Um tíma stóð til að Ísland yrði konungveldi en ekki lýðveldi. Stefán Pálsson sagnfræðingur fer á Facebook yfir afleiðingar þess en samkvæmt honum þá væri konan á myndinni hér fyrir ofan líklega drottning Íslands um þessar mundir.
„Hér sjáum við glaðbeitta fjölskyldu á leiðinni í bíó fyrir fáeinum árum. Móðirin, Jósefína, er í miðjunni. Kærastinn hennar til tveggja ára þegar myndin var tekin, Kenneth Schmidt, er þessi vörpulegi maður í fína vestinu. Þau eiga núna eitt barn saman. Hinir krakkarnir eru börn Jósefínu frá fyrra hjónabandi. Takið sérstaklega eftir táningspiltinum Júlíusi. Núna er hann 21 árs gamall,“ skrifar Stefán.
Hann heldur svo áfram: „Á sínum tíma datt einhverjum í hug að sniðugt væri að sjálfstætt Ísland yrði ekki lýðveldi heldur konungsveldi. Fyrsti þjóðhöfðingi konungsveldisins Íslands hefði samkvæmt þessum plönum orðið Knútur prins, sem hefði orðið konungur Danmerkur ef erfðareglunum hefði ekki verið breytt til að hleypa Margréti Þórhildi að þrátt fyrir að vera kona. Þessi breyting var öðrum þræði gerð vegna þess að Dönum leist alveg mátulega á Knút, sem þótt m.a. óþarflega áhugasamur um málefni slökkviliðsins. Knútur mun hafa verið skotinn í hugmyndinni um að drottna yfir Íslandi. Hann hafði gefið elsta syni sínum nafnið Ingólfur. Flestum ber saman um að Ingólfur sé föðurbetrungur.“
Miðað við þetta þá hefði Knútur orðið konungur til ársins 1976. „Gerum okkur nú í hugarlund að Knútur hefði fengið giggið. Bessastöðum hefði verið breytt í konungshöll og Knútur konungur hefði ríkt hér á landi frá stríðslokum til dauðadags árið 1976. Líklegt má telja að Íslendingar hefðu fylgt fordæmi Dana og látið krúnuna erfast til elsta barns óháð kyni. Þá hefði Elísabet prinsessa tekið við valdataumunum og í stað þess að vinna í dönsku utanríkisþjónustunni hefði hún verið drottning Íslands til dauðadags 2018, þá 83 ára gömul.“
Hann gefur sér að þetta fólk hefði hagað sér nokkuð veginn eins og í alvörunni. „Þar sem við gefum okkur í þessari tímalínu að fjölskylduhagir persóna og leikenda hefðu þróast nákvæmlega eins og í raunveruleikanum, þá deyr Elísabet fyrsta af Íslandi barnlaus. Þá er loksins komið að Ingólfi. Drengnum sem fæddist annar að ríkiserfðum í Danmörku en var svo svikinn um völdin. Ingólfur fyrsti konungur var kominn fast að áttræðu þegar hann var krýndur og líklega þótti honum tómt vesen að þurfa að flytja til Bessastaða á gamals aldri, en hér átti hann svo sem marga vini og passaði sig á að halda íslenskunni við ef svona kynni að fara,“ segir Stefán.
Flókin erfðaröð hefði svo valdið því að konan á myndinni hefði orðið drottning. „Ingólfur konungur er hins vegar barnlaus og þegar þetta er ritað, í september 2022, er hann orðinn 82 ára gamall og þótt hann sé nokkuð sprækur þá verður hann tæpast eilífur. Blessunarlega áttu barnleysingjarnir Elísabet fyrsta og Ingólfur fyrsti þó bróður sem eignaðist erfingja. Það var Kristján greifi sem lifði það ekki að sjá Ingó bróður taka við af Betu systur. Kristján náði þó að koma erfðaefninu áfram sem fyrr segir. Eignaðist þrjár dætur.
Elst er Jósefína, konan á myndinni. Þegar Ingólfur fellur frá verður hún Jósefína drottning Íslands. Þetta gerir það að verkum að hún ratar stundum í slúðurdálkana í Hjemmet. Júlíus sonur hennar og væntanlegur arftaki í fyllingu tímans kemst hins vegar reglulega á lista yfir álitlegustu piparsveinana í slúðurpressunni enda ekki margir verðandi ríkisarfar á lausu.
…segið svo að það væri ekki gaman að hafa konungsveldi á Íslandi!“