Mánudagur 30. desember, 2024
-6.2 C
Reykjavik

Þegar allt lék á reiðiskjálfi innan RÚV: „Fréttamenn treysta sér ekki til að starfa með Auðuni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ráðning nýs fréttastjóra á Ríkisútvarpið skók stofnunina og setti allt í bál og brand í mars árið 2005.

Auðun Georg Ólafsson, afleysingamaður á fréttastofu Stöðvar 2 og fyrrverandi starfsmaður Marels í Asíu, hreppti starfið.

Hann var af einhverjum talinn vera hallur undir Framsóknarflokkinn og tilefni ráðningarinnar var sagt vera að koma ákveðnu jafnvægi á fréttaflutning.

Auðun var tekinn fram fyrir reynslumikla fréttamenn af Ríkisútvarpinu. Deilurnar urðu stöðugt magnaðari og urðu til þess að fréttamenn stofnunarinnar lýstu vantrausti á Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra.

Það gerðist eftir að útvarpsstjóri mætti í viðtal í Kastljósi þar sem hann var fenginn til þess að svara fyrir málið.

- Auglýsing -

„Framganga Markúsar í Kastljósi Sjónvarpsins gekk gjörsamlega fram af félagsmönnum í Félagi fréttamanna og mér persónulega þar sem hann gerði lítið úr starfsmönnum sínum og þeirra faglega starfi undanfarin ár. Fréttamenn munu ekki sitja undir þessu og treysta sér ekki til þess að starfa með Auðuni Georg Ólafssyni komi hann til starfa á fréttastofuna,“ sagði Jón Gunnar Grjetarsson, formaður Félags fréttamanna, við Fréttablaðið af þessu tilefni.

Í áðurnefndu viðtali varði Markús þá ákvörðun sína að ráða Auðun í starfið. Þá þótti fréttamönnum Útvarpsins sem hann veittist að heiðri þeirra. Í viðtalinu færði Markús Örn rök fyrir því hvers vegna hann ákvað að ráða Auðun Georg.

Markús Örn sagði að Ríkisútvarpið næði illa til ungs fólks og meðal annars þess vegna væri gott að fá Auðun Georg, ungan og ferskan mann, til starfa. Aðspurður hvort hann gerði ekki lítið úr reynslu þeirra umsækjenda sem hefðu unnið lengi á fréttastofunni og meðal annars stýrt fréttavöktum svaraði Markús Örn:

- Auglýsing -

„Stýra vöktum. Hvað er það mikið atriði fyrir nýjan mann og hvað tekur það langan tíma að læra að stilla upp vöktum.“

Auðun Georg virtist ætla að halda því til streitu að þiggja starfið. Þann 31. mars mætti hann á fréttastofu Útvarps til að heilsa upp á væntanlega undirmenn sína. Fréttablaðið birti af þessu tilefni mynd af honum að heilsa Brodda Broddasyni fréttamanni. Heimsóknin breytti þó í engu afstöðu fréttamannanna sem áréttuðu að þeir myndu ekki lúta boðum nýs fréttastjóra. 200 starfsmenn Ríkisútvarpsins samþykktu vantraust á Markús.

Útvarpsstjórinn stóð afskaplega tæpt þótt hann nyti stuðnings Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra sem lét í ljósi efasemdir um framgöngu fréttamanna RÚV.

Þann 1. apríl dró svo til tíðinda þegar Auðun mætti til vinnu. Í tilefni af nýja starfinu veitti hann Ingimari Karli Helgasyni, fréttamanni Sjónvarpsins, viðtal. Í viðtalinu varð hann tvísaga. Ingimar Karl hafði komist á snoðir um leynifund nýja fréttastjórans með Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni, formanni útvarpsráðs, daginn áður. Hann spurði Auðun hvort hann hefði fundað með formanninum nýlega. Hinn neitaði því. Þegar spurningin var ítrekuð með vitneskjunni um fundardaginn sagði Auðun að efni fundarins væri trúnaðarmál.

Þar með lauk ferli hans sem fréttastjóra á einum degi. Hann sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að vegna aðstæðna á fréttastofu Útvarps sæi hann sér ekki fært að skrifa undir ráðningarsamning. Hann þvertók fyrir að hafa sótt um á vegum stjórnmálaafla eða annarra.

„Þrátt fyrir að vegið hafi verið að persónu minni með afar ósanngjörnum hætti, mannorð mitt svert með röngum ásökunum, hreinum lygum haldið á lofti og mér allt að því hótað, ákvað ég engu að síður að mæta til starfa með opnum huga og gefa fréttamönnum á fréttastofu Ríkisútvarpsins tækifæri til að sýna að sanngirni, hlutleysi, réttlæti og fagleg vinnubrögð væru höfð að leiðarljósi.

Í viðtali sem ég veitti fréttamanni Ríkisútvarpsins í dag í tilefni af því að ég hæfi störf var með lævíslegum hætti reynt að koma mér í vandræði. Það tókst, þar sem ég vildi ekki rjúfa trúnað. En fréttamaðurinn var ekki hlutlaus, hann var málsaðili, og honum tókst ekki að gera greinarmun þar á …“.

Þar með lauk ferli hans á Ríkisútvarpinu og hann hvarf jafnskjótt og hann birtist. Fátt sagði af Auðuni næstu árin. Árið 2013 stofnaði hann Kópavogsblaðið sem hann hefur síðan haldið úti með ágætum árangri.

Markús og félagar brugðust skjótt við eftir brotthvarf Auðuns og réðu þann þaulreynda fréttamann, Óðinn Jónsson, sem fréttastjóra. Hann tók við starfinu í byrjun apríl. Þar með færðist að nýju ró yfir stofnunina; í bili. Óðinn Jónsson sat í sjóðheitum stól fréttastjórans þar til árið 2014 þegar hann hætti í framhaldi þess að Páll Magnússon útvarpsstjóri lét af störfum í fússi þegar enn einn niðurskurðurinn blasti við stofnuninni eftir langvarandi hallarekstur. Þá fóru menn varlega í ráðningu og Rakel Þorbergsdóttir, óumdeildur fréttamaður, var ráðin í starfið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -