Síðustu vikur hefur IKEA á Íslandi verið með kosningu um bestu vöru framleiðandans vinsæla á samfélagsmiðlum sínum.
Eftir kosningu milli ótal frambærilegra og vinsælla húsgagna, vara og smáhluta var niðurstaðan kunngerð í gær:
Uppáhalds vara neytenda er Istad, margnota lokanlegur plastpoki.
Um pokana segir á Instagram síðu IKEA:
„Ekkert BPA. Unnið úr endurnýjanlegum auðlindum. Sterkir sem þýðir að hægt er að nota þá aftur og aftur. Tvöföld lokun svo þeir halda innihaldinu fersku og draga þannig úr matarsóun.“
Ef til vill hefðu margir talið að vinsælasta varan yrði eitthvað allt annað. Húsgagn á borð við Billy bókaskápinn sívinsæla, Kallax hillusamstæðu, Lack borð eða Ektorp sófa.
Í það minnsta verður það að teljast nokkuð óvænt að vinsælasta vara húsgagnarisans sé plastpoki.
En, neytendur hafa talað. Nú hlýtur IKEA á Íslandi að birgja sig upp af pokunum í massavís.