Laugardagur 14. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Þjóðfélagsstaða skýrir lægri einkunnir á landsbyggðinni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ný rannsókn fræðimanns við Háskólann á Akureyri skýrir að stærstu leyti hvers vegna einkunnir nemenda á samræmdum prófum og PISA eru lægri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. „Ég vona að þessi grein dragi aðeins úr þessari hugmynd að skólastarf sé ekki í lagi á landsbyggðinni,“ segir höfundurinn.

 

Þjóðfélagsstaða nemenda fer langt með að skýra þann mun sem gjarnan sést á árangri nemenda í PISA á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar. Þetta er meginniðurstaða nýrrar fræðigreinar Þorláks Axels Jónssonar, aðjúnkts við Háskólann á Akureyri. Hann sýnir þar fram á að verulegur munur sé á þjóðfélagsstöðu nemenda á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu og að sá munur hafi mest áhrif á mun á frammistöðu á prófum eftir landssvæðum. Félagsleg samsetning svæðanna sé ekki sú sama.

„Valdið býr til mynd af því hvernig hlutirnir hanga saman,“ segir Þorlákur Axel Jónsson um framsetningu menntamálayfirvalda á niðurstöðum prófa.

Þorlákur segir í samtali við Mannlíf að samfélagið hafi lengi staðið frammi fyrir þeirri mynd að námsárangur á samræmdum könnunarprófum og í PISA-rannsóknum sé slakari á landsbyggðinni, án þess að yfirvöld menntamála hafi greint frá þeim þáttum sem skýri þann mun. Hann segir iðulega gefið til kynna að búseta sé önnur lykilbreytan til skýringar á námsframmistöðu, ásamt kyni. Þennan takt hafi yfirvöld menntamála slegið lengi og hann hafi haft mótandi áhrif á samfélagsumræðuna. „Þessi samanburður sýnir alltaf sömu slöku frammistöðuna. Þó hefur iðulega fylgt þessari framsetningu ábending um að álykta um of,“ útskýrir Þorlákur.

Í rannsókninni rýnir hann í gögn og fréttaflutning allt aftur til áttunda áratugar síðustu aldar. Hann tekur í grein sinni dæmi um fyrirsögn úr Helgarpóstinum árið 1983: „Útkoma dreifbýlisunga á samræmda prófinu mun lakari en reykvískra“.

Skoðanabundið vald stjórnsýslunnar

Munur hefur lengi verið á frammistöðu nemenda á landsbyggðinni annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar, þegar kemur að samræmdum prófum og prófum PISA. Hefðbundinn samanburður á einkunnum í 10. bekk út frá tvískiptingu Menntamálstofnunar í tvö svæði, landsbyggð og höfuðborgarsvæði, sýni lakari námsárangur í öllum greinum á landsbyggðinni. Munurinn reiknast tölfræðilega marktækur.

- Auglýsing -

Þorlákur bendir á að búsetumunur sé ekki sá sem lýst hefur verið af hálfu stjórnsýslu menntamála og gengið sé út frá í þjóðmálaumræðunni, þegar ólík þjóðfélagsstaða sé tekin með í reikninginn. Hann bendir á kenningar um skrifræðiskúgun og táknrænt ofbeldi í þágu ríkjandi þjóðfélagsástands. „Þannig heldur stjórnsýslan í stofnanabundið vald sitt til að skilgreina hið félagslega rými skólastarfs. Æskilegt væri að rannsaka skólastarf á landsbyggðunum með frekari greiningu á gögnum PISA að teknu tilliti til mismunandi félagslegs bakgrunns svæða og grunnskóla þar.“

Þorlákur segir við Mannlíf að með þessari framsetningu séu menntamálayfirvöld ekki að bera saman sömu hluti. „Þetta virkar þannig að Menntamálastofnun, og forverar hennar, búa til þennan sannleika með því að sleppa því að setja niðurstöðurnar í félagslegt samhengi. Það er það sem valdið gerir. Það býr til mynd af því hvernig hlutirnir hanga saman. Það er ekkert endilega víst að sú mynd sé til að skerpa skilning okkar á viðfangsefninu.“

Hefur vantað upplýsingar um þjóðfélagsstöðu

- Auglýsing -

Upplýsingum um þjóðfélagsstöðu hefur ekki verið safnað á Íslandi. Þorlákur bendir á að Hagstofa Íslands gefi ekki út neinn kvarða þar sem hægt sé að flokka nemendur eftir stöðu – heldur frekar menntun eða öðrum þáttum. „Í stóru löndunum er fólk iðulega flokkað eftir þjóðfélagsstöðu. Hagstofan safnar bara gögnum sem aðrir hafa búið til. Þessa breytu hefur vantað hér í einhverja áratugi en í PISA er hins vegar mælikvarði á þjóðfélagsstöðu. Þar er meðal annars spurt um störf foreldra, menntun foreldra og eigur og heimili. Úr þeim svörum er búinn til kvarði sem hægt er að nota í samanburð á milli landa,“ útskýrir hann.

Spurður hverju hann vonist til að þessi rannsókn skili svarar Þorlákur: „Ég vona að þessi grein dragi aðeins úr þessari hugmynd að skólastarf sé ekki í lagi á landsbyggðinni; að það sé hægt að álykta að það sé ekki í lagi vegna lakari útkomu á prófum. Menn þurfa að forðast að álykta sjálfkrafa um skólastarf út frá meðaltölum.“

Landsbyggðin þarf nýja greiningu

Í greininni bendir Þorlákur á að þessar niðurstöður geti í stærra samhengi dýpkað skilning á þeim áskorunum sem skólar á landsbyggðunum standa frammi fyrir. Þær geti styrkt sveitarstjórnir, skólastjóra og kennara í því að fylgja stefnu um skóla fyrir alla. Mikilvægt sé að stefnumótun í menntamálum hvíli á sem bestri þekkingu. Þörf sé á rannsóknum sem greini áskoranir skólastarfs á landsbyggðinni í ljósi þess að búsetumunurinn, sem þjóðfélagsumræðan gangi út frá, sé ekki til staðar þegar þjóðfélagsstaða hafi verið tekið með í reikninginn.

Þorlákur segir að þrátt fyrir að þjóðfélagsstaða nemenda skýri að mestu leyti þann mun sem er á milli einkunna nemenda á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni skýri sú breyta ekki alveg allan muninn. Mikilvægt sé að kanna hvaða aðrir þættir hafi áhrif á árangurinn. „Dæmi eru um að búsetumunurinn sé áfram fyrir hendi þrátt fyrir að reiknað sé með þjóðfélagsstöðu en einnig að þá komi fram tölfræðilega marktækur munur landsbyggðinni í vil sem ekki virtist áður vera að finna.“

Stjórnsýslan alltaf hafnað kenningunni

Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, gerir grein Þorláks að umtalsefni á Facebook. Hann bendir á að fréttir um lakari árangur nemenda landsbyggðarinnar dynji á samfélaginu á hverju einasta ári. Í framhaldinu sé oft talað um lakari mannauð í skólum, áskoranir fámennra skóla og svo framvegis.

Þóroddur Bjarnason.

„Í kjölfarið viðrar stofnun í Reykjavík svo yfirleitt þá hugmynd að hún þurfi að fá meiri völd yfir þessum slakari skólum úti á landi, í þágu blessaðra barnanna.“

Hann bendir á að lengi hafi verið vitað að menntun foreldra sé einn sterkasti forspárþátturinn fyrir námsárangur barna og að börnum háskólamenntaðra foreldra gangi mun betur á prófum en öðrum börnum. Að sama skapi hafi verið vitað að mjög mikill munur sé á menntunarstigi á milli landshluta. „Hlutfall háskólamenntaðra er þannig almennt tvöfalt hærra á höfuðborgarsvæðinu og utan þess.“ Þóroddur segir að stjórnsýslan hafi alltaf vísað því á bug að munur á frammistöðu nemenda skýrist fremur af bakgrunni foreldra en gæðum skólanna. Í því ljósi séu niðurstöður Þorláks Axels afar merkilegar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -