þarft að giska á hver það er sem er búinn að klæða sig upp og fela sig. Ef þú veist hver það er, þá tekur hann grímuna af sér og heldur áfram að ræða við þig og drekka. Svo fer hann áfram á næsta bæ. Þeir eru oft blindfullir. Alltaf karlmenn. Ungir, ógiftir karlmenn, sem gera þetta árlega.

Í sumum bæjum er kona sem heitir Lussi. Við þekkjum auðvitað líka Lúsíu, en hér lítur hún nákvæmlega út eins og Grýla. Hún hefur horn, hestahófa og er með tösku með sér. Það er til frábær mynd af Lussi í Hardanger frá sirka 1800 og með henni er lítill maður með geitarhaus sem heitir Julesvein. Þannig að við höfum þá jólasveina; karlmenn sem fara á milli bæja á jólum og eru að stela pylsum, kjöti og skyri og ég veit ekki hverju öðru. Stela, frekar en að fá gefins.

Við höfum ekki nákvæmlega eins siði á Íslandi en við höfum aftur á móti vikivaka-leiki, sem gerast oft á þessum tímum. Menn fóru í bæ og þá kom fólk inn í búningum, til dæmis tröllkona; Háa-Þóra. Svo eru ýmsir aðrir sem eru dýr, alveg eins og Julegeit og Julebukk. Þannig að ég held að sams konar siðir hafi verið til hér á landi í gamla daga, eins og Skinngrýla gefur í skyn; þetta var til. Svona frumleiklist, einhvern veginn.

Það er gaman að hafa svona spennu líka og hópast saman. Strákar náttúrlega í búningum, að reyna að fá stelpur til að hópast saman. Mikil læti og svoleiðis í kringum þá.“

 

Álfahóparnir

„Hér á Íslandi eru svo líka sögur um illa vætti sem ráðast inn í bæi á jólum. Við höfum álfa, af einhverjum ástæðum. Ekki tröll lengur eða dauða menn, heldur álfa. Þeir náttúrlega eiga hús annars staðar, til hvers að stela? En þetta eru samt sams konar sögur. Íslendingar vita að Norðmenn eru með hóp af tröllum. Það er aldrei hópur af tröllum á Íslandi. Hópur af álfum – ókei, við tökum þá bara álfa í staðinn. Það er ekki rými fyrir fullt af tröllum í húsum, það bara gengur ekki. Þannig að; ókei, fínt, þá eru það bara árans álfarnir á þessum tíma.“

Grettir og Glámur takast á.

Bruce Willis og Grettir

„Svo er einhver hetja sem heyrir af því að heimamenn séu að flytja út úr bænum á jólum árlega. Ekkert mál, hann mun ráðast í þetta, eins og Bruce Willis. Þetta er sama saga og Die Hard og Home Alone. Hetjan og svo einhverjir vættir sem koma, svona terroristar eða eitthvað.

En Bruce Willis kemur í heimsókn og í Noregi er hann oftast með ísbjörn með sér. Það gengur ekki heldur á Íslandi. Íslendingar vita að ef þú ert að ganga um með ísbirni ertu bara nesti fyrir ísbjörninn. Þannig að það þurfti að breyta þessu aðeins. Í einni gerð af sögunni hér þá er hann með kind með sér. Það passar reyndar ekki heldur. Tröllin, vættirnir, eiga að vera hræddir við dýrið. En, sagan er til, og margar útgáfur af sögunni þar sem hetjan kemur inn og losnar við álfana sem eru búnir að taka yfir bæinn.

Samskonar og ennþá eldri sögu eigum við í Grettis-sögu. Þá eru það draugar sem eru að ráðast að heimahúsum á jólum. Í Grettis-sögu er það Glámur. Grettir losnar aldrei við hræðsluna við augu Gláms. En siður Gláms er sá sami; að ráðast í heimahús á jólum og menn flytja út þangað til Bruce Grettir kemur.“

Grýla fyrsti femínistinn

Ljóst er að í mörgum þessum sögum frá hinum ýmsu löndum er það kvenpersóna sem leiðir vættina.

„Á Írlandi er til dæmis kona sem heitir „Kellingin“, sem er tákn fyrir veturinn.

Sögurnar um Grýlu eru til úti um allt í löndunum í kringum okkur, í mismunandi formi. Þannig að þetta er ekki bara íslenskur siður eða íslensk þjóðtrú. Þetta er norrænt að miklu leyti.“

Aðspurður hvort Grýla sé ill í allri þessari þjóðtrú og mismunandi útgáfum af sögum segir Terry að hún sé alltaf gýgur, tröllkona.

„Hún er náttúrlega á vissan hátt fyrsti femínistinn. Kona sem borðaði fyrsta eiginmann sinn. Það er eitt með hana, sem er bara getgáta, en í norrænni trú eru veturnætur ársins í lok október, byrjun nóvember. Á allra heilagra messu. Og veturnætur á Íslandi eru líka tengdar við Dísablót, sem er fyrir kvenkyns verur. Þær eru líka tengdar við Þorbjörgu Lítilvölvu, í Eiríkssögu, sem fer milli bæja og er að spá á þennan tíma. Og þá höfum við Grýlu, Kellinguna og fleiri, miðsvetrar.“

Freyja og göltur hennar, Hildisvíni. Myndskreyting í Hyndluljóðum Edduútgáfu Karls Gjellerup frá 1895.

Veturinn tími kvenna

Terry segir að á þessum árstíma hafi konur ráðið meiru innan veggja heimilisins. Þær höfðu lyklavöldin, stjórnuðu þrælunum og svo framvegis.

„Þannig að einhvern veginn, á þessum tíma, tekur við tími kvenna. Sumarið er tími karla. Að fara í stríð, að versla, að slá blettinn og svo framvegis. Maður fer líka að hugsa, að í norrænni trú eru Freyr og Freyja, Freyr og Gerður – þau eru aldrei saman, heldur alltaf að leita hvort að öðru. Freyja fer í burtu að leita að Óðni, Freyr er að leita að Gerði og Þór er alltaf fyrir austan einhvers staðar. Hann er ekki hér, þegar maður þarf að fá aðstoð.

Þá fer maður að hugsa hvort það sé möguleiki að árinu hafi verið skipt í tvennt. Að veturinn hafi þá verið tími kvenna; þegar allt er að gerast inni í jörðinni, inni í bumbunni, að sumu leyti. Svo sprettur allt úr jörðinni þegar sumarið kemur og þá fara menn að slá. Yfirborð – undirborð, myrkur – ljós. Þá er spurning hvort Grýla, Lussi og fleiri séu leifar af Freyju, til dæmis. Sem er líka tengd við hina dauðu í sumum Eddukvæðum. Þetta er bara getgáta, en þetta myndi útskýra af hverju guðirnir eru ekki hér. Þeir eru annars staðar á þessum tíma.

Mér þætti mjög gaman að sjá fólk taka upp Dísablót hér, í staðinn fyrir „Halloween“. Tími kvenna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -