Elísa Butt Davíðsdóttir ólst upp á Akranesi en dreymdi alltaf um að verða bóndi. Lífið leiddi hana ekki strax í sveitina en 18 ára byrjaði hún sem nektardansmær á skemmtistaðnum Vegas.
Þegar Elísa var 15 ára ákváðu foreldrar hennar að flytja til Kanada, en það hugnaðist henni ekki. Hún flutti því að heiman. „Það hefur alltaf verið mikil ævintýraþrá í mér,“ segir Elísa. Hún kynntist strák og flutti með honum austur á Reyðarfjörð þar sem hún kláraði grunnskólann. Eftir það fluttu þau á Suðurnesin en þar lauk sambandinu og Elísa flutti til borgarinnar, 18 ára að aldri.
„Ég hætti með honum og flutti til Reykjavíkur. Þar byrjaði ég að vinna á Vegas, sem barþjónn.“ Elísa segir að hún hafi alltaf haft ákveðna ævintýraþrá í sér og laðast að jaðarhópum, hangið mikið með rokkurum og fólki sem þótti öðruvísi.
„Ég fylgdist alltaf með af hliðarlínunni, var ekkert að drekka á þessum árum eða í dópi, en fannst spennandi að vera innan um fólk sem var öðruvísi og með annars konar orku. Og þetta fann ég þegar ég byrjaði að vinna á barnum á nektardansstaðnum Vegas.“
„Hér er engin kona neydd í dans“
„Fann mitt element í nektardansinum“
Aðspurð hvernig það æxlaðist að Elísa fór af barnum og á súluna segist hún hafa flutt inn til kvennanna sem voru að dansa á Vegas.
„Ég hafði alltaf verið mjög feimin og inni í mér, með lítið sjálfsálit og alltaf í felum. En svo var það eitt kvöldið að ég fékk mér eitt rauðvínsglas eftir lokun. Þá ákvað ég að prófa að hoppa upp á svið og dansa, því ég hafði alltaf haft gaman af því. Það var ekki aftur snúið. Ég fann mitt element, tónlistin, orkan og náttúrlega athyglin líka, jákvæð athygli. Þarna fann ég minn hóp og svona, fann að ég tilheyrði.“
Nú hafa strippstaðir það orð á sér að þar þrífist mansal, vændi og almenn ill meðferð á konum, en það er ekki reynsla Elísu.
„Það var alltaf farið vel með okkur stelpurnar, við aldrei neyddar í neitt og okkur alltaf sýnd virðing. Þarna var fjöldi flottra kvenna sem sumar áttu fyrirtæki til dæmis, aldrei nein neyð í gangi. Þetta voru til dæmis stelpur frá Englandi sem ráku fyrirtæki og verslanir úti og nutu bara lífsins. Og það gerðum við líka, íslensku stelpurnar.“
Elísa segir að þær hafi stundum farið að dansa í Noregi og Englandi og að það hafi verið töluvert öðruvísi en hér á Íslandi.
„Það var meiri klassi úti, þar vissu karlarnir sem komu á staðina að það væri bara almenn kurteisi að bjóða í glas og slíkt, en heima á Íslandi var algengara að karlmenn byðu okkur heim með sér, en í raun var meiri séns fyrir þá að pikka stelpur upp á venjulegum börum en að fara með okkur dönsurunum heim.“
Elísa rifjar upp heimsókn hóps kvenna sem höfðu áhyggjur af dönsurunum.
„Einhvern tímann var svona rauðsokkuhópur að mótmæla fyrir utan Goldfinger og var að stöðva allar konur sem voru að fara þar inn til að dansa. Þær buðu dönsurunum aðstoð við að losna þaðan. Þær töluðu ensku og héldu að við værum allar útlenskar en við svöruðum bara á íslensku og sögðum þeim að hér væri engin kona neydd í dans eða nokkuð.“ Elísa heldur áfram: „Þetta voru allt sterkar stelpur sem ég var að dansa með, sumar hverjar í námi og, eins og ég sagði, með fyrirtæki og fleira.“
Á þessum árum var Elísa dugleg að koma sér á framfæri, hún birtist á síðum tímaritsins Bleikt og blátt, var í Séð og heyrt og keppti í nektardanskeppni í Þórskaffi.
„Ég fór „all in“ á þessum tíma, en ég passaði alveg upp á mig og stundaði námið mitt,“ segir Elísa, sem er menntaður sjúkraliði og einkaþjálfari.
„Dansinn var valdeflandi, ég fann sjálfa mig og þetta var alltaf mín tjáning. Ég tók aldrei þátt í neinu bulli, ég var ekkert þar,“ segir Elísa. „Þetta snerist ekki alltaf um peninginn heldur líka að vera með sínu fólki og tilheyra hópi.“
Erfitt að passa í normið
Elísa var í dansinum í 12 ár og á þeim tíma eignaðist hún barn með manni sem hún var í sambandi með í um sjö ár. Hún sá fljótt að hún gæti ekki verið í því sambandi lengur. Síðan kynntist hún dyraverði á staðnum þar sem hún dansaði og felldu þau hugi saman. Fljótlega kom annað barn og svo varð hún ólétt aðeins hálfu ári eftir fæðingu annars barns síns.
Elísa segir að samfélagið bæli fólk niður að miklu leyti. „Þú mátt ekki vera svona og þú mátt ekki vera of mikið, ekki vera að dansa og ekki vera svona sexí. Nú ertu orðin mamma sem á trúan og traustan mann og átt bara að haga þér. Þú setur sjálfan þig algjörlega til hliðar þegar þú ert orðinn foreldri. Maður þorir ekki að fara út í kjól, því þá gæti maður verið of sexí.“
Elísa segist alltaf hafa haft mikinn metnað fyrir foreldrahlutverkinu og hjónabandinu, en í leiðinni týndi hún svolítið sjálfri sér.
„Svo var dansstöðunum lokað og þá fann maður líka meira fyrir samfélagslegu pressunni. Maður átti ekki að vera öðruvísi og var alltaf að reyna að passa inn í eitthvert norm. Ég var alltaf að reyna að vera hin fullkomna mamma og hinn fullkomni sjúkraliði, að gera aldrei mistök.“
„Ekki bara einhver drusla eða hóra!“
„Það skipti mig alltaf miklu máli þegar ég var að dansa að ég væri líka virðingarverð manneskja. Það var oft erfitt að vera með þennan stripparastimpil á sér. Mig langaði oft að standa bara upp og segja: já, ég er strippari, en ég er miklu merkilegri en það, ég er ekki bara einhver drusla eða hóra!“ Þegar hér er komið sögu fer Elísa að tala um nýjasta æði ungra Íslendinga; Only Fans. „Það má alveg setja þetta í samhengi við það sem er að gerast núna, Only Fans. Mér finnst það ótrúlega flott að konur leyfi sér að vera eins og þær eru.“
Aðspurð hvort hún gæti hugsað sér að vera með Only Fans-síðu segist Elísa ekki geta hugsað sér það, enda hafi hennar tjáningarmáti alltaf verið í dansinum en ekki hún ein fyrir framan myndatökuvél heima hjá sér. „En mér finnst frábært að einhverjir vilji vera þar. En ég held að þetta sé að fara svolítið öfugt ofan í landann, því þetta er svo nálægt okkur. Þetta geta verið nágranni þinn, frænka, frændi, þú skilur, þetta er miklu opnara en til dæmis lokaður nektardansstaður. Þarna sjáum við aftur sömu viðhorfin; þú átt ekki að vera svona, ekki vera svona sexí og átt ekki að þurfa að tala um kynlíf eða tjá þig um þessa hluti,“ segir Elísa, og þetta er henni greinilega hjartans mál. „Þess vegna finnst mér ótrúlega flott að sjá konur í þessu valdeflandi hlutverki, að standa upp og bara: hæ, ég ætla að vera svona, ég ætla að vera svona sexí og ég ætla að sýna öllum heiminum hvað ég er æðisleg.“
Þurfti að komast í tengingu við náttúruna
Þau hjónin sáu bóndabæ austur á Héraði auglýstan til sölu og ákváðu að slá til og keyptu Hrafnabjörg og Litlabjarg. Þar hafa þau komið sér upp myndarlegu búi og eru með geitur, svín, nokkrar kindur og nautaeldi. Að auki reka þau gistiheimili og verslunina Litlabjarg þar sem Elísa selur prjónavörur sem hún prjónar sjálf. Að hennar sögn hefur hún selt peysur um allan heim og því sé nóg að gera á bænum. „Þetta er það sem ég fann út þegar ég var að vinna í sjálfri mér, að ég þurfti að komast í tengingu við náttúruna; vera í náttúrunni og í friði. En það gekk eiginlega of langt hjá mér, ég lokaði mig of mikið af,“ segir Elísa. „Þarna var ég komin í þennan kassa, kominn með börnin, flutt í sveitina og þetta var bara fínt, æðislegt að vera í náttúrunni og í kyrrðinni. Samt var alltaf spurningin; er þetta ég? Er ég bara mamman sem býr úti í sveit og situr í sófanum og prjónar allan daginn?“
Lífið er ótrúlegt ferðalag
Elísa segir að lífið sé ótrúlegt ferðalag.
„Ég hef svolítið leyft lífinu að leiða mig áfram,“ segir Elísa en segir aðspurð að hún telji að lífið eigi ekki eftir að leiða hana á enn einn nýjan stað. „Nei, ég held að ég sé kominn á þann stað sem ég vil vera á. Núna er ég að hefja ferðalag, að finna orkuna aftur og það er að þakka þessari vitundarvakningu sem er í gangi núna. Ég er orðin mjög þreytt á að fela mig. Ég er svona manneskja sem á fjölda vina. Ég elska að vera innan um fólk og heimili mitt hefur alltaf verið opið heimili og það er kannski ekki normið. Það hefur verið sérlega áhugavert að fylgjast með smáborgarahættinum hjá fólki, því þú ert svona öðruvísi og ferð á móti straumnum. Ég er mamman með fjólubláa hárið og fullt hús af fólki og þá byrja auðvitað kjaftasögurnar. Það eru alveg átök að spyrna gegn þessu.“ Nú segist Elísa vera að vinna í því að kynnast nýju fólki, fólki sem er á sömu bylgjulengd og hún. „Fólki sem skilur mann og hjálpar manni og eflir í að vera eins og maður er. Þú veist, af hverju má Sigga Dögg kynlífsfræðingur ekki birta mynd af sér á rassinum og af hverju er orkan okkar svona mikið tabú?“ spyr Elísa og er nokkuð mikið niðri fyrir. „Ég held að það sé svolítið erfitt fyrir margar konur að fá að vera eins og þær eru, vera þær sjálfar, þær þurfa að berjast gegn viðhorfi vina, fjölskyldu og samfélagsins.“
Elísa var í áhugaverðu viðtali við Mannlíf í fyrra og það má lesa hér.