Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Þekkir fíknisjúkdóminn af eigin raun: „Öll fjölskyldan er í því að passa að drengurinn deyi ekki“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigmar Guðmundsson Alþingismaður segir íslensk stjórnvöld vanmeta stórlega fíknisjúkdóma í íslensku samfélagi, sem hafi fjárhagsleg og heilsufarsleg áhrif inn í alla kima samfélagsins. Sigmar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist þekkja fíknisjúkdóma af eigin raun og þeim fylgi skömm. Hann hafi hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að það sé skylda sín að tala um þennan málaflokk, ekki síst út af eigin reynslu:

„Þegar við erum að missa á annað hundrað manns úr fíknisjúkdómum á ári og vandinn er orðinn svona augljós, þá getum við ekki flúið það með því að segja að það séu bara einhver frávik. Þetta er birtingarmynd á einhverju og kannski því hvert við erum að fara sem samfélag. Við erum einhvers staðar á mjög rangri leið. Börn og ungmenni bíða í tvö ár eftir greiningum og aðstoð við mjög mikilvægum hlutum. Allt í einu er orðinn mikill hnífaburður hjá ungu fólki og svo framvegis. Þetta eru allt birtingarmyndir á því hvert við erum að fara sem samfélag. Ef okkur er einhver alvara með að bæta andlega heilsu þjóðarinnar verðum við að taka þetta alvarlega og gera eitthvað í þessu. Ef við grípum ekki einstaklinga sem eru langt leiddir í fíknisjúkdómum erum við ekki heldur að grípa börn og aðstandendur þessarra einstaklinga. Hvað verður um barn sem elst upp innan um foreldra sem eru veikir af fíknisjúkdómum? Þetta er ekki bara spurning um fólkið sem er veikt, heldur líka fólkið í kringum þau.“

Sigmar talar af mikilli ástríðu um þennan málaflokk, enda þekkir hann áhrif hans af eigin raun:

„Ef að fíknisjúkdómar í samfélaginu eru Gullfoss, þá stöndum við undir með nokkrar fötur og höldum að við séum að redda einhverju þannig. Við erum að vanmeta afleiðingarnar af þessum sjúkdómi, sem hríslast inn í örorkukerfið okkar, atvinnuleysiskerfið, fangelsin, tapaðar vinnustundir, skólakerfið og heilbrigðiskerfið. Afleiddur kostnaður af þessu er gríðarlegur og það er fyrir utan mannúðina við að hjálpa fólki. Ástæðan fyrir því að ég er að tala um þetta er að ég þekki þetta af eigin raun og það streyma til mín sögur úr öllum hornum samfélagsins. Eftir að ég byrjaði að tala um þetta opinberlega koma til mín endalausar sögur frá fólki sem er í örvæntingu. Ég er til dæmis mikið búinn að tala við konu nýlega sem á strák sem er ítrekað búinn að gera sjálfsvígstilraunir sem eru rosalega alvarlegar, ekki bara eitthvað kall á hjálp. Raunverulegar tilraunir til að fyrirfara sér. Þetta er að gerast á nokkrum mánuðum á meðan hann er að bíða eftir plássi og fastur á biðlistum. Þarna er heil fjölskylda undirlögð af þessu og móðirin er búin að vera lengi í fríi frá vinnu til að aðstoða strákinn sinn og það fer öll orkan í þetta. Öll fjölskyldan er í því að passa upp á að drengurinn deyi ekki. Þetta er ekki einn einstaklingur, heldur heil fjölskylda sem er föst í áfallastreitu svo mánuðum skiptir. Þetta verðum við að skilja,“ segir Sigmar og heldur áfram:

„Ég hef þurft að leita mér aðstoðar út af þessum sjúkdómi. Það er ekkert leyndarmál. En ég var fyrst feiminn að beita mér fyrir þessum málaflokki í stjórnmálunum, sem er örugglega bara einhver skömm í mér sem fylgir oft fíknisjúkdómum. Þessi sjúkdómur hefur mikil áhrif á sjálfsmyndina, enda hefur þetta mikil áhrif á fólkið í kringum þig. Ein af ástæðum þess að ég stend svona þétt við bakið á Þorgerði Katrínu er ekki bara af þvi að við erum mjög sammála í skoðunum, heldur hefur hún reynst mér ofboðslega vel. Ég gekk í gegnum mjög erfiða hluti síðasta sumar og hún tók mig í fangið og hjálpaði mér. Þegar ég byrjaði í pólitík var ég ekki æstur að tala um þessi mál, af því að ég sá þetta sem veikleika sem væri hægt að nota gegn mér. Það væri bara betra að fela þetta en að tala um þetta. En þó að ég hafi ekki gengið alveg beina braut hef ég fengið að vera edrú langstærstan hluta tímans síðan ég fór fyrst í meðferð. Ég hef verið edrú í 24 af síðustu 27 árum, þó að það hafi komið sprungur sem hafi verið erfiðar og leiðinlegar fyrir mig og mitt fólk. En maður á að snúa lífsreynslu upp í styrkleika og ég hef komist að þeirri niðurstöðu núna að það sé nánast skylda mín að tala um þennan málaflokk. Ef ég með mína eigin reynslu ætla ekki að tala um þetta, þá get ég ekki á sama tíma sagt að við séum að vanmeta þennan sjúkdóm og ætlast bara til að einhver annar taki þessa umræðu.“

Sigmar er þrautreyndur fjölmiðlamaður og vann í áraraðir í fréttum og fréttatengdu efni. Í þættinum ræða hann og Sölvi um stöðu fjölmiðla og hvort orðinn sé til of mikill aktivismi innan fjölmiðlanna og hlutleysi hafi á ákveðinn hátt vikið.

- Auglýsing -

„Auðvitað tekur maður stundum eftir fyrirsögnum sem maður myndi ekki endilega kvitta upp á sjálfur. Stundum eru þær of gildishlaðnar og á RÚV þurfa menn að vanda sig sérstaklega mikið. Ef að Ríkisútvarpið vandar sig ekki og það kemur upp rík tilfinning fólks að það sé orðinn til einhver aktivismi, þá auðvitað molnar bara undan stofnuninni og hún tapar erindi sínu. En ég hef reyndar ekki tekið sérstaklega eftir því að þetta sé raunin og ég tók aldrei eftir því að það væri einhver í ,,monkey buisness” inni á fjölmiðlunum þegar ég var að vinna þar. Ég trúi því að blaðamenn vilji vera faglegir, alveg sama á hvaða fjölmiðli þeir vinna, en svo er önnur umræða hvort línan hafi færst eitthvað um það hvað þykir eðlilegt í vinnubrögðum. Sjálfsritskoðun er fyrirbæri sem þarf stöðugt að ræða innan fjölmiðlanna,“ segir Sigmar og heldur áfram:

„Það hafði auðvitað áhrif á þetta allt þegar Donald Trump kom inn í stjórnmálin. Hann er í sjálfu sér pólariserandi og er svolítið mikið í við og þeir. En það er grundvallaratriði í blaðamennsku að láta ekki skoðanir þínar á þessum eina manni hafa áhrif á miðlun þína á upplýsingum. Annað sem mér finnst þurfa að eiga sér stað meiri umræða um. Ef þú ert rosalega ósammála Donald Trump getur þú ekki bara hneykslast yfir því af hverju fólk er að kjósa hann. Reyndu frekar að velta því fyrir þér af hverju fólk er að kjósa hann? Hvað er það í samfélagsgerðinni sem gerir það að verkum að hann talar svona sterkt inn í helming bandarísku þjóðarinnar? Helmingur bandarísku þjóðarinnar eru ekki fasistar. Það er ekki þannig. Þeir sem eru hinum megin við línuna verða að velta því fyrir sér af hverju hann nær til svona margra. Það er verkefnið, frekar en að dýpka gjáina.“

Sigmar segir tíma til kominn að þeir sem stjórni íslensku samfélagi séu sífellt í því að redda hlutum eftir að skaðinn sé skeður. Við eigum að geta skipulagt okkur og komið okkur út úr vítahring verðbólgu og vaxta

- Auglýsing -

„Það er almennt gott að vera Íslendingur og ég er mjög þakklátur að hafa fæðst á Íslandi. En við erum samfélag sem er mjög mikið í reddingum eftir á. Við erum alltaf að takast á við afleiðingar eftir að hlutir eru orðnir. Auðvitað hefur lífsafkoman hér verið erfið í gegnum tíðina og það er hluti af þessu, en vextir og verðbólga eru samt ekkert í DNA-inu okkar. Við eigum bara alls ekki að þurfa að sætta okkur við að hlutirnir séu allt öðruvísi hér en í löndunum í kringum okkur. Við eigum alveg að geta skipulagt og planað saman hvernig við viljum hafa hlutina hér þó að við höfum fæðsta á eyju úti í hafi þar sem veðurskilyrðin eru erfið.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Sigmar og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -