Sunnudagur 12. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

„Það eru fleiri leikendur í þessu viðbjóðslega máli en þær“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, birtir á Facebook  skjal sem hún segir varpa nýju ljósi á innbrot á tölvupóstfangi hennar sem hún segir forvera sinn hafa staðið að. Hún segir það innbrot hafa verið framið í pólitískum tilgangi og sýni vel að andstæðingar hennar svífist einskis. Hér fyrir neðan má lesa pistil hennar um málið og sjá téð skjal.

Hér má sjá mynd af skjali sem að mér var afhent 12. nóvember 2021 af Agnieszku Ewu Ziolkowska, þá formanni Eflingar og Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, þá varaformanni Eflingar. Skjalið er útbúið af lögmanni þeirra tveggja og eins þið sjáið undirritað af Agnieszku og Ólöfu.

Í skjalinu kemur m.a. þetta fram:

Ég á að veita Agnieszku Ewu allar upplýsingar og gögn sem telja má rétt og skylt að forysta félagsins hafi, svo og þær upplýsingar og gögn sem að nýr formaður Eflingar óskar eftir, svo fremi það sé mögulegt og við hæfi.

Ég á að gera nýjum formanni grein fyrir öllum þeim ráðum, nefndum og stjórnum sem að ég hef verið skipuð í fyrir hönd Eflingar.

Ég á að vera nýjum formanni til ráðgjafar, ef þurfa þykir, varðandi mál sem eru í gangi í því skyni að þekking innan skrifstofunnar og félagsins haldist og upplýsingar glatist ekki.

- Auglýsing -

Ég á að veita stjórnendum og stjórn Eflingar umbeðna ráðgjöf og upplýsingar er varða mál sem eru í gangi.

Einnig kemur þetta fram:

Ég á að skila lyklum og öðru sem eðlilegt er að skilað verði við mótttöku bréfsins. Ég fæ að eignast þá tölvu sem að ég hafði notað við störf mín að því skilyrði uppfylltu að ég afhendi fyrst tölvuna til tölvusérfræðings Eflingar svo að unnt sé að aftengja tölvuna neti Eflingar. Öll rafræn starfstengd gögn ber að afhenda á USB lykli til Eflingar. Frumgögn pappíra skal einnig afhenda.

- Auglýsing -

Einnig kemur þetta fram:

Öllum aðgangi að Eflingu, þ.m.t aðgangi að Office365 og Eflingar netfangi mínu verður lokað.

Ég meðtók þetta skjal og gerði allt sem að mér bar að gera samkvæmt því. Ég skilaði USB lykli með gögnum sem ég hafði vistað á tölvunni. Ég skilaði frumgögnum pappíra sem að ég hafði. Ég gerði grein fyrir öllum þeim ráðum o.s.frv. sem að ég hafi setið í vegna formennsku í Eflingu. Og ég fór til tölvusérfræðings Eflingar svo að hann gæti aftengt tölvuna af neti Eflingar, lokað öllum aðgangi sem að ég hafði sem formaður félagsins og launaður starfsmaður, og gæti lokað Eflingar-netfangi því sem að ég hafði notað, [email protected]

Mér datt ekki til hugar að reyna að koma mér undan neinu af því sem að upp var talið. Og mér datt ekki til hugar að þær sem að undirrituðu skjalið sem formaður og varaformaður Eflingar myndu sjálfar virða það sem að þeim snéri að vettugi. En það gerðu þær að því sem næst öllu leiti, að því frátöldu að mér voru sannarlega greidd laun á uppsagnarfresti.

Staðreyndin er sú að Agnieszka Ewa eða Ólöf Helga höfðu aldrei samband við mig til að afla upplýsinga eða gagna um eitt eða neitt. Þær höfðu aldrei samband til að fá ráðgjöf eða upplýsingar varðandi mál sem voru í gangi á vettvangi félagsins.

Ekki í eitt einasta skipti.

