Lögregla og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út eftir að kviknað hafði í heimahúsi í Hafnarfirði. Húsráðendur náðu tökum á eldinum og hafði þeim tekist að slökkva eldinn þegar slökkvilið bar að garði. Kviknað hafði í út frá potti.
Í sama hverfi síðar um kvöldið barst lögreglu tilkynning um umferðarslys. Þar hafði bíl verið ekið á ljósastaur en ökumaður var undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Maðurinn var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangaklefa. Þjófar voru á ferð í hverfum 105 og 108 í gærkvöldi en lögreglu barst tilkynning um innbrot í tvö fyrirtæki í hverfunum. Rafhlaupahjól og bifreið skullu saman í Kópavogi. Ökumaður rafhlaupahjólsins var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar en ekki er vitað um líðan hans.