Þingmaður Pírata, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, var handtekin af lögreglu á föstudaginn, á skemmtistaðnum Kíkí Queer bar. Staðfesti hún þetta við fréttastofu RÚV. Segir hún viðbrögð dyravarðanna hafa verið með öllu tilhæfulaus.
Fyrr í dag greindi Mbl.is frá málinu en þar sagði Arndís að ástæða handtökunnar hafi verið sú að hún hafi dvalið of lengi inni á salerni skemmtistaðarins. Dyraverðirnir hafi ætlað að henda henni út af þessum sökum og í framhaldinu hafi þeir snúið hana niður.
Segir hún í samtali við Mbl.is að dyraverðir Kíki Queer bar hafi óskað eftir aðstoð frá lögreglu sem hafi fjarlægt Arndísi og síðan skutlað henni heim.
Þingkonan býst ekki við að henni verði birt ákæra og telur líklegt að engir eftirmálar verði af atvikinu. Segist hún fagna viðbrögðum lögreglu sem hafi brugðist hárrétt við í málinu en tekur fram að viðbrögðin við því sem gerðist hafi verið með öllu tilefnislaust.
„Dyraverðir óskuðu eftir aðstoð. Dyraverðir voru búnir að snúa mig niður vegna þess að það átti að henda mér út fyrir að hafa verið of lengi á salerninu, það er bara svoleiðis. Ég er þingmaður og ég hugsaði með mér: „Það er kannski ekki alveg ástæða til að bera mann hér út“. Þetta var óþarflega niðurlægjandi og óþarflega mikil harka af þeirra hálfu [dyravarðanna] og þar streitist ég á móti og þetta kannski vindur upp á sig og þau óska eftir aðstoð lögreglu við að koma mér út.“
Í samtali við mbl.is segist hún bera fyllstu virðingu fyrir störfum öryggisgæslufólks, starfið sé snúið og erfitt að bera ábyrgð á stórum hópum sem kannski sé ekki alveg upp á sitt besta.