Ástæðan fyrir því að þær létu brjótast inn í pósthólfið [email protected] var ekki vegna þess að ég hafi ekki veitt upplýsingar eða að þær yrðu að hjálpa félagsmanni í vandræðum eða finna lykilupplýsingar um kjarasamninga eða önnur mikilvæg plögg. Nei, ástæðan er eins augljós og hugsast getur. Svo augljós að engin manneskja komin til vits og ára getur litið fram hjá henni:

Agnieszka Ewa og Ólöf Helga brutust inn í pósthólfið [email protected] til að stunda njósnir í pólitískum tilgangi. En það er almennt talið gróft brot, ekki aðeins í skilningi laganna, heldur ekki síður þegar kemur að þeim grundvallar leikreglum lýðræðisins sem að okkur hefur verið kennt að virða og starfa eftir. Frá 12. janúar 2022 höfðu þær óheftan aðgang að öllum póstum sem að ég hafði móttekið og sent frá því 26. apríl 2018. Ekki var lokað fyrir aðganginn þegar að ég tilkynnti þann 28. jánúar síðastliðinn að ég gæfi kost á mér í kosningum um forystu í Eflingu, en þar var Ólöf Helga einnig í framboði. Ekki var lokað fyrir aðganginn þegar að ég og félagar mínir á Baráttulistanum unnum svo lýðsræðislegar kosningar í félaginu 15. febrúar. Þær létu ekki loka fyrir aðganginn fyrr en 5 dögum eftir að aðalfundur félagsins hafði verið haldinn og ég var tekin við sem formaður, eða þann 13. apríl.

Það eru fleiri leikendur í þessu viðbjóðslega máli en þær og ábyrgð þeirra er mikil. En ábyrgð, og skömm, þessara tveggja kvenna er auðvitað mest. Þær lögðust eins lágt og hægt er að hugsa sér. Þær beittu aðferðum í pólitískum framaleikjum sínum sem að engin manneskja með lágmarks siðferðiskennd myndi nokkru sinni nota. Þær grömsuðu og rótuðu, lásu og prentuðu, ekki í einn eða tvo daga, heldur í 4 mánuði. Ekki af neinni annari ástæðu en til að reyna að finna eitthvað sem að þær gætu notað gegn mér í pólitískum tilgangi.

Engin umræða fór fram í stjórn félagsins um þessar fyrirætlanir Agnieszku og Ólafar Helgu, og stjórn var ekki upplýst þegar að pósthólfið hafði verið tengt við Outlook-pósthólf starfandi formanns. Hvervegna? Jú, vegna þess að þetta mátti ekki fréttast. Þessu var haldið leyndu, af þeim tveimur og af þeim sem að liðsinntu þeim í þessu ógeðslega njósna-verkefni. Stjórn félagsins var aldrei upplýst og ég var aldrei upplýst.

Agnieszka Ewa og Ólöf Helga hafa sýnt að þær svífast bókstaflega einskis. Þær hafa með framferði sínu orðið sjálfum sér til ævarandi skammar. Það hátt setta og málsmetandi fólk innan og utan Alþýðusambandsins sem styður framboð Ólafar Helgu hefur með þeim stuðningi orðið sjálfu sér til ævarandi skammar. Ég myndi segja að þau hefðu náð botninum, en því miður held ég að svo sé ekki. Í vissum kreðsum virðist botninn hvergi vera sýnilegur.

Enn á ný sjáum við að orð Styrmis Gunnarssonar, mannsinns sem sjálfur njósnaði um pólitíska andstæðinga fyrir Morgunblaðið, Sjálfstæðisflokkinn og sendiráð Bandaríkjanna, eru hinn mikli sannleikur um þjóðfélagið okkar. Það er ömurlegt að þurfa að horfast í augu við það. Ég vona að við komust einhverntímann undan þessari bölvun. Við getum varla þolað lengur að svona sé fyrir okkur komið:

„Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -