Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Þessu þrifaráði getur þú hent lóðbeint í ruslið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vinsældir umhverfisvænna hreinsiefna hafa farið vaxandi síðustu misseri og þrifaráðin hennar ömmu, á borð við notkun ediks og matarsóda til heimilisþrifa, hafa í auknum mæli átt upp á pallborðið hjá neytendum. Sérstaklega eftir að áhrifavaldar, þá líklega einkum og sér í lagi Sólrún nokkur Diego, fóru að gerast sérlegir boðberar þessara efna. Sem er gott og blessað, enda ekki nema jákvætt að fólk minnki notkun skaðlegra efna til heimilisþrifa.

Í kjölfarið hafa verslanir jafnvel farið að selja sérstakar „ediksblöndur“ í úðabrúsum. Líklega er ágætt að benda á að það er engu betra en að kaupa brúsa af ediki og blanda út í vatn – jafnvel með viðbættum ilmolíudropum eftir smekk. En gott og vel.

Bæði edik og matarsódi hafa marga kosti þegar kemur að heimilisþrifum, þó mikilvægt sé að kynna sér vel til að mynda hvaða efni þola edik og hver ekki. Sýrnin í edikinu getur nefnilega farið illa með suma fleti, þó það virki stórvel á aðra.

„Töfrablandan“

Einhversstaðar á leiðinni hefur hinsvegar orðið til mikill misskilningur um gagnsemi þessara tveggja efna og hans gætir víða. Ótal áhrifavaldar og sjálfskipuð þrifaséní lofa í bak og fyrir blöndu af efnunum tveimur. Edik og matarsódi eiga sumsé að vera töfrablanda þegar kemur að ýmsum óhreinindum, erfiðum blettum… listinn er langur. Þið vitið: gott í sitthvoru lagi – enn betra saman.

Nú munu áhrifavaldar og velunnarar ef til vill kafna á Sjöstrand kaffinu sínu, úr keramíkbollanum sem stillt hafði verið upp á krumpuðu hörrúmfatasænginni. Ég biðst forláts, vonandi helltist ekki á samstæða drapplitaða jogginggallann.

- Auglýsing -

En þessa sápukúlu þarf að sprengja. Það vill nefnilega þannig til, að þegar ediki og matarsóda er blandað saman gerist… ekkert. Engir töfrar, engin ofurþrifasúperkalífragi-blanda. Efnin núlla hvort annað út. Þetta er einföld efnafræði og öllum alveg hreint velkomið að gúggla.

Það sem gerist þegar matarsódi kemst í tæri við edik er að efnablandan fer að krauma, búbbla, þið vitið. Lítur út eins og eitthvað magnað sé að gerast, en það er ekki svo. Ástæðan fyrir því að efnin bregðast hvort við öðru á þennan hátt er að matarsódi er basískur, á meðan edik er súrt. Um leið og blandan hættir að krauma er ofmetið vatn það eina sem stendur eftir.

Það eina sem getur verið nytsamlegt við blönduna er að nota hana rétt á meðan hún kraumar og er enn dálítið basísk. Þannig er hægt að hella matarsóda og dálitlu ediki beint á eftir ofan í vatnslás á vaski og skrúbba niður með mjóum bursta rétt á meðan viðbrögð efnanna eru í hámarki. Hella svo heitu vatni á eftir.

- Auglýsing -

Hvað varðar önnur þrif, til dæmis þegar ná á erfiðum blettum af flötum eða úr efnum, eða þegar þarf að leysa upp fasta fitubletti og óhreinindi, gefst betur að nota matarsóda einan og sér blandaðan við vatn. Þá verður til nokkurskonar ræstikrem sem er gott til ýmissa verka.

Semsagt, edik og matarsódi eru hvort um sig gagnleg efni til þrifa, en best að nota í sitthvoru lagi. Sýrnin í edikinu er til að mynda góð til að losna við vatnsbletti og matarsódinn er frábær fituleysir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -