Fimmtudagur 24. október, 2024
4.9 C
Reykjavik

Amerískur hermaður skaut Gunnar í hnakkann í gegnum bílrúðu – Í tveimur tilfellum voru börn myrt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hermenn eru þjálfaðir til að drepa, eðli málsins samkvæmt, en það er munur á drápi á óvinum og morði. Þar til nýlega var talið að hermenn hefðu myrt þrjá Íslendinga á tímum hersetunnar, en nú þykir ljóst að morðin voru fjögur. Í tveimur tilfellum voru börn myrt, en í hinum tveimur voru það karlmenn sem urðu fyrir barðinu á hermönnum. Hér verða málin rifjuð upp með hjálp gamalla frétta af málunum.

Rifrildi sem gekk of langt

Hermaður varð ungum manni að bana í Hafnarfirði. Nokkrum hermönnum hafði lent saman við hóp Íslendinga og enduðu þau mál á því að tveir hermannanna hófu að skjóta á Íslendingana með skammbyssum sínum. Eftir skothríðina lá einn í valnum og tveir slasaðir. Svo virðist sem lætin hafi byrjað þegar fórnarlambið gætti ekki að því hvar hann gekk.

Strandgata 4
Ljósmynd: fjardarfrettir.is skjáskot

Þetta gerðist þann 8. nóvember árið 1941. Alþýðublaðið sagði svo frá málinu á mánudeginum 10. nóvember:

Ameríkskir hermenn skjóta á hóp manna í Hafnarfirði

Þrír af mönnunum særðust og einn þeirra mjög hættulega.
Skýrsla bæiarfógetafulltrúans í Hafnarflrði.

SÍÐASTLIÐIÐ LAUGARDAGSKVÖLD kl 10.30 gjörðist sá atburður, að tveir hermenn úr Bandaríkjahernum á Íslandi skutu með skammbyssu á hóp íslenzkra manna fyrir utan húsið Strandgötu 4 í Hafnarfirði. Skutu þeir 5—6 skotum áður en þeir hlupu burt vestur Vesturgötu. Tveir menn urðu fyrir skotum: Þórður Sigurðsson, Austurgötu 27 sem fékk kúluskot í gegnum magan og liggur hann nú á St. Jósepsspítala þungt haldinn.

- Auglýsing -

Sigurður L. Eiríksson Krosseyrarveg 2 varð einnig fyrir skoti. Fór kúla upp um sólann á skó á vinstra fæti og marðist fóturinn og kom á hann smáskeina. Auk þess var hann marinn á lófa á vinstri hönd, að því er virðist eftir kúlu, sem hafði strokist með lófanum. Margir menn veittu hermönnunum eftirför vestur götuna. Þegar komið var vestur fyrir sölubúð
F. Hansens skaut annar hermaðurinn enn einu skoti á þá, sem eltu hann. Annar hermaðurinn var handsamaður uppi á Kirkjuvegi og afhentur lögreglunni. Hinn hermaðurinn hljóp vestur Kirkjuveginn og skaut þá enn einu skoti á Sigurgeir Gíslason, Austurgötu 21, sem veitti honum eftirför, og straukst kúlan við fremsta lið á þumalfingri á vinstri hendi, og kom skeina á fingurinn. Þessi hermaður náðist ekki.

Aðdragandi að þessum atburði er sá, að margt manna var saman komið inni á veitingastofu við Strandgötu 6 og þar á meðal 4 Bandaríkjahermenn, sem sátu þar við borð og voru að drekka öl. Á gólfinu stóð Þórður Sigurðssen með ölflösku í hendinni og var að tala við annan mann. Snéri Þórður baki að hermönnunum. Steig Þórður eitt eða tvö skref aftur á bak og mun þá hafa komið við einn af Bandaríkjahermönnunum; tók hann samstundis upp skammbyssu úr frakkavasa sínum og otaði henni að Þórði. Reiddi Þórður þá upp ölflöskuna sem hann hafði í hendinni, og skipaði hermanninum að láta byssuna niður, og stakk hann henni tafarlaust í frakkavasann aftur. Stuttu síðar stóðu hermennirnir upp og fóru út. Um leið og þeir fóru út, munu þeir hafa sagt Þórði að koma út með sér. Fór hann út á eftir þeim og flestir þeir, sem höfðu verið inni á veitingastofunni. Hermennimir gengu vestur Strandgötu og Þórður og hinir mennirnir í humátt á eftir þeim.

Þegar hermennirnir höfðu gengið lítinn spotta snéru tveir þeirra sér allt í einu við og hófu skothríð á mennina og skutu sennilega 4—5 skotum þarna. Þegar stothríðin hófst, var Þórður Sigurðsson í um tveggja faðma fjarlægð frá hermönnunum. Miðaði annar þeirra skammbyssunni á hann og skaut á hann. Þórður hljóp þegar á hermanninn og hafði að hrista skammbyssuna úr hendinni á honum. Um leið hlupu margir þeir, sem staddir voru
þama nálægt, af stað til þess að hjálpa Þórði, en áður en þeir komu til þeirra, hafði hermaðurinn losað sig og hlaupið burtu, vestur götuna. Þeir tveir hermenn sem voru með þeim, er að skothríðinni stóðu, hlupu einnig burtu, og náðust ekki. Af Þórði hefir enn ekki verið hægt að taka skýrslu sökum þess, að hann liggur þungt haidinn á St. Josephs spítala.
Þetta er samkvæmt skýrslu frá fulltrúa bæjarfógetans í Hafnarfirði. Samkvæmt öðrum heimildum hefir blaðið frétt um áverka Þórðar, að kúlan hafi farið inn í magann hægra megin og út vinstra megin.

- Auglýsing -

Þórður Sigurðsson er 22 ára að aldri.“

Þórður Sigurðsson
Ljósmynd: Alþýðublaðið skjáskot

Nokkrum dögum síðar lést Þórður af sárum sínum. Samkvæmt blaðinu Vesturland brutust út slagsmál milli hermannanna og Íslendinganna sem lauk með skotárás Bandaríkjamannanna. Sagt er frá málinu í Vesturlandi hér að neðan:

Íslenzkur maður skotinn til bana af amerískum hermanni

Síðastl. laugardag urðu skærur milli íslendinga og amerískra hermanna á veitingahúsi í Hafnarfirði. Bárust áflogin siðan út á götu, fyrir framan veitingahúsið. Er sagt, að amerísku hermennirnir hafi beðið þar lægri hlut. Tóku þeir þá til skotvopna. Var einn Íslendinganna, Þórður Sigurðsson, skotinn i kviðinn, en annar i ristina. Ameríska herlögreglu bar þá að þarna og flutti hermennina burt, en Þórður var tafarlaust fluttur i sjúkrahús og lá þar þungt haldinn, þar til að hann andaðist s. l. miðvikudagskvöld af völdum skotsársins. Yfirhershöfðingi ameríska setuliðsins og sendiherra Bandaríkjanna hafa tjáð forsætisráðherra afsökun sína út af þessum atburðum og lýst því yfir, að hinir amerísku hermenn hafi borið vopn í leyfisleysi og verði ríkt gengið eftir þvi framvegis að slíkt komi ekki fyrir.“

Hermennirnir hlutu fimm ára fangelsisdóm fyrir morðið.

Skotinn í hnakkann

Laugardaginn 14. mars árið 1942 gerðist sá hroðalegi atburður að amerískur hermaður skaut Gunnar Einarsson í hnakkann í gegnum bílrúðu í bifreið sem Gunnar var farþegi í. Gunnar lést af sárum sínum.

Gunnar Einarsson

Dagblaðið Verkamaðurinn skrifaði harðorða frétt, viku seinna, þann 21. mars, enda vakti málið óhug og reiði Íslendinga um allt land.

„Hroðalegur glæpur.

Amerískur hermaður myrðir íslenzkan mann.

S.l. laugardagskvöld gerðist sá atburður í Sogamýri við Reykjavík, að amerískur varðmaður skaut Gunnar Einarsson, starfsmann hjá Kol & Salt h.f., til bana, þar sem hann var á ferð, í bíl, með kunningja sínum, Magnúsi Einarssyni, framkvæmdastjóra Dósaverksmiðjunnar.
Fara hér á eftir helstu atriðin úr skýrslu, sem Magnús Einarsson hefir gefið sakadómara um þetta mál.

Gunnar Einarsson var staddur hjá Magnúsi, á laugardagskvöldið, en hann býr að Sogamýrarbletti 54. Kl. 10.15 ætlaði Magnús að aka Gunnari heim í bifreiðinni R 1183, en hún er með hægri handar stýri. Ók Magnús bifreiðinni, en Gunnar sat við hlið hans. Þeir ætluðu að koma við í Laufskálum á leiðinni, en þeir liggja við Engjaveg, en að honum liggur
tröðningur frá Suðurlandsbrautinni. Liggur troðningurinn rétt vestan við herbúðirnar „Hálogaland Camp“, en þar dvelja amerískir hermenn. Rétt fyrir norðan þann stað, þar
sem beygt er út af Suðurlandsbrautinni voru þeir stöðvaðir af amerískum varðmanni. Kom hann hægra megin að bílnum — þeim megin er Magnús sat — og inti þá eftir hvert förinni væri heitið. Svöruðu báðir samtímis, en Magnús segir, að hann skilji ekki vel ensku og tók hann því ekki vel eftir, hvað þeim Gunnari og varðmanninum fór á milli, en því lauk á þann veg, að varðmaðurinn sagði „all right“ og leyfði þeim að halda áfram. En þegar þeir höfðu ekið um fjórar bifreiðalengdir stöðvaði annar varðmaður þá og kom hann vinstra megin að bílnum — Gunnars megin — og talaði við hann. Sögðu þeir þrjár til fjórar setningar hvor, og fór varðmaðurinn síðan frá bílnum, svo ekki var hægt að skilja þetta öðru vísi, en að þeir mættu halda leiðar sinnar með samþykki hans. Ók Magnús þá af stað, en þegar hann hafði ekið um 3—4 bílalengdir kvað við skot. Áleit hann að það væri þeim óviðkomandi, en
stöðvaði þó bifreiðina til vonar og vara. Tók hann þá eftir því að framrúða bílsins var mölbrotin og í sama mund hné höfuð Gunnars á vinstri öxl hans. Leit hann þá framan í Gunnar og sá, að blóð streymdi úr vitum hans, og þegar hann þreifaði á höfði hans fann
hann skotsár á hnakkanum. Fór Magnús strax úr bílnum, en í því bili kom hópur Bandaríkjahermanna þarna að og tóku þeir Gunnar út úr bílnum. Virtist Magnúsi hann þá látinn, en hann mun ekki hafa andast fyr en um klukkan 3 um nóttina.

Þessi atburður hefir vakið hrylling og viðbjóð um allt land. Ameríski herinn hefir áður framið hér óhæfuverk, en nú er gengið feti framar og virtist mönnum þó áður nóg komið af óhappaverkum „verndara“ okkar. Enginn íslendingur fær skilið, að ameríska hernum sé nauðsynlegt að myrða íslenska menn til þess að vernda öryggi ameríska hersins. Vér fáum ekki séð, að öryggi ameríska hersins sé stefnt í hættu, þó látið sé vera að beita skotvopnum gegn vopnlausum Islendingum. Reynsla bretska setuliðsins hér á landi bendir ekki til þess að nauðsynlegt sé að beita glæpamannaaðferðum í umgengni við þá menn, sem eru undir „vernd“ ensku og amerísku setuliðanna. Það væri betur, að ameríski herinn sýndi meiri dugnað, í baráttunni gegn Japönum, en að skjóta vopnlausa íslendinga aftan
frá. Slíkur atburður, sem þessi má ekki endurtaka sig. íslenska þjóðin krefst þess, að gerðar verði tafarlaust ráðstafanir til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki. Ríkisstjórnin verður að halda fast og skörulega á rétti íslendinga í þessu máli, og ekki láta þann málflutning niður falla fyr en trygt er að amerísku hermennirnir komi fram í viðskiftum sínum við íslendinga,
sem fulltrúar siðmenningarþjóðar en ekki sem fyrirlitlegir glæpamenn. Á þann eina hátt verður best borgið öryggi íslendinga og öryggi og sæmd ameríska hersins.“

Hermaðurinn var sýknaður af herrétti en ökumaður bifreiðarinnar hafði ekki hlýtt skipun hermannsins um að stöðva.

Hinn kolsvarti hvítasunnudagur

Það er hvítasunnudagur. Tveir drengir leika sér við varðstöð Bandaríkjahers við Hallveigarstíg og annar þeirra fer upp í bíl á vegum hersins og startar bílnum. Hermaður sem hafði haft afskipti af þeim rétt áður, rekur drenginn út úr bílnum og drengurinn hlýðir. Hermaðurinn gengur upp að drengnum og leggur byssuhlaup við gagnauga hans. Og tekur í gikkinn. Lífvana drengurinn dettur í jörðina. Þessi hvítasunnudagur er orðinn kolsvartur. Þetta var árið 1942.

Jón H. Benediktsson

Í blaðinu Íslendingur er atvikinu svo lýst:

„Á hvítasunnudag kl. 11 árdegis gerðist sá óheyrilegi atburður í Reykjavík, að amerískur hermaður skaut 12 ára dreng til bana, er var að leik með öðrum dreng nálægt
varðstöðvum hermannsins. Þetta furðulega glæpaverk gerði hvítasunnuhátíðina að sorgardegi í Reykjavík og annarsstaðar, er fregnin spurðist. Drengurinn hét Jón Hinrik Benediktsson og átti heima aö Ingólfsstræti 21 í Reykjavík. Hermaðurinn og yfirmenn hans
voru óðar handteknir, en herstjórn og sendiherra Bandaríkjanna lýstu yfir harmi sínum yfir þessum atburði. Málið er enn ekki upplýst að fullu, en frekari upplýsingar hljóta að varða gefnar mjög bráðlega.“

Í Morgunblaðinu var fjallað ítarlega um málið en meðal þess sem fram kom þar voru frásagnir nokkurra vitna.

Ein frásögnin kemur frá leikbróður Jóns, Guðmundi.

„Fyrir hádegi í dag hitti jeg leikbróðir minn, Jón Hinrik Benediktsson. Hann ætlaði að
kaupa sjer filmu í myndavjel og fór jeg með honum í Lyfjabúðirnar Ingólfs Apótek,
Reykjavíkur Apótek og Lauga-,vegs i Apótek, én hvergi var filmu að fá. Þegar við komum
úr Laugavegs Apóteki gengum við suður Bergstaðastræti óg niður Hallveigarstíg, framhjá
herstöðinni, sem er þar norðanmegin götunnar. Við stoppuðum móts við hermann, sem stóð á verði á Hallveigarstígnum, móts við herbúðirnar. Svo kom hermaður og festi upp auglýsingu í varðmannsskýlið. Við Jón fórum að skýlinu og lásum auglýsinguna. Svo gengum við niður með girðingunni, niður að Ingólfsstræti. Jeg var með skammbyssu, tálgaða úr trje. Jón kippti af mjer byssunni og henti henni yfir girðinguna inn á milli herbúðanna. Jón stökk svo aftur upp á móts við varðmanninn og jeg sagði honum
að ná í byssuna. Um sama leyti tók hermaður byssuna og kastaði henni út fyrir girðinguna og greip hana þá lítill strákur, sem var þar fyrir utan. Jón hljóp inn um hliðið á girðingunni, framhjá varðmanninum. Varðmaðurinn kallaði þá til hans og, að mjer skildist, skipaði honum að koma út og hlýddi Jón því strax. Jeg var með dolk í slíðri, sem var fest í strenginn á buxunum mínum og tók jeg nú dolkinn og fór að kasta honum í ljósastaur, sem stendur skamt frá stað þeim, sem varðmaðurinn stóð á og var jeg að reyna að láta oddinn stingast í staurinn. Jeg lánaði svo Jóni dolkinn og hann gerði það sama og jeg, kastaði honum í staurinn og reyndi að láta oddinn stingast í trjeð. Þar næst fór Jón upp í lítinn bíl, sem stóð við girðinguna, rjett hjá varðmanninum. Jón fiktaði við stýrið á bifreiðinni, en gerði ekki annað. Varðmaðurinn kom þá út úr skýlinu og kallaði til Jóns og fór Jón þá niður úr bílnum.

Þá vildi jeg fara heim, en Jón sagði að við skyldum bíða til kl. 12, því þá mundu hermennirnir gefa okkur epli, það væri hátíðisdagur hjá þeim í dag. Jeg var til með að bíða. Við stóðum svo þarna á götunni og töluðum eitthvað saman. Svo fór Jón aftur upp í sama bílinn og áður og fór þá að ,starta’ bílnum. Varðmaðurinn kom þá aftur út úr byrginu, gekk að bílnum og skipaði honum út úr bílnum, að því er mjer skildist.Jón hlýddi því strax og fór út úr bílnum. Jón fór svo upp að girðingunni bak við bílinn og jeg kom þangað til hans. Varðmaðurinn var með stóra byssu, jeg heyrði og sá að hann spenti byssuna upp. Þá var hann götumegin við bílinn. Svo gekk hann að Jóni og beindi byssuhlaupinu að höfðinu á honum, svo reið skotið af, Jón fjell í götuna og jeg sá að blóð rann úr vitum hans. Varðmaðurinn gekk svo í burtu án þess að hreyfa neitt við Jóni, en jeg hljóp í burtu
niður á Ingólfsstræti og svo skemstu leið heim til mín.“

Gunnlaugur Magnússon skrifstofumaður var eitt af vitnunum.

„Jeg bý á fyrstu hæð hússins Hallveigarstíg 2, og er þar herbergi mitt austan megin við for-
stofuinnganginn og snýr herbergisglugginn út að Hallveigarstígnum. 1 morgun, þegar jeg
var að klæða mig, varð mjer litið út um herbergisgluggann og sá þá hermenn standa við endann á bifreið, sem stóð rjett fyrir vestan varðmannsskýlið. Hermaðurinn beindi byssu að
dreng, sem stóð þar fyrir framan hann upp við girðinguna. Á næsta augnabliki heyrði jeg
skothvell og drengurinn datt niður í götuna og lenti með höfuðið ofan í litlum vatnspolli, sem var þar á götunni á milli girðingarinnar og bílsins. Hermaðurinn gekk svo í burtu og inn í herbúðirnar, en nokkrir hermenn komu út í girðingarhliðið og einn hermaður gekk að
drengnum með teppi og breiddi yfir hann. Alveg rjett á eftir komu tveir hermenn með börur og báru drenginn inn í herbúðirnar. Jeg heyrði ekki nema einn skothvell.“

Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á stríðsárunum hét Lincoln MacVeagh en hann sendi yfirlýsingu á alla helstu fjölmiðla landsins þar sem hann harmaði atburðinn.

„Það hefir fengið mjög á alla sanna Bandaríkjamenn við frjettirnar um hinn sorglega atburð. Við erum hjer á íslandi sem vinir íslands til að gera gott en ekki ilt og við óskum að hjálpa landinu á allan mögulegan hátt. Við lítum á það sem heiður fyrir okkur að dvelja hjer, og okkur er það sjerstakur harmur að við skulum vera valdir að sorg hjer á landi. Verið er að rannsaka þetta mál, en það er hægt að segja það strax, að það er sjerstaklega hræðilegt í augum Bandaríkjamanna sem elska börn, að drengurinn skuli hafa verið skotinn til bana. Hin harmi lostna fjölskylda og allir sorgmæddir Islendingar mega vera vissir um, að óteljandi Bandaríkjamenn syrgja með þeim af heilum hug.“

Málið vakti skiljanlega mikinn óhug á Íslandi enda ekki á hverjum degi sem morð var framið á landinu, hvað þá á barni. Hermaðurinn sagði skotið hafa verið slysaskot, en hann fór fyrir herrétt í Bandaríkjunum. Alþýðublaðið sagði svo frá úrskurðinum í málinu:

„Mál litla drengsins, Jóns Benediktssonar, sem skotinn var til bana af ameríkskum hermanni síðastliðinn hvítasunnudagsmorgun: Hermaðurinn reyndist sjúkur af brjálsemi. Var hann
sendur í geðveikrahæli í Bandaríkjunum.“

Morðið á Steinunni

Þökk sé Gísla Jökli Gíslasyni lögreglumanns, hefur nú komið í ljós með nokkuð óyggjandi hætti að hin þrettán ára Steinunn Sigurðardóttir lést ekki úr heilahimnubólgu 19. apríl 1945, líkt og skráð er í dánarvottorði hennar, heldur vegna höfuðhöggs sem hún hlaut í árás hermanns, þremur mánuðum áður.

Steinunn Sigurðardóttir
Ljósmynd: Andvari

Gísli Jökull var í viðtali hjá Rúv á dögunum þar sem hann sagðist hafa birt færslu á Facebook-hópnum Gamlar ljósmyndir, þar sem hann fjallar um þau morð sem hermenn frömdu hér á landi á stríðsárunum. Þá hafi Herdís Dögg Sigurðardóttir skrifað athugasemd og bent honum á að hann hefði gleymt frænku hennar, Steinunni Sigurðardóttur eða Lillu líkt og vinir og ættingjar kölluðu hana jafnan. Og þannig fór boltinn að rúlla. Ekki voru til miklar heimildir um árásina en eina frétt fann Gísli, minningargrein og gamla dagbókarfærslu lögreglunnar. Sagði hann í viðtali við RÚV að allar líkur væru á að Steinunn hefði hlotið höfuðhögg í árásinni, sem síðan hafi dregið hana til dauða, þremur mánuðum síðar. „Hún hefur án efa fengið höfuðhögg, því að þær lýsingar eru til hjá fjölskyldunni að hún var eiginlega ófær um nokkuð eftir þetta,“ sagði Gísli. „Hún var alltaf rúmliggjandi, með mikinn höfuðverk, og svo deyr hún nokkrum mánuðum seinna.“ Bætti hann við: „Heilahimnubólga og alvarlegur höfuðáverki eru með mjög lík einkenni.“

Hér má sjá frétt Alþýðublaðsins um árásina:

„Ný árás:Hermaður ræðst á 13 ára telpu á Laugarnessvegi.

Það lítur svo út, sem óhæfuverk hermannsins sem réðst á stúlkuna á Ásvallagötunni á sunnudagskvöldið hafi smitað út frá sér, því í fyrrakvöld var önnur árás gerð af hermanni, á 13 ára telpu inn á Laugarnesvegi, og særðist stúlkan á hníf, sem hermaðurinn otaði að henni.

Klukkan um hálfellefu á mánudagskvöldið var lögreglan kvödd inn á Laugarnesveg og hitti hún þar telpuna, sem skýrði frá því, að hermaður hefði ráðist á sig og otað að sér hníf, er hún hefði ekkí viljað fylgjast með honum. Kvaðst hún hafa verið á gangi suður Laugarnesveginn og hermaður veitt sér eftirför, og ávarpað sig, en hún gaf því engan gaum — og hélt áfram. Veit hún þá ekki fyrri til, en hermaðurinn ræðst á hana og ætlar að draga hana út fyrir veginn, en hún streyttist á móti. Tók þá hermaðurinn upp hníf og otar að henni, en hún ber að sér lagið, en hlýtur við það skurð á hægri hendi. Ennfremur meiddist telpan á hné í viðureigninni.

Rétt í þessu ók bifreið um. veginn og staðnæmdist rétt hjá þeim. Við það brast hetjuna móðinn og tók til fóta sinna og flýði í burt, en telpan fór inn í næsta hús, og var þar gert að sárum hennar, og fór hún því næst heim til sín.“

ÚR dagbók lögreglunnar um árásina.
Skjáskot af RÚV.

Kennari Steinunnar skrifaði hjartnæma minningargrein um hana í Morgunblaðinu sem má lesa hér að neðan:

„ÞAÐ ER dimmur vetrardagur. Litlu skólabörnin, 7 ára gömul, lúta yfir verkefnin sín: fyrstu söguna — fyrstu heilu bókina, sem þau eiga að skila. Hæglát og prúð stúlka stendur fyrst á fætur, gengur til kennarans og rjettir fram bókina sína. Jú, þarna er alt eins og um var beðið: Sagan fyllir út bókina, 4 blaðsíður, 2 línur á hverri, hreinlega skrifað. Og með gleðiblik í augum, svo hógvært, að það sjest aðeins ef vel er að gætt, segir litla stúlkan: „Jeg truflaðist aldrei“. — Þetta var Steinunn Sigurðardóttir, sem foreldrar og nánustu vinir kölluðu Lillu. Sex ár hafa liðið. Lilla stundaði námið í sama hópnum — með ljúflyndi og prúðmensku, sem aldrei truflaðist. Jeg minnist þess ekki, að bekkjarsystkini hennar ættu nokkurntíma við hana misklíðarefni. Kurteis og mild var hún öllum hugþekk. Á fyrstu sólskinsstund þessa sumars, er öll íslensk börn halda sína persónulegu fagnaðarhátíð, barst okkur fregnin um andlát Lillu. Á fyrsta fullnaðarprófs degi sínum fengu bekkjarsystkini hennar öll að vita, að Lilla hafði þegar •— fyrst okkar allra — lokið þyngsta fullnaðarprófi lífsins. Lokið því með sinni hlýju, traustu hógværð — án þess að truflast. Og minningarnar fögru og hlýju í hjörtum foreldra hennar, systkina og allra vina munu heldur ekki truflast. — Við vonum öll að fá síðar að fagna henni í þeim heimi, þar sem viðkvæmni og blíða er meira metin en oft vill verða í þeim heimi, sem við nú lifum í.
J.E.“

Þetta samansafn Baksýnisspegla birtist í fimmta tölublaði Mannlífs sem kom út í apríl 2023 og má lesa hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -