Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Þegar Jón Páll varð sterkastur í fyrsta sinn: „Ég er orðinn þreyttur á því að vera í öðru sæti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Varla lýgur útvarpið,“ sagði Jón Páll þegar fjölmiðlar höfðu samband við hann og spurðu hvort hann hefði verið krýndur sterkasti maður heims daginn áður. Það ríkti leynd yfir úrslitunum og keppendur höfðu skrifað undir þagnarsamning. Það var vegna þess að T.W.I sjónvarpssteypan átti sjónvarpsréttinn á keppninni og ætlaði sér að selja hann án þess að úrslit væru kunn.

Jón Páll Sigmarsson, ferfaldur heimsmeistari í kaftlyftingum, varð sterkasti maður heims í fyrsta sinn í byrjun ársins 1985, þegar hann lyfti samanlagt 525,7 kílóum. Í þau skipti sem hann sigraði ekki keppnina lenti hann aldrei neðar en í þriðja sæti.

„Íslenska útvarpið náði upplýsingum í gær frá keppninni eftir krókaleiðum að því er það sagði og líklegt verður að telja að þær upplýsingar séu réttar. Samkvæmt því sigraði Jón Páll, og fékk titilinn „sterkasti maður heims,“ fékk 57 stig. Hollendingurinn Waulters varð annar með 51,5 stig og Bretinn Geoff Capes þriðji með 49 stig,“ sagði í frétt NT um málið. Keppnin var haldin í Mora í Svíþjóð.

 

Þagnareiður og Dala-hestur

Meira úr grein NT:

„Jón Páll sagði í samtali við NT í gær að hann væri búinn að skrifa undir „þagnarsamning“. Hann sagði að keppnin hefði gengið mjög nærri sér, hefði tekið tíma frá morgni til kvölds og hefði verið mjög erfið. Fyrri daginn var keppt í því að draga vöruflutningabíl, kasta trjábol, halda á „dala- hesti“ útréttum örmum í sem lengstan tíma og að lyfta stórum grjóthnullungum. Eftir fyrri daginn hafði Jón Páll forystu í keppninni, en Bretinn Capes var annar.

- Auglýsing -

Í gær var svo keppt í því að hlaupa 80 metra með sleða hlaðinn 400 kg hlassi eftir ís, hlaða vörubíl með átta 80 kg ísklumpum, lyfta trjábolum og var sá þyngsti 240 kg, og síðast var farið í sjómann. „Ég má ekkert segja hvernig þetta gekk,“ sagði Jón Páll.
En líkur benda allar til að Jón Páll Sigmarsson beri titilinn „sterkasti maður heims“.“

Jón Páll með Dala-hestinn. Mynd/skjáskot NT.

Ætlaði að snúa sér að vaxtarrækt

Tæpu ári fyrr, þann 8. mars árið 1984, hafði birst frétt í DV þar sem rætt var við Jón Pál í heilsuræktinni Orkulind. Þá vildi hann meina að hann ætlaði sér að hætta í kraftlyftingum og snúa sér alfarið að vaxtarrækt. Sú átti þó ekki eftir að verða raunin.

„Það muna eflaust margir eftir orðatiltæki, sem gekk hér fyrir nokkrum árum, sem hljóðaði þannig: „Ekkert mál fyrir Jón Pál”… Þessi setning varð fleyg eftir að kraftajötuninn Jón Páll Sigmarsson sagði þetta í íþróttaþætti í sjónvarpinu. Þá stóð hann þar með mörg hundruð kíló á lóðunum í kraft- lyftingamóti og brosti framan í áhorfendur sem göptu af undrun.

- Auglýsing -

Lítið hefur heyrst af Jóni Páli að undanförnu, en við rákumst þó á hann á dögunum í heilsuræktinni Orkulind í Brautarholti. Þar þandi hann vöðvana í allar átti á milli þess sem hann handlék lóðin með mörgum kílóum á eins og ekkert væri.

Jón Páll sagði okkur að hann væri að mestu hættur að æfa og keppa í kraftlyftingum. Nú væri það vaxtarræktin sem hann legði alla áherslu á.

Hann hefði alltaf haft áhuga á henni sem íþrótt og hann hefði tekið ákvörðun fyrir nokkru að keppa á Íslandsmótinu í vaxtarrækt sem verður 25. mars nk.

Hann sagðist nú æfa a.m.k. þrjá tíma á dag og það sjö sinnum í viku. Nú væri hann að brenna af sér fituna – borðaði bara fisk og prótínríka fæðu. Núna væri hann um 110 kg að þyngd en hefði mest verið 130 kg.

Jón Páll sagðist vera að spila upp á það að taka þátt í vaxtarræktarmótum erlendis í framtíðinni svo og aflraunamótum víða um heim. Hann tók þátt í einu slíku móti á Nýja Sjálandi í vetur og varð þar í öðru sæti. Hann hefur nú fengið boð um að taka þátt í hálandaleikunum í Skotlandi í júní í sumar og einnig í keppni um titilinn „sterkasti maður Norðurlandanna” sem verður í sumar.

En nú eru það sem sé vöðvarnir og utanáliggjandi æðar sem allt snýst um hjá þessum kraftakarli okkar, og af vöðvunum hefur hann þegar nóg eins og sjá má…“

Þetta var áður en Jón Páll varð heimsmeistari í kraftlyftingum í Mora í Svíþjóð og eins og þjóð veit hætti hann sannarlega ekki í kraftlyftingum á þessum tímapunkti á ferli sínum.

Mynd/skjáskot DV.

Tognaði í fyrstu keppnisgrein dagsins

„Ég vil ekkert láta hafa eftir mér varðandi keppnina annað en það að ég er feginn að þessu er lokið, og að ég er orðinn örþreyttur. Ég tók á öllu sem ég átti til,“ sagði Jón Páll í samtali við Morgunblaðið þann 25. janúar árið 1985, daginn eftir að hann vann titilinn.

„Þannig er mál með vexti að ég er bundinn þagnareið varðandi síðari dag keppninnar. Við þurfum að undirrita samning við þær fjórar sjónvarpsstöðvar sem tóku keppnina upp og hétum því að segja ekkert frá úrslitum. Keppnin verður sýnd í sjónvarpi erlendis og þar munu úrslitin koma í ljós,“ sagði Jón Páll í viðtalinu.

Ennfremur sagði í Morgunblaðinu:

„Það var því úr vöndu að ráða, en eftir krókaleiðum tókst Morgunblaðinu að fá mjög áreiðanlegar heimildir varðandi keppnina. Það fékkst staðfest að Jón Páll hefði sigrað eftir harða keppni við Hollendinginn Voldes og Bretann Capes. Jón Páll fékk 57 stig af 60 mögulegum í keppninni. Voldes varð annar og Capes þriðji. Allir eru þessir menn þekktir að því að vera heljarmenni að burðum.

Fyrsta keppnisgreinin í gær var sleðadráttur. Keppendur máttu ýta eða draga 400 kg sleða, og áttu þeir að fara með hann 80 metra vegalengd. Jón fór vel af stað með sleðann en varð fyrir því óhappi að togna í baki og það háði honum. Næst var keppt í bekkpressu. Keppendur lyftu stórum trjástofnum og þurftu um leið að gæta þess að halda fullu jafnvægi með tréð. Þetta reyndist þeim mjög erfitt. Jón hafnaði í þriðja sæti og nú fann hann fyrir verkjum í brjóstvöðvum.

Þá var komið að þvi að hlaða 80 kg þungum ísmolum á vörubíl. Þar tókst Jóni allvel upp þrátt fyrir meiðsl sín og náði öðru sæti, en keppnin í þessari grein var gífurlega hröð og spennandi. Nú voru þeir Valdes og Capes farnir að draga á Jón og ekki munaði miklu á stigum.“

Mynd/skjáskot Morgunblaðið.

Sagðist slakur í sjómanni

„Síðast var keppt í sjómanni. Jón Páll hafði lýst því yfir hér heima áður en hann fór út að hann væri slakur í sjómanni, hefði einhvern veginn ekki lag á að beita höndunum rétt. En engu að síður var það Jón Páll sem kom, sá og sigraði í síðustu keppninni. Fyrsti mótherji hans var Bandaríkjamaður, orðlagður kappi í sjómanni. Eftir snarpa en harða viðureign lagði Jón hann. Þá mætti Jón Capes frá Bretlandi, lengi vel mátti ekki á milli sjá hvor myndi hafa það, en Jón reyndist harðari og sigraði eftir mikil átök. Þar með hafði Jón tryggt sér heimsmeistaratitilinn og þar sem hann var meiddur og fyrsta sætið og heimsmeistaratitill í höfn hætti Jón keppni.“

Jón hafði sagt í spjalli Morgunblaðið þegar mótið var nýhafið: „Ég ætla að taka þessa karla, ég er orðinn þreyttur á því að vera í öðru sæti.“

„Hann hefur svo sannarlega staðið við þessi orð sín. Þá vildi Jón koma á framfæri þakklæti til allra þeirra fjölmörgu sem studdu hann til fararinnar,“ sagði í grein Morgunblaðsins.

Mynd/skjáskot DV.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -