Eitt af stefnumálum Valkyrjustjórnarinnar sem kynnt verður á morgun er að kosið verði um áframhaldandi viðræður við ESB um inngöngu Íslands í sambandið en Heimildin greinir frá þessu. Samkvæmt heimildum Heimildarinnar var lítil andstaða við þessa hugmynd innan hópsins en óljóst er þó hvenær kosið verður um viðræðurnar en gera megi ráð fyrir að það verði á seinni hluta kjörtímabilsins. Þá er tekið fram að Þorgerður Katrín hafi verið ósveigjanleg þegar kom að þessu máli í viðræðunum og samþykktu Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, að kosið yrði um málið en innganga í ESB hefur lengi verið á stefnuskrá Samfylkingarinnar meðan Flokkur fólksins hefur gefið óljós svör. Sagt er að endurkoma Donald Trump í forsetastól Bandaríkjanna hafi mögulega haft áhrif á þessa ákvörðun en mikil óvissa er með samstarf við landið eftir að forsetinn tilvonandi hótaði háum tollum á innflutning frá öðrum ríkjum.