„Þeir sem sæki um ríkisborgararétt beint til Alþingis séu orðnir 40 prósent af öllum umsóknum og það hafi ekki lengur þótt réttlætanlegt að veita þeim einhvern forgang í kerfinu fram yfir þá sem séu í eðlilegum farvegi með sínar umsóknir um ríkisborgararétt,“ segir Jón Gunnarsson í samtali við fréttastofu RÚV.
Í grein sem Jón Gunnarsson innanríkisráðherra birti á Vísi fyrr í vikunni er full ábyrgð tekin á fyrirkomulaginu. Jafnrétti þurfi að ríkja milli þeirra sem sækja um til Alþingis og þeirra sem sækja um með hinni leiðinni. Umsóknir til Alþingis hafi orðið að einhvers konar „VIP-röð“.
Hann segir að þingið hafi áfram sína möguleika að veita ríkisborgararétt. „Þróunin hefur hins vegar verið með þeim hætti að þessi undantekning, sem reiknað var með að þessi leið yrði, hefur orðið að meginreglu og þeim er alltaf að fjölga sem sækja um ríkisborgararétt beint til Alþingis.“
Hann segir að með þessu verði allir jafn settir gagnvart málshraða, hvort sem þeir sæki um ríkisborgararétt til Alþingis eða eftir hinu lögbundna ferli. „Breytingin er eingöngu sú að nú eru ekki teknir framfyrir röðina þær umsóknir sem óskað er eftir að berist Alþingi.“
Telja að ekki sé farið að lögum
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir í samtali við fréttastofu að ráðuneytið hafi ákveðið þetta verklag upp á sitt einsdæmi að því er virðist til að tryggja að fólk sem sækir um í gegnum þingið – frekar en að fara stjórnsýsluleiðina – fái ekki skjótari afgreiðslu en aðrir.
Að mati Arndísar snýst málið ekki um hvernig umsóknarferli „eigi að vera“ eins og innanríkisráðherra hafi talað um, heldur hvað lögin segja. „Það hvaða skoðanir hver hefur á því hvernig verklagið eigi að vera hefur því nákvæmlega ekki neitt með málið að gera.“ Svona séu reglurnar og stjórnvöld eigi að afhenda þau gögn sem nefndin fer fram á.
Óánægju með þetta verklag gætir ekki aðeins innan raða minnihlutans. Þingmenn Vinstri-grænna gagnrýndu stofnunina einnig í umræðum á Alþingi fyrr í vikunni.
„Við getum ekki látið koma svona fram við okkur af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það á ekkert með að hlutast til með þessum hætti um verklag sem er í lögum og við störfum eftir hér á Alþingi. Þannig að hæstvirtur dómsmálaráðherra verður að hlutast til um að við fáum þessi gögn,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG í umræðum á Alþingi.
Allir eigi að sitja við sama borð
Allsherjar- og menntamálanefnd þingsins hefur ítrekað óskað eftir að Útlendingastofnun afhendi þær umsóknir sem stofnuninni hafa borist svo þingið geti tekið þær til afgreiðslu, eins og lög kveða á um.
Í samskiptum Útlendingastofnunar og nefndarinnar, sem fréttastofa hefur undir höndum, ber stofnunin fyrir sig að hún ætli að afgreiða umsóknir sem eiga að berast þinginu á sama tíma og aðrar umsóknir til stofnunarinnar. Þetta sé gert samkvæmt fyrirmælum frá innanríkisráðuneytinu (áður dómsmálaráðuneytinu).
Nefndin hefur krafið Útlendingastofnun um gögnin á grundvelli þingskaparlaga, sem kveða á um skyldu stjórnvalda til að afhenda þingnefndum umbeðin gögn, og gefið stofnuninni frest til 1. febrúar.
Þrátt fyrir það svarar stofnunin því til að stofunin muni fylgja fyrirmælum ráðuneytisins.
Útlendingar öðlast ríkisborgararétt á tvo vegu
Lögum samkvæmt geta útlendingar öðlast ríkisborgararétt á tvo vegu. Ein leið er að sækja um til Útlendingastofnunar, sem metur hvort skilyrði eru uppfyllt og veitir þá ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun.
Hin leiðin er með lögum frá Alþingi. Lögum samkvæmt tekur Útlendingastofnun við slíkum umsóknum og skilar til þingsins ásamt umsögn. Hefð hefur verið fyrir því að þessar umsóknir séu afgreiddar tvisvar á ári, stuttu fyrir jól og áður en þing fer í sumarfrí. Ekki var hægt að gera það fyrir síðustu jól þar sem umsóknirnar höfðu ekki borist þinginu, sem fyrr segir.