Laugardagur 7. september, 2024
10.5 C
Reykjavik

Þegar herlögreglan handtók Kára og Ragnar Skjálfta: „Vertu sæll aldni sósíalisti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kári Stefánsson rifjar upp þegar hann og Ragnar Kristján Stefánsson, „Skjálfti“ voru handteknir af bandarísku herlögreglunni í Keflavík, þegar þeir gerðu tilraun til að taka yfir stúdíó í sjónvarpsstöð hersins.

Ragnar Skjálfti verður jarðsunginn í dag en af því tilefni skrifaði gamall vinur hans og sósíalistafélagi, Kári Stefánsson fallega færslu til að minnast Ragnars. Færslan er löng en þar fer hann yfir kynni sín af Ragnari og rifjar upp lítt þekkta tilraun þeirra til að mótmæla Víetnamstríðinu.

„Bréf til Ragnars Stefánssonar

Ég var nítján ára þegar við hittumst nokkur að Tjarnargötu 20 og héldum síðan til Keflavíkur í þeim tilgangi að taka yfir stúdíó í sjónvarpsstöð hersins. Þaðan ætluðum við að sjónvarpa áróðri gegn stríðinu í Víetnam. Og þú Ragnar Skjálfti varst bílstjórinn sem áttir að koma okkur undan ef illa færi. Með í för voru þær Róska og Birna Þórðar en ég man ekki eftir fleirum og þar sem ég er búinn að missa símasamband við þig reikna ég ekki með að geta stólað á þig til þess að fylla í eyðurnar. Ef ég man rétt tókst okkur ekki að stöðva stríðið í Víetnam en við náðum svo sannarlega athygli herlögreglunnar sem fór um okkur heldur ómjúkum höndum þótt varnarsáttmálinn segði að hún mætti ekki snerta innfædda.“

Þá rifjar Kári einnig upp fleiri skipti þegar þeir mótmæltu stríðinu og segir meðal annars:

„Og leiðir okkar lágu saman við fleiri göngur og mótmæli vegna þess að alls staðar þar sem íslenskir sósíalistar börðust fyrir betra samfélagi og meira réttlæti í heiminum varst þú nærri.“

- Auglýsing -

Kári beinir svo orðum sínum að hryllingnum á Gaza:

„Og nú er mér sagt að háð sé eitt ljótasta stríð sögunnar í Gaza en það er í rauninni ekkert stríð heldur bara Ísraelar að drepa fjöldann allan af Palenstínuaröbum í þeirri von að meðal þeirra sem þeir drepa leynist einhverjir Hamasliðar. Hver veit hvort það sé rétt eða rangt en hitt vitum við að meðal þeirra, sem hafa verið sprengdir í loft upp eru um það bil 20 þúsund börn. Af þeim 38 þúsund sem Ísraelar hafa drepið í Gaza eru tuttugu þúsund börn og þeir segjast hafa reynt að forðast að valda óbreyttum borgurum skaða? Og tækin til þess að drepa börnin fengu Ísraelar frá Bandaríkjunum. Ragnar þetta, hvað svo sem það er, sem er að gerast í Gaza, veldur mér alls konar vanda. Í fyrsta lagi eru Gyðingar gáfaðasta þjóð í heimi og allar hetjurnar mínar úr vísindaheiminum eru Gyðingar og trjónir Einstein þar yfir öllum. Þetta ástand í Gaza bendir líklega til þess að höfuðið sé að mestu gagnslaust án hjartans, þess vegna finnst mér Ragnar að það sé kominn tími til þess að við hættum að hlægja að honum Sveini Dúfu. En þetta er að vísu enn flóknara vegna þess að vinir mínir af gyðingaættum í Ameríku eru allir sem einn í rusli yfir framgöngu frænda sinna í Ísrael. Hörmungarnar í Gaza eiga ekki rætur sínar í hatri Gyðinga á Aröbum og eru ekki stríð Gyðinga gegn Aröbum heldur glæpur ísraelskra fasista fyrst og fremst gegn Palestínumönnum en einnig gegn sögu Gyðinga sem markast af friði og spekt.“

Þá segir Kári að hlutur Bandaríkjanna í þjóðarmorðinu haldi fyrir honum vöku enda hafi skoðun hans á landinu breyst frá því að hann var ungur sósíalisti.

- Auglýsing -

„Og síðan er það hlutur Bandaríkjanna í þessu þjóðarmorði sem heldur fyrir mér vöku Ragnar. Í gamla daga litum við á Bandaríkjamenn sem villimenn kapítalismans sem ekki væri upp á púkkandi. Ég get það ekki lengur vegna þess að ég bjó þar í tuttugu ár og sá þar margt fallegt og gott í þessari fjöbreytilegu þjóð og svo var hún mér svo örlát og kenndi mér svo margt. Þess utan á ég dóttur og þrjá dóttursyni sem eru Bandaríkjamenn og þess vegna er mér ómögulegt annað en að þykja væntum þessa þjóð. Hitt verð ég að segja að það er óásættanleg grimmd af ríkisstjórn Bidens að dæla sprengjum til Ísrael sem eru notaðar til þess að varpa á heimili, skóla og sjúkrahús í Gaza og deyða börn og aðra óbreytta borgara. Þegar talsmönnum Hvíta hússins hefur verið bent á að það sé verið að drepa börn er svarið gjarnan að Hamasliðar feli sig meðal barnanna, þeir séu einfaldlega með þessi börn í gíslingu. Það er fyrir því löng hefð í Bandaríkjunum að fallast ekki á að drepa gísla til þess að ná til þeirra sem halda þeim í gíslingu. Þar af leiðandi Ragnar eru þessar sprengjusendingar Bandaríkjamanna ekki í neinu samræmi við menningu þeirra heldur eru þær í raun réttri andamerískar og það eina sem gæti réttlætt þetta í hugum ráðamanna í Hvíta húsinu er að þessir gíslar, palentísk börn, hafi minni rétt til lífs en Bandaríkjamenn. Það stríðir líka gegn hefð í Bandaríkjunum sem gengur út á að við mannskepnur fæðumst allar inn í þennan heim jafn réttháar. Það eina sem í mínum huga Ragnar útskýrir bandaríska þáttinn í hörmungunum í Gaza er ellihrumleiki Bidens. Hann er að öllum líkindum búinn að gleyma því að það er ekkert í heimi hér sem réttlætir það að drepa börn, engin pólitísk fílósófía, engin saga um fyrri átök, engin trúarbrögð.“

Minnist Kári einnig á stríðið í Úkraínu og þá staðreynd að skattpeningar Íslendinga séu notaðir til að drepa rússnesk ungmenni. „Ragnar þetta er harður heimur sem þú skilur okkur eftir með og nú verðum við að draga fána réttlætis að húni án þinnar hjálpar.“

Lokaorð Kára eru einstaklega falleg:

„Og nú ertu farinn frá okkur. Við Íslendingar höfum búið í þessu landi í ellefu hundruð ár og það hefur mótað okkur að því marki að það þarf ekki flókið próf til þess að ákvarða faðerni þessarar þjóðar. Við erum afsprengi elds og íss og suðvestan kalda og rigningar. Þetta föðurland okkar kann líka að sýna virðingu þegar við á þannig að þegar það var orðið ljóst að þú værir að kveðja hleypti það á stað jarðskjálftahrinu á Suðurnesjum sem aldrei áður. Það vissi eins og við hin að þú kannt betur en aðrir að lesa þau skilaboð sem eru falin í jarðskjálftum. Í þetta skiptið sögðu þau: Vertu sæll aldni sósíalisti og þökk fyrir alla baráttuna.“

Hér má sjá færslu Kára í heild sinni:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -