Í helgarblaði Mannlífs var rætt við mann sem er fjölelskandi. Maðurinn, sem við köllum Lárus, er í opnu hjónabandi með konu sinni – pólýhjónabandi.
Það þýðir að hjónin hitta annað fólk og eiga kærasta og kærustur, utan við hjónabandið.
Viðtalið í heild má nálgast í helgarblaði Mannlífs.
Fyrirkomulagið gerði hjónin nánari
Lárus segir að það sé gaman að finna spennuna sem fylgi nýjabruminu þegar byrjað er að hitta nýtt fólk eftir svo langan tíma í sambandi með sömu manneskjunni.
Hann segir að eðlilega eigi hversdagurinn svolítið til að taka yfir í langtímasamböndum með tilheyrandi verkefnum og þá eigi spennan það til að glatast. Það sé hins vegar gaman að finna fyrir þessu nýjabrumi sem óhjákvæmilega fylgir fjölástum – og sjá maka sinn njóta sín og finna fyrir spennu á sama hátt.
Hann segir fyrirkomulagið hafa gert þau hjónin enn nánari og skapað meiri spennu og fjölbreytileika í þeirra eigin sambandi og samlífi.
Algengir fordómar gagnvart þessu sambandsfyrirkomulagi eru á þann veg að ef fólk í hjónabandi vilji prófa það, hljóti það að þýða að hjónabandið sé dauðadæmt og aðeins tímaspursmál hvenær það endi. Lárus skilur að sumir gætu séð þetta á þann veg, en að það sé alls ekki upplifun hans og eiginkonu hans.
„Ég held að þetta hafi bara bætt hjónabandið ef eitthvað er. Frekar en hitt. Við vorum samt mjög fín áður. En kannski þegar þú ert að fara á stefnumót, eða bara að fara út að hitta einhvern hóp af fólki, og hefur gaman, þá kemurðu í góðu skapi til baka.“
Lárus segir einnig að áhrifin á kynlíf þeirra hjóna hafi verið góð.
„Þegar þú prófar eitthvað með annarri manneskju sem þú hefur ekki gert áður og kemur svo til baka, þá kannski tekurðu það með þér, meðvitað eða ómeðvitað, inn í svefnherbergið heima hjá þér. Þegar þú ert búinn að vera með sama aðila í kannski fimmtán ár, þá verður stundum erfitt að koma með eitthvað nýtt. Það er bara mannlegt. Það er gaman að geta víkkað sjóndeildarhringinn.“
Helgarblaðinu getur þú flett hér fyrir neðan